Hlutverk ríkislögreglustjóra

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:17:49 (725)

2000-10-18 14:17:49# 126. lþ. 13.3 fundur 86. mál: #A hlutverk ríkislögreglustjóra# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi LB
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:17]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 86 að leggja fram svohljóðandi fsp. til dómsmrh.:

1. Hefur ráðherra fallið frá þeim markmiðum sem að var stefnt við setningu lögreglulaga um hlutverk ríkislögreglustjóra?

2. Hvernig sér ráðherra fyrir sér þróun embættisins í framtíðinni?

Með lögum nr. 90/1996 var komið á fót embætti ríkislögreglustjóra. Hugsunin á bak við það embætti var að taka við að hluta til hlutverki RLR, en að öðru leyti að vera lítið samræmingarembætti fyrir lögregluna í landinu og fara með yfirstjórn lögreglu í umboði dómsmrh. Enn fremur var hugmyndin sú að ríkislögreglustjóri tæki við ýmsum verkefnum sem heyrðu þá undir löggæsluskrifstofu dóms- og kirkjumrn. Hugmyndin var því sú að leggja RLR niður á þeim tíma, að lögreglumenn sem unnu hjá RLR víða um landið réðust til annarra embætta, kæmu þar inn með þekkingu sína og visku til þess að styrkja þau embætti, en til yrði lítið samræmingarembætti sem tæki við þeim verkefnum sem hér hafa verið nefnd. Þetta má glöggt greina líka í framsöguræðu þáv. hæstv. dómsmrh., Þorsteins Pálssonar, sem gerði þannig grein fyrir þeirri hugmynd sem lá að baki ríkislögreglustjóraembættinu og stofnun þess.

Það er því umhugsunarvert, virðulegi forseti, þegar maður horfir til þeirra hugmynda sem menn höfðu og þann veruleika sem við upplifum í dag að sjá að embætti ríkislögreglustjóra er farið að birtast okkur með allt öðrum hætti og farið að taka að sér allt önnur verkefni en upphaflega var lagt af stað með en um leið hefur embættið ekki nema að litlu leyti tekið við hlutverki löggæsluskrifstofu dóms- og kirkjumrn. Því leyfi ég mér að leggja fram þá fyrirspurn sem ég las upp áðan, hvort ráðherra hafi fallið frá þeim hugmyndum sem upphaflega lágu að baki stofnun embættisins. Því það vekur augljóslega athygli að í fjárlögum fyrir árið 1999 var reiknað með að rekstrarkostnaður embættisins væri 248,8 millj., en núna tveimur árum síðar er á fjárlögum fyrir árið 2001 gert ráð fyrir að kostnaður við embættið verði 684,9 millj., sem er u.þ.b. 170--180% hækkun á tveimur árum. Og maður hlýtur að gera þá kröfu til hæstv. dómsmrh. að hún skýri þessar gríðarlegu breytingar sem átt hafa sér stað á embættinu.