Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 15:15:01 (646)

2000-10-17 15:15:01# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[15:15]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 20 um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála sem ég flyt ásamt hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur og Guðmundi Árna Stefánssyni. Frv. þetta felur í sér að horfið verði frá þeirri tilhögun sem komið var á með breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, að því er varðar skýrslutöku af börnum fyrir dómi sem sætt hafa kynferðislegri misnotkun og að fyrri tilhögun verði lögfest að nýju. Meginbreytingin var sú að skýrslutaka var á vegum dómara með þeim breytingum sem gerðar voru á lögunum en ekki lögreglu eins og áður var.

Það er skoðun mín og margra fleiri, og m.a. hefur fjöldi félagasamtaka sent dómsmrh. áskorun þar um, að eldri lagaákvæði tryggðu betur velferð barna sem sætt hafa kynferðisofbeldi. Hin nýju lagaákvæði frá maí á síðasta ári hafa að auki skapað mikinn glundroða við framkvæmd þessara mála, óvissu og ósætti sem verður ekki við unað. Það er meginmarkmið þessa frv. að koma málunum aftur í sama horf og var áður.

Ég held að fullyrða megi að þingmenn hafi talið með umræddri lagabreytingu sem var gerð að þeir væru að treysta réttarstöðu barna en ekki veikja hana. Reynslan hefur því miður orðið önnur en í kjölfar lagabreytingarinnar var komið upp aðstöðu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þegar ég segi að fullyrða megi að þingmenn hafi talið að þeir væru að styrkja réttarstöðu barna en ekki veikja hana átti ég sæti í þeirri nefnd sem fjallaði um þetta mál og þar var aldrei talað um að með þessu yrði sú mikla breyting sem varð á Barnahúsi með lagabreytingunni eins og raunin hefur orðið á. Ég vitna í því sambandi til þess að Barnaverndarstofa, sem hefur gagnrýnt lagabreytinguna mjög og talið hana til hins verra, andmælti henni ekki og stóð í þeirri sömu trú og þingmenn að verið væri að styrkja réttarstöðu barna. En síðan lagabreytingin var gerð hefur stærsti hluti skýrslutöku barna farið fram í Héraðsdómi.

Ég held að rétt sé að rifja aðeins upp forsögu Barnahússins. Því var komið á laggirnar í kjölfar upplýsinga sem komu fram á Alþingi um að barnaverndarnefndir hefðu fengið til meðferðar 465 mál vegna meintra kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis á árunum 1992--1996 en aðeins var birt ákæra í 45 þeirra. Því má segja að Barnahúsið sé svar við eindregnum óskum þingmanna sem fram komu í umræðum á þingi um þessa skelfilegu tölur sem birtust fyrir nokkrum árum. Ég tel að þar hafi verið brugðist við með ábyrgum hætti, bestu úrlausna leitað og þeim hrint í framkvæmt. En meginmarkmiðið með starfsemi Barnahúss er að veita börnum, sem þolað hafa kynferðisofbeldi, alla nauðsynlega þjónustu á einum stað. Þannig er unnt að forða börnum frá því að endurtaka frásagnir af viðkvæmum atvikum fyrir ólíka viðmælendur á mörgum stöðum. Rannsóknir hafa einmitt sýnt að slíkt er líklegt til að auka enn á þjáningu þeirra. Að auki getur slíkt spillt rannsókn málanna þar sem hætta er á að saga barnsins brenglist eftir því sem viðmælendur eru fleiri.

Starfsemi Barnahúss má greina í þrennt, þ.e. skýrslutöku af börnum, læknisskoðun og greiningu meðferðar. Skýrslutöku af börnum annast sérfræðingar sem hlotið hafa sérstaka þjálfun til þess erlendis. Á stuttum starfstíma Barnahúss, sem sett var á laggirnar sem tilraunaverkefni og vert að hafa í huga að því tilraunaverkefni á að ljúka 1. nóvember nk., hefur fengist meiri reynsla við framkvæmd slíkrar skýrslutöku en áður hefur þekkst hérlendis þar sem tekin hafa verið viðtöl við hátt á þriðja hundrað börn. Þá er Barnahúsið sérstaklega hannað með það fyrir augum að börnunum líði vel í viðtölum en það er forsenda þess að þau geti tjáð sig greiðlega um viðkvæm mál.

Eins og ég sagði áðan hefur Barnahúsið sannað sig og gerði mjög fljótlega þannig að allir sáu fyrir sér a.m.k. áður en þessi lagabreyting varð að Barnahúsið yrði fest í sessi og það væri komið til að vera til framtíðar.

Ástæða er til að nefna það að sænskur sálfræðiprófessor sem rannsakað hefur sérstaklega skýrslutökur af börnum sem grunur leikur á að hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi segir að Barnahús geti verið fyrirmynd annarra norrænna þjóða en hann var hér á landi fyrr á þessu ári. Hann undraðist þær lagabreytingar sem færðu skýrslutökur úr Barnahúsi í Hérðasdóm.

Ég vil að það komi skýrt fram þar sem ég er að mæla fyrir breytingu að málin verði færð aftur til fyrra horfs að ég tel að sérútbúin aðstaða í Héraðsdómi eigi fyllilega rétt á sér. Henni ber að fagna og má segja að hún sé löngu tímabær. En ég tel að hana eigi að nota í öðrum tilgangi en hér er gert varðandi skýrslutöku af ungum börnum vegna kynferðisbrota. Hana má vissulega nýta að því er varðar nauðgunarmál og þegar ekki er um að ræða börn og þegar um er að ræða skýrslutökur af fólki sem þarf sérstakar aðstæður við. Ég er alls ekki að gagnrýna þessa sérútbúnu aðstöðu, ég tel bara að hana eigi ekki að nota að því er varðar skýrslutöku af börnum sem sætt hafa kynferðislegri misnotkun.

Ég held að margir hafi bundið mjög miklar vonir við að málið mundi leysast farsællega hjá hæstv. dómsmrh. og félmrh. sem hafa fjallað um þetta mál og nokkur munur kom fram á afstöðu félmrh. hæstv. og hæstv. dómsmrh. til þessa máls. Því miður held ég að þær verklagsreglur, sem settar hafa verið og kynntar voru nýlega af dómstólaráði, breyti í engu því sem kom í ljós eftir að þetta lagaákvæði var sett. Það eru í raun og sanni lítil leiðbeinandi fyrirmæli í þessari verklagsreglu og ekki þar að finna, sem menn töldu þó að væri hægt að fá fram sem sáttaleið, þ.e. að skýrslutaka af börnum undir 14 ára aldri mundi ávallt fara fram í Barnahúsi en þá af eldri börnum í dómhúsi.

Verklagsreglurnar eru alls ekki á þá leið enda kom fram í viðtali sem haft var við formann dómstólaráðs að hann tók sérstaklega fram í tilkynningunni varðandi skýrslutökuna að dómarinn geti ákveðið að skýrslutaka fari fram í Barnahúsi ef fyrir liggur að barnið þurfi að gangast undir læknisrannsókn sem fram getur farið þar, þ.e. dómarinn ákveður það í öllum tilvikum og þá virðist það bara vera sérstaklega þegar barnið þarf að gangast undir læknisrannsókn. Hann tók skýrt fram að reglurnar væru einungis leiðbeinandi að því er þetta varðar. Ég tel reglurnar því mjög máttlausar og alls ekki til þess fallnar að gera hér breytingu á sem ég held að flestir séu sammála um að þurfi að gera.

Ég vil taka það fram að það hefur komið fram að dómararnir sjálfir eru ekkert sérstaklega sáttir við þá leið sem þeir telja sig þurfa að fara miðað við þessa lagabreytingu. Ég batt því miklar vonir við að hæstv. dómsmrh. mundi beita sér fyrir lagabreytingu á Alþingi til að færa málið aftur til fyrra horfs. Það hefur ekki orðið og því höfum við nokkrir þingmenn í Samfylkingunni flutt þetta frv. og séð ástæðu til þess miðað við hvernig mál þróuðust og hvaða mynd það fékk eftir að verklagsreglurnar voru settar.

Í þessum verklagsreglum eru því engin tilmæli að finna til dómara um að nota Barnahúsið, ekki einu sinni fyrir yngstu börnin. Ég tel að tilraunir ráðherra félags- og dómsmála eða það samkomulag sem menn bundu við að yrði lausn á málinu, sem þeir höfðu boðað, hafi ekki miklu skilað.

Í raun og sanni eru til tvær leiðir í þessu máli sem gætu komið til álita við lagabreytingu. Það er sú sáttaleið sem margir töluðu um, þ.e. að skýrslutaka af börnum yngri en 14 ára fari fram í Barnahúsi, og hin leiðin varðandi lagabreytinguna er sú sem ég mæli fyrir, þ.e. að taka upp fyrri skipan, að losa dómarana undan þessu og fela lögreglu á nýjan leik þetta verkefni.

Alls staðar í hinum vestræna heimi utan Noregs er skýrslutaka af börnum við frumrannsókn kynferðisbrotamála gegn börnum á ábyrgð lögreglu. Engin áform eru um breytingu þar á svo mér sem kunnugt um eins og í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, að breyta þessu og færa þessi verkefni yfir til dómaranna eins og hér er gert og er í Noregi líka.

Ég vil vitna í grein sem forstöðumaður Barnahúss skrifaði fyrr á þessu ári þar sem hann segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Enginn þeirra sem koma að vinnslu kynferðisbrotamála á Íslandi bað um þá breytingu á lögum um meðferð opinberra mála sem varðar skýrslutöku af börnum. Þvert á móti lögðust dómarar gegn henni, ríkissaksóknarinn og lögreglan. Landlæknir, barnalæknir, fjölmargir félagsmálastjórar og félagsráðgjafar, Barnaheill, Samtök um kvennaathvarf og margir aðrir, auk Barnaverndarstofu, hafa beðið um leiðréttingu þessara mála nú þegar áhrif lagabreytinganna hafa komi fram.``

Ástæða er undir þessari umræðu að vitna til fréttatilkynningar sem dóms- og kirkjumrh. var send og undirskriftir 33 samtaka og stofnana sem henni voru afhentar þar sem fram kemur eindregin ósk um að hún, þ.e. hæstv. dómsmrh., tryggi áframhaldandi starfsemi Barnahúss. Í fréttatilkynningunni segir:

,,Við teljum að yfirheyrslur yfir börnun í Barnahúsi séu betur til þess fallnar að tryggja réttaröryggi sakbornings sem brotaþola en yfirheyrslur annars staðar vegna þeirrar sérþekkingar sem fyrir hendi er í Barnahúsi á yfirheyrslum yfir börnum.``

Undir það skrifar framkvæmdastjóri Barnahúss. Með þessu fylgir yfirlýsing um þetta efni þar sem fram kemur hvatning til hæstv. dóms- og kirkjumrh. til að tryggja áframhaldandi starfsemi barnahúss og undir það skrifar Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Barnaheill, fagdeild geðhjúkrunarfræðinga, Félag ábyrgra feðra, Félag íslenskra barnalækna, Félag einstæðra foreldra, Félag heyrnarlausra, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag íslenskra leikskólakennara, Foreldrafélag geðsjúkra barna og unglinga, Geðhjálp, Heimili og skóli, Hitt húsið, Hlaðvarpinn, karlanefnd Jafnréttisráðs, Kennarasamband Íslands, Kvennaráðgjöfin, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Ljósmæðrafélag Íslands, Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, Ný dögun, Prestafélag Íslands, Rauði kross Íslands, Samfok, Samtök um kvennaathvarf, Starfsmannafélag ríkisstofnana, Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa, Stígamót, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Styrktarfélag vangefinna, Vímulaus æska og foreldrahópurinn, Öryrkjabandalag Íslands.

Hér er eindregin áskorun til hæstv. dómsmrh. frá flestum þeim félagasamtökum sem láta sig með einum eða öðrum hætti þetta mál skipta þar sem óskað er atbeina hennar til þess að færa málið til fyrra horfs en allt kemur fyrir ekki. Ég skil satt að segja ekki af hverju hæstv. dómsmrh. kemur ekki til móts við þessi sjónarmið og skoðanir og eindregnu óskir sem hér koma fram. Þau rök, eru mjög ítarleg, sem sett eru fram m.a. af hendi Barnaverndarstofu og þeirra aðila sem fjalla um barnaverndarmál þar sem eindregið er óskað eftir að málinu verði snúið við og tilvist Barnahússins tryggð og að skýrslutaka af börnum vegna kynferðisbrota fari fram í Barnahúsi. Mér er hreint óskiljanlegt, ekki síst þegar fyrir liggur að dómararnir hafa ekki óskað eftir þessari breytingu og gætu fullkomlega sætt sig við það að málið verði aftur fært til fyrra horfs með lagabreytingu. Þetta er því ekki að þeirra eindregnu ósk að málið sé með þessum hætti heldur telja þeir sig fyrst og fremst vera að fylgja lögum frá Alþingi. Mér er því óskiljanlegt hvernig málið hefur komist í þetta horf sem það er í. Hafi Alþingi gert þessi mistök, vegna þess að ég tel að það hafi verið mistök að gera þetta með þessum hætti, ber Alþingi skylda til þess að færa málið aftur til fyrra horfs.

[15:30]

Ég hvet til þess hér í þessum þingsal og í nefndinni sem fær málið til umfjöllunar að sátt geti tekist um þetta mál og að þingið og nefndin sem fær málið til umsagnar geti unnið í sátt með hæstv. dómsmrh. og hæstv. félmrh. að niðurstöðu sem allir geti sætt sig við. Ég held að allir vilji það og auðvitað vilja allir að friður sé um þetta mál. Við erum að fjalla um mjög viðkvæmt mál og ég hef ekki heyrt ein einustu rök fyrir því að það sé betra, skynsamlegra eða eðlilegra, ekki síst náttúrlega fyrir þolendur og fórnarlömb kynferðisbrota og aðstandendur þeirra, að hafa málið í þeim búningi og í þeim farvegi sem það er nú.

Ég vil aðeins vitna til Barnahússins aftur. Í upphafi var það samstarfsvettvangur allra sem koma að rannsókn og vinnslu kynferðisbrota gegn börnum en í undirbúningi Barnahúss tóku þátt fulltrúar ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, félagsmálastjóra, Barnaspítala Hringsins og barna- og unglingageðdeildar Landspítalans ásamt sérfræðingum frá barnaverndarnefndum og Barnaverndarstofu. Þessir aðilar, sem hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna við rannsókn og meðferð þessara mála, vildu allir leggja sitt af mörkum til að tryggja velferð barnanna og auka öryggi og gæði málsmeðferðar með samvinnu ólíkra sérfræðinga. Það var auðvitað meginmarkmiðið með Barnahúsi, megintilgangurinn og markmiðið einmitt að skýrslutakan gæti farið fram þar. Með því fyrirkomulagi næst heildarsýn sem er mikilvæg ásamt því að þekking og reynsla skapast í þessu erfiða og viðkvæma máli og ekki síst það sem var meginatriðið að fórnarlömbin, ung börn, þyrftu ekki margsinnis að endurtaka skelfilega reynslu sína og upplifa hana aftur og aftur með skýrslutökum á hinum ýmsu stigum málsins.

Fyrirmyndin að starfsemi Barnahúss var sótt til Bandaríkjanna og aðlöguð að íslensku réttarfari og velferðarkerfi. Það er fyrsta stofnun sinnar tegundar á Norðurlöndum og hefur vakið mikla athygli. Það hefur verið fjallað um Barnahúsið í fagtímaritum og á ráðstefnum á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum og hópur sérfræðinga hefur komið í heimsókn til að kynna sér starfsemi Barnahúss og starfsmanna þess, sem m.a. hafa verið beðnir um að halda námskeið um framkvæmd rannsóknarviðtala. Því er ljóst að Íslendingar geta verið stoltir af því skrefi sem stigið var með stofnun Barnahúss og auðvitað er það afturhvarf inn í fortíðina ef mál fá að þróast á þann hátt sem þau eru í nú og ekki verði gripið til þess að ná breiðri samstöðu um það á þinginu að hverfa aftur með málið til fyrra horfs.

Ég vil segja, herra forseti, í lokin að afar brýnt er að Alþingi nái viðunandi niðurstöðu í þessu máli og að hér verði tryggð framtíð Barnahúss. Reyndar tel ég að þurfi og eigi, og ætti raunverulega að skoða samhliða frv. eða alla vega á þessu þingi, að festa í sessi með lögum starfsemi og framtíð Barnahúss sem, eins og ég gat um í máli mínu, var einungis tilraunaverkefni. Barnahúsið hefur margsannað sig.

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. dómsmrh. er viðstödd umræðuna og vænti þess að hún taki þátt í henni og hvet til þess um leið og ég lýk máli mínu að við getum náð fullri sátt um málið. Til þess stendur vilji minn og flutningsmanna þessa frv. að sátt geti náðst um málið á þingi, það er eindregin von mín og ósk. Það skulu vera mín lokaorð um leið og ég óska þess að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.