Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 14:38:03 (822)

2000-10-19 14:38:03# 126. lþ. 14.2 fundur 120. mál: #A stjórn fiskveiða# (tegundartilfærsla) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[14:38]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðherra gat um áðan eru þessi tvö mál sem rædd hafa verið skyld að því leyti að hann telur að þeim sé báðum ætlað að koma til móts við þörf fyrir brottkast. Ég er ekki alveg búin að ná þessum tengslum en við yfirferð yfir málin í hv. nefnd vænti ég þess að skilningur minn vaxi. Mér sýnist að það sem hér er lagt til sé ekki beinlínis til þess fallið að koma í veg fyrir brottkast, þvert á móti er ætlunin að þrengja möguleika manna til tegundartilfærslu. Það er verið að minnka möguleika manna til að spila ólsen ólsen með fiskveiðistjórnarkerfið. Ég get út af fyrir sig verið sammála því að eðlilegt sé, miðað við það sem fram hefur komið um hvernig þessi heimild hefur verið nýtt, að slíkir hlutir séu skoðaðir.

Breytingin sem hér liggur fyrir er fyrst og fremst sú að lögð er til sú þrenging að ekki megi breyta meiru en sem svarar 2% í hverri botnfisktegund en áður var miðað við 5% af heildarverðmæti botnfiskaflamarksins. Möguleikinn til tilfærslunnar hefur verið rýmri en lagt er til með breytingunni sem ráðherrann leggur hér fram.

Rök ráðherrans fyrir þessu, eins og fram kemur í ræðu hans og í fjölmiðlum, hafa verið að þetta fyrirkomulag komi í veg fyrir að menn nýti sér þetta ákvæði með þeim hætti sem hann rakti hér og fram kemur í frv., að menn gætu farið svo gífurlega fram úr því heildaraflamarki sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til eins og dæmi eru um í frv., t.d. varðandi karfann og hann nefndi grálúðuna að auki.

Út af fyrir sig er eðlilegt að menn vilji taka á því þegar svo stór og mikil frávik geta átt sér stað frá ráðleggingum fiskifræðinga enda eru ráðleggingar þeirra eins og við þekkjum, oft og tíðum ótrúlega nákvæmar. Reyndar geta þær verið það nákvæmar að þær virka hlægilegar. Í því sambandi kemst ég ekki hjá því að rifja upp þegar ráðlögð var breyting frá 250 þús. tonnum af þorski fyrir tveimur árum síðan í 247 þús. tonn, sem sýndi mér kannski í fyrsta skipti virkilega fram á það hversu merkileg þessi vísindi eru.

Það er eiginlega furðulegt, herra forseti, að á sama tíma og vísindamenn okkar treysta sér til að reikna út lífríkið í sjónum með svo ótrúlegri nákvæmni, þá skuli þessi ólsen ólsen möguleiki vera í lögunum um stjórn fiskveiða.

Það er ljóst að menn hafa haft á þessu ýmsar skoðanir í gegnum tíðina. Sjómenn hafa t.d. ekki talið þörf fyrir þetta ákvæði. Ég minni þar á orð formanns Sjómannasambandsins sem lætur hafa eftir sér að þeir hafi áður lagt til að afnema ætti þessar reglur. Því er ljóst að þeir hljóta að líta svo á að hér sé um spor í rétta átt að ræða. Hins vegar hafa útvegsmenn tekið þessu máli öðruvísi og það má kannski segja að það sé vegna þess hvernig ráðherra hagaði orðum sínum þegar hann kynnti þetta mál. Hann gaf þar til kynna að menn hefðu misnotað reglurnar. Það er nú kannski aldrei hægt að segja að menn misnoti löggjöf þegar farið er eftir henni. Hins vegar er ljóst að það var aldrei ætlast til þess að menn færu eftir lögunum á þann hátt sem gert var. Útvegsmenn segja að það sé rangt og ósanngjarnt að halda því fram að þeir hafi misnotað þessar reglur. Þeir benda á síðasta ár. Hæstv. ráðherra rakti hins vegar hér áðan að ef einungis er miðað við síðasta ár þá sé ekki um það að ræða að menn hafi farið fram yfir þau 2% sem hér er verið að leggja til. Eins og ég sagði þá kann þar að ráða mestu hvernig málið var kynnt fremur en að menn hafi gerst brotlegir við lögin sem hér um ræðir.

Það er ljóst, vegna þess sem hér hefur þegar komið fram og áður í umfjöllun um þetta mál, að hv. sjútvn. hlýtur að kalla eftir ýmsum gögnum um málið til að átta sig á því hvort það spor sem hér á að stíga er hið rétta eða hvort það er fullnægjandi. Við hljótum að skoða það í ljósi reynslunnar hvernig þessum hlutum verður best fyrir komið. Við munum þá líta aftur til sögunnar og skoða hvernig þetta ákvæði hefur virkað á hverju fiskveiðiári fyrir sig. Það hlýtur að vera mismunandi eftir árum, bæði mismunandi hvaða tegundir menn hafa ekki talið borga sig að veiða og eins hvaða tegundir menn hafa talið borga sig að sækja í.

Ég held a.m.k. að nauðsynlegt sé að fara yfir þessi mál í ljósi sögunnar og því sé út af fyrir sig gott að þetta frv. er komið hér fram, þessi mál þar með komin á dagskrá og til skoðunar í hv. nefnd.

[14:45]

Ég vil hins vegar, vegna umræðunnar um brottkastið og meðaflann, rétt aðeins víkja að því máli, ekki síst með tilliti til þess að ráðherrann telur þetta tengjast með einhverjum hætti. Áðan talaði ég um hve nákvæma ráðgjöf vísindamenn okkar telja sig geta veitt. Þegar þeir hafa verið inntir eftir því hvernig hugsanlegt brottkast kæmi inn í þeirra ráðgjöf þá hef ég skilið þá þannig að þeir gerðu ráð fyrir ákveðnu magni brottkasts. Ég hef ekki getað skilið það öðruvísi. Enda þótt við kysum að breyta reglunum þannig að beitt yrði því sem kallað er hagrænar aðferðir, þ.e. þegar um er að ræða umgengni við náttúruna, fremur en þeim aðferðum sem ráðherrann kýs að beita og flokkast undir boð og bönn, þá sé ég ekki að það ætti að þurfa að breyta ráðgjöfinni neitt vegna þess að það getur ekki verið allur munur á því hvort fiskurinn kemur að landi eða hvort honum er fleygt, þ.e. hver ráðgjöfin ætti þá að verða miðað við þær upplýsingar sem ég þykist hafa um það hvernig Hafrannsóknastofnun áætlar fyrir þeim málum.

Aðeins aftur að þessari umfjöllun um brottkastið og hvernig á að bregðast við. Ég hef lengi verið áhugamanneskja um að menn reyndu að beita hagrænum aðferðum, að menn reyndu að laða útvegsmenn og sjómenn til réttrar breytni í þessum efnum með því að þeir fengju nokkra umbun fremur en refsingu fyrir að koma með allan afla að landi. Ég hef þó ekki verið talsmaður þess að menn fengju að gera þetta nánast eins og það væri sjálfsagt mál og að þetta gæti beinlínis orðið hvati til þess að menn veiddu umfram. Einhvers staðar hlýtur það jafnvægi að vera að menn komi með afla að landi og fái þá umbun sem dugar án þess þó að þetta sé gert beinlínis aðlaðandi. Þar held ég að aðhald af ýmsu tagi geti komið til. En ég er á þeirri skoðun, herra forseti, að þó að menn bæti við veiðieftirliti þá séu menn fyrst og fremst að sinna eðlilegri eftirlitsskyldu sem alltaf á að vera í gangi hvað varðar nýtingu auðlindarinnar, en séu kannski ekki að fara að rótum þessa vanda sem er auðvitað sá og hefur alltaf verið sá að sjómenn vilja fá kaup fyrir sína vinnu og að þegar um útgerð og fiskveiðar er að ræða þá eru menn auðvitað að hugsa um það hvað borgi sig, alveg eins og í öllum öðrum atvinnurekstri. Þess vegna liggur lausn þessa máls að mínu mati, og hefur gert frá því að ég fór að velta þessu fyrir mér, í því sem er í tísku í dag að kalla hagrænar aðferðir. Hún liggur í því að laða menn til réttrar breytni, að mönnum sé umbunað fyrir rétta breytni.

Þetta er aðferð sem menn virðast farnir að vera á einu máli um að sé það sem dugar þegar verið er að reyna að fá fólk til þess að umgangast náttúruna á viðeigandi hátt og hlýtur að eiga við í þessu tilfelli eins og annars staðar.

Herra forseti. Ég gæti sagt margt fleira um þessi brottkastsmál, ástæður brottkasts og hvernig á að taka á því. En þar sem ég á sæti í hv. sjútvn. og hef tækifæri til þess að koma sjónarmiðum mínum þar á framfæri og svo áfram, ef þetta mál kemur til 2. umr., þá ætla ég að hlífa mönnum við þeim umræðum að sinni enda við komin hér í annað dagskrármál.

Herra forseti. Hvað varðar þetta mál sem snýst um tegundartilfærslurnar þá er greinilega fullkomlega réttmætt að taka þetta ákvæði laganna um stjórn fiskveiða upp, að menn skoði hvernig þetta ákvæði hefur reynst, líti til reynslunnar og skoði hvort sú niðurstaða sem hér liggur fyrir er þá það svar sem menn eiga að gefa eða hvort það liggur e.t.v. annars staðar. Það mun koma í ljós þegar búið er að fara yfir málið.