Viðskiptabankar og sparisjóðir

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 19:15:09 (890)

2000-10-19 19:15:09# 126. lþ. 14.18 fundur 137. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (stjórnir sparisjóða) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[19:15]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég spyr þó: Kann hv. þm. einhver dæmi þess að sveitarfélög hafi farið illa út úr og haft erfiðleika af því að vera með þessi beinu samskipti við öflugustu lánastofnun í viðkomandi byggðarlagi í mörgum tilfellum hringinn í kringum landið?

Ég spyr líka: Í ljósi þess að í samþykktum margra sparisjóða eru ákvæði þess efnis að ef komi til slita þeirra renni eigið fé þeirra til uppbyggingar í viðkomandi byggðarlagi, gjarnan í líknar- og menningarmálum, telur hv. þm. það ekki nægilega hagsmuni til þess að fulltrúar sveitarstjórnanna hverju sinni leggi á það áherslu að efla vöxt og viðgang viðkomandi lánastofnunar?

Ég undirstrika enn og aftur að stofnfjáreigendur hverju sinni sem endurnýjast innan frá --- því ekki kann ég þá leið og hv. þm. bendir mér þá á hana hvernig menn ætli sér að gerast stofnfjáreigendur að einstökum sparisjóðum komandi utan af götu til þess --- fá hvorki meira né minna til baka komi til slita sparisjóðsins, hversu öflugur hann annars er, en þá fjármuni sem þeir lögðu fram í upphafi. Hliðstæðan við hlutafélagabanka er því ekki til staðar. Þannig er það bara.

Herra forseti. Ég árétta að mér finnst þetta ekki veigamesti þátturinn og sá þáttur sem mestum erfiðleikum hefur valdið í sannarlega breyttu umhverfi á fjármála- og lánamarkaði hér á landi og mér finnst þetta ekki fyrst í röðinni þegar menn ætla að fara að taka á þeim málum.