Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 14:28:19 (630)

2000-10-17 14:28:19# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[14:28]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Við tölum auðvitað í austur og vestur eins og ég gerði ráð fyrir. Ég gerði glöggan greinarmun annars vegar á ráðgefandi stjórnum og hins vegar stjórnum sem hefðu ráð í hendi sér. Við skulum hins vegar tala tæpitungulaust. Auðvitað hefur þróunin í þeim stofnunum þar sem Alþingi hefur afsalað sér valdi til að skipa viðkomandi stjórnir einfaldlega verið í þá veru að ráðherrarnir hafa hver af öðrum raðað flokksgæðingum sínum í þær viðkomandi stjórnir (Gripið fram í.) og borið ábyrgð á þeim, haft þær hreinar flokkslegar stjórnir. Íbúðalánasjóður kemur upp í hugann, Byggðastofnun í auknum mæli, Íslandspóstur, Landssíminn. Það er hver silkihúfan upp af annarri, flokkshestar, íhaldsmenn og framsóknarmenn og til þess er auðvitað leikurinn gerður, herra forseti. Það er bara þannig, því miður. Við skulum því tala algerlega tæpitungulaust um málið og ekki vera að setja það í neinn umtalsverðan búning.

Hér bregður að vísu við annan tón, þ.e. verið er að leggja niður stjórn viðkomandi stofnunar þannig að það á ekki við í þessu sambandi. En af því að hv. þm. ræðir sérstaklega um þennan þátt máls, þá skulum við bara taka umbúnaðinn utan af og sýna okkur til hvers þessi leikur er gerður og af hverju menn fara í þennan leik. Það er alveg ljóst. Það er til þess að tryggja hin flokkslegu tök stjórnarflokkanna á viðkomandi stofnunum og þeir gera það algerlega blygðunarlaust og allt tal hér þegar í þessi mál er farið á hinu háa Alþingi um að þar eigi að gæta jafnvægis í þingstyrk stjórnmálaflokkanna hefur algerlega brugðist og verið svikið jafnharðan. Það er kjarni málsins, en kannski er það líka hv. þm. þóknanlegt.