Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 16:59:08 (993)

2000-10-31 16:59:08# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[16:59]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef í gegnum tíðina verið með efasemdir um að alvara væri á bak við þennan málflutning en nú kemur hv. þm. og fullyrðir að hann segi þetta allt í alvöru og ég hlýt að taka því þannig. En ég vildi spyrja hann hvort það séu einhverjar efasemdir í heiminum um það að klukkan fari eftir lengdarbaugum. Jörðin er örugglega hnöttótt og hún snýst. Eru nokkrar deilur um þetta svona almennt í heiminum? Er ekki nokkurn veginn um þetta sátt? Menn hafa gengið út frá þessari sólarklukku svo lengi sem við vitum.

[17:00]

Klukkan á Íslandi er samkvæmt sumartíma allt árið. Það kemur villa fram hjá hv. þm. þegar hann talar um að taka upp sumartíma. Sumartími er hér fyrir. Vissulega er virðingarvert að skapa sumarstemningu á sumrin, það er náttúrlega mun betra en að gera það á öðrum tíma, en við erum að færa klukkuna í öfuga átt ef við ætlum að hafa rétta sólklukku, við mundum færa hana aftur á bak en ekki áfram. Ég skil ekki alveg nákvæmlega hvernig við ætlum að haga okkur. Nú höfum við samband við Japan og við höfum samband við Bandaríkin. Við erum bara á þessum lengdarbaug, að vísu einir þjóða. Ef aðrar þjóðir eins og Japanar verða að lifa við það að vera á sínum lengdarbaug, er þá ekki eðlilegt að við miðum þetta við það og að við reynum að hafa rétta klukku? Það er náttúrlega gagn af því í heiminum að hafa rétta klukku. Við getum að vísu hagað okkur eins og við viljum. Hver og einn má vakna klukkan fimm eða sex og það er eflaust mjög hollt og gott að gera það en verðum við ekki að haga okkur þannig að við séum að fara eftir sólarklukkunni eins og aðrar þjóðir?