Almannatryggingar

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 17:04:45 (944)

2000-10-30 17:04:45# 126. lþ. 15.16 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[17:04]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Mig langar til að byrja á því að fagna því að hæstv. heilbrrh. er viðstaddur þennan hluta umræðunnar en eins og kom fram í upphafi fundar erum við að halda áfram umræðu sem var mjög fjörug og málefnaleg að hluta til, a.m.k. frá því 12. október. Þá söknuðu margir þess að ráðherra var ekki til staðar og varla sást hér flokksmaður úr flokki hennar en þó kom formaður fjárln. aðeins inn í umræðuna. En þessi umræða hefur að hluta til fjallað um kjör lífeyrisþega almennt þó svo að frv. sem hér um ræðir sé um afnám tekjutengingar við tekjur maka lífeyrisþegans eða laun hans. Ég verð að segja að aldrei er of oft bent á bág kjör þeirra sem þurfa að treysta á almannatryggingarnar að mestu sér til framfærslu. Daginn eftir að umræðan fór hér fram, fyrri hluti umræðunnar, komu fram staðtölur almannatrygginga sem staðfestu allt það sem kom fram í umræðunni um málið. Má segja að einmitt umfjöllun um staðtölurnar hafi, m.a. í Morgunblaðinu, staðfest það sem við Samfylkingarþingmenn sögðum í umræðunni. Bætur almannatrygginga hafa ekki hækkað eins mikið og launavísitala og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir benti einmitt á það í máli sínu áðan og vitnaði til staðtalna Tryggingastofnunar. Þessi umræða þarf að fara fram þangað til kjör lífeyrisþega verða leiðrétt í samræmi við launaþróunina.

Það er mjög mikilvægt og það kom einnig fram í umræðunni fyrir 20 dögum eða svo að það væri mikilvægt að fram fari heildarendurskoðun á almannatryggingalögunum frá 1971. Ég tek undir það og fagna því að einhver vinna skuli vera farin af stað í því eins og kom fram í andsvari hjá formanni fjárln., hv. þm. Jóni Kristjánssyni. En við erum sem sagt að tala um afmarkað réttlætis- og sanngirnismál í almannatryggingunum sem er afnám tekjutengingar við laun maka. Það hefur margoft komið fram í umræðunni að þessi regla sundrar fjölskyldunni, hún leiðir til skilnaða eins og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir benti réttilega á, við þekkjum öll dæmi um það. Fólk neyðist til að flytja að heiman þegar það stendur frammi fyrir því að geta ekki framfleytt sér vegna heilsubrests eða fötlunar. Þetta hefur leitt af sér margar hörmungar í fjölskyldum og það þekkjum við örugglega öll dæmi um.

Það er líka þjóðhagslega óhagkvæmt að vera með reglu eins og þessa. Hún gerir það að verkum að hópur fólks, sem býr við heilsubrest, lifir við kröpp kjör. Börn þessa fólks geta ekki tekið þátt í samfélaginu eins og önnur börn. Þetta þekkjum við vel og menn hafa verið að tala um aðskilnaðarstefnu í því tilliti, sem er rétt, og hún á ekki að líðast.

En ég vil vegna þess að hæstv. ráðherra er viðstaddur minna á að ráðherrann hefur sagt það opinberlega að hún hyggist stíga skref til að afnema þessa óréttlátu tekjutengingu. Hún sagði m.a. á aðalfundi Tryggingastofnunar fyrir kosningar að hún teldi ekki siðferðilega rétt að vera með þessa tekjutengingu og sagðist mundu afnema hana. Nú hefur hún stigið tvö skref í áttina til að minnka tekjutenginguna og það er af hinu góða en ég vildi gjarnan fá að heyra það frá hæstv. ráðherra hvenær hún hyggst ganga þessa leið til enda og afnema tekjutenginguna.

Herra forseti. Ég vil líka vegna umræðu og fullyrðinga um að þessi tekjutenging viðgangist í nágrannalöndum okkar mótmæla því. Tekjutenging við tekjur maka í almannatryggingunum viðgengst ekki. Ég hef verið að fara í gegnum gögn sem ég hef fengið úr heilbrrn. og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir vitnaði einmitt til í máli sínu áðan. Ég get ekki séð betur en að þær upplýsingar séu allar í þá veru að þar sem einhver tekjutenging er við maka þá séu það félagslegu bæturnar.

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég þarf að rifja það upp fyrir þingheimi að þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var tekinn hér og löggiltur á Íslandi voru almannatryggingalögin tekin upp og þeim skipt upp í tvennt. Þar voru lífeyristryggingarnar settar í tvennt, annars vegar voru almannatryggingabætur og hins vegar félagslegar bætur. Þar með voru heimildabæturnar, sem voru viðbót við grunnréttindin sem var grunnlífeyrir og tekjutrygging, settar í önnur lög sem voru félagslegar bætur. Ég get ekki betur séð en að það sem bæði embættismenn í ráðuneytinu og ráðherrar hafa verið að vitna til í ræðum hér og í blöðum, og ég minni sérstaklega á Morgunblaðið þar sem var úttekt á kjörum öryrkja eftir aðalfund Öryrkjabandalagsins þar sem embættismaður staðhæfði að verið væri að tekjutengja í þessa veru í nágrannalöndunum, að verið sé að fjalla um félagslegar bætur en ekki almannatryggingar. Þar verða menn að gera skýran greinarmun á. Ég vil benda á að í félagslegu bótunum hér þar sem m.a. heimilisuppbótin er ekki tengd við tekjur maka heldur er hún tengd við hvort maki er til staðar eða ekki. Þeir sem eru með maka eða búa með öðrum fá ekki heimilisuppbót sem flokkast undir félagslegar bætur. Þannig getum við haldið áfram endalaust og talið upp ýmsar félagslegar bætur. Ég get ekki séð annað en að þær bætur sem tilteknar eru og menn hafa verið að vitna til séu allt saman félagslegar bætur en ekki almannatryggingabætur. Mér finnst því ekki við hæfi að menn séu að gera þetta enn þá ruglingslegra en það er. Kerfið er nógu flókið, fólk á erfitt með að átta sig á reglunum í því vegna þess að það er mjög flókið og löngu tímabært að einfalda það eins og hefur komið fram í ræðum hjá mörgum þeim sem ræddu eða tóku til máls í umræðunni, bæði í fyrra skiptið sem málið var á dagskrá og einnig núna og það er ekki til bóta þegar menn eru að gera þetta enn þá ruglingslegra.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Kristjáni Möller sem benti á í máli sínu að það er þannig í dag að mjög margir hafa ekki náð því að öðlast mikinn lífeyrissparnað á vinnualdri sínum. Þetta á sérstaklega við um konur, heimavinnandi húsmæður eiga lítinn sem engan rétt í lífeyrissjóðakerfinu og þurfa að treysta á almannatryggingarnar. Sömuleiðis minntist hv. þm. á atvinnuleysisárin sem bitnuðu vissulega mjög illa á konum. Ég vil því benda á að þetta mál, afnám tekjutenginga við tekjur maka, er líka jafnréttismál vegna þess að það hefur komið fram í opinberum tölum, og m.a. í staðtölum almannatrygginga sem komu út núna á dögunum, að þessi regla bitnar mjög illa á konum.

Sömuleiðis er það að leiðrétta kjör lífeyrisþega mjög mikið réttlætismál gagnvart konum því að það kemur einnig fram í staðtölunum að konur í hópi lífeyrisþega eru mun verr settar en karlar. Það er því stórpólitískt jafnréttismál að afnema tekjutenginguna.

[17:15]

Herra forseti. Ég veit ekki hversu langt ég á að ganga í því að endurtaka og taka undir það sem hefur komið fram í umræðunni. Það er ýmislegt sem rætt var þann 12. október sem væri full ástæða til að nefna og einnig það sem hefur komið fram í opinberum upplýsingum síðan. M.a. var því haldið fram af málsvara Sjálfstfl. í málefnum aldraðra og öryrkja, hv. þm. Pétri Blöndal, að meiri hluti lífeyrisþega hefði það góðar greiðslur úr lífeyrissjóðum að þeim væri engin vorkunn. Þá langar mig til að benda á þá staðreynd sem kemur fram í staðtölum almannatrygginga, að 43% öryrkja eru ekki með greiðslur úr lífeyrissjóðum. Þetta er hátt í helmingur allra öryrkja, fyrir utan það að það er stór hópur aldraðra sem ekki er með greiðslur úr lífeyrissjóði eða eru með mjög lágar greiðslur úr lífeyrissjóðum. Það er því full ástæða til að skoða þessi mál og mótmæla þeim rangfærslum sem hafa í rauninni komið fram og komu fram í umræðunni frá hv. þm. Pétri Blöndal. Hann er reyndar ekki viðstaddur og ætla ég því ekki að fara frekar út í fullyrðingar hans enda svaraði ég þeim nú yfirleitt jafnharðan í andsvari þegar þessi mál voru til umræðu síðast.

Ég tek undir það sem hefur komið fram hjá þeim sem hafa rætt þetta mál á undan mér að það er mjög mikilvægt að komið verði á afkomutryggingu þannig að gerður verði samningur þar sem afkomu þessara hópa sem eru verst settir, þeirra lífeyrisþega sem þurfa að treysta á almannatryggingarnar með afkomu sína --- það þarf að koma á slíkri afkomutryggingu. Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum barist fyrir því og munum koma með þingmál í þá veru á næstu dögum sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir mun vera 1. flm. að.

Það er vissulega sérkennilegt að ríkisstjórnin skuli ekki taka á þessum málum, leiðrétta kjör þessara hópa núna í góðærinu og að þegar menn skila hér miklum tekjuafgangi þá skuli hópar eins og öryrkjar og aldraðir sífellt að þurfa að minna á kjör sín. Það er sérkennilegt að þeir skuli ekki ná eyrum stjórnarliða í baráttu sinni.

Herra forseti. Ég á tök á því að taka einu sinni enn til máls. En ég vil nú þakka samt fyrir þá umræðu sem hefur verið um þetta þingmál. Það mun koma til umræðu í hv. heilbr.- og trn. að lokinni þessari umræðu.

Ég kalla eftir svörum frá hæstv. heilbrrh. um það hvenær hún hyggst ganga skrefið til enda.

Hún hefur ítrekað lýst því yfir að þetta séu byrjunarskrefin. Hún er búin að taka tvö skref en við bíðum óþreyjufull og við viljum að þessi regla verði afnumin að öllu og fullu. Það er nógu mikil tekjutenging samt í kerfinu. Þeir sem búa með öðrum fá þriðjungi lægri greiðslur. Það er nú bara þannig. Þar er nú komin þó nokkuð mikil tekjutenging þó ekki sé verið að tala um tekjutenginguna sem við viljum afnema. Þeir fá þriðjungi lægri greiðslur við það að búa með öðrum. Manni þykir nú nóg um það. Fyrir utan það að lífeyrisþegar sem búa tveir saman fá 90% af fullum grunnlífeyri. Það er auðvitað verið að tengja á ýmsan hátt við sambúðarform eða fjölskylduform.

Einnig vil ég nefna það áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, að það er ekki eins og einhver græði eitthvað ofboðslega mikið á því að afnema þessa tekjutengingu, það er ekki eins og einhver verði ofboðslega ríkur á þessu. Það er alls ekki þannig. Tekjutengingarnar í íslenska velferðarkerfinu eru það miklar gagnvart tekjum hvers einstaklings að það nær því enginn að verða sterkefnaður á því að vera á greiðslum frá almannatryggingunum þannig að það er orðið býsna brýnt að afnema þessa óréttlátu reglu sem, eins og við höfum sýnt fram á, er brot á mannréttindum, brot á stjórnarskránni og ýmsum þeim alþjóðasáttmálum sem við höfum gerst aðilar að. Það er því réttlætismál að þessi tekjutenging við laun maka lífeyrisþega á tekjutryggingu hans verði afnumin.