Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:31:14 (585)

2000-10-16 18:31:14# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:31]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess að ummæli mín um erlendar fjárfestingar hafa verið gerð að umræðuefni og dregið hefur verið fram að ég hafi sagt mismunandi hluti á mismunandi tímum þá er það út af fyrir sig rétt. Ég var að reyna að gera grein fyrir því áðan að þetta er mál sem ég hef verið að skoða undanfarnar vikur og jafnvel má segja undanfarna mánuði og haft ástæðu til að tjá mig um það í fjölmiðlum á undanförnum vikum. Í millitíðinni fór fram umræða þar sem upplýsingar komu fram um það hvernig staðan væri. Niðurstaða mín eftir þá athugun og eftir þá umræðu er sú að við þurfum að láta reyna betur á það hvort ástæða sé til þess að breyta þessu, hvort þetta hamli okkur í því að fara í þá útrás erlendis sem við viljum fara í.

Varðandi umræðu um auðlindanefndina og það hverjir áttu þar sæti er rétt að stjórnarflokkarnir tilnefndu menn í nefndina sem áttu ekki sæti á Alþingi og hluti þeirra voru óflokksbundnir menn, meðan vinstri flokkarnir, sem urðu síðan Samfylkingin, tilnefndu kjörna alþingismenn sem ég geri ráð fyrir að hafi verið flokksbundnir og séu þá flokksbundnir í Samfylkingunni í dag.

Ástæðan fyrir því að ég er að draga þetta fram er sú að formaður Samfylkingarinnar hefur talað svolítið í tvær áttir varðandi afstöðu flokksins til álits auðlindanefndarinnar. Í umræðunni í dag hefur komið fram að þingmenn flokksins sem hér hafa talað hafa haldið uppi öðrum sjónarmiðum en hafa komið fram í nál. auðlindanefndar og þrír þingmenn Samfylkingarinnar skrifuðu undir. Þess vegna sá ég ástæðu til þess, herra forseti, að gera þetta að umræðuefni að það voru þrír samfylkingarmenn í nefndinni en ég veit ekki til þess að það hafi verið nema þrír sjálfstæðismenn í nefndinni.