Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 18:00:50 (1016)

2000-10-31 18:00:50# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[18:00]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta mál er nú að verða gamall kunningi og ég verð að vísu að játa --- það er náttúrlega hroðaleg játning að gera --- að ég hef ekki tekið þetta mál mjög alvarlega fram undir þetta. Ég hafði satt að segja ekki áttað mig á því að mönnum væri full alvara með að leggja það til í alvöru að breyta tímanum á Íslandi eins og hér hefur verið lagt til. En kannski er það svo að flutningsmönnum sé dauðans alvara, a.m.k. 1. flm., og væntanlega er það skýringin á því að þetta er endurflutt trekk í trekk.

Ég hef stundum sýnt það ábyrgðarleysi í umfjöllun um þetta mál að slá á létta strengi enda hafa ýmis tilefni gefist og ég sagði einhvern tímann sögu í umræðum um þetta mál sem alveg má endurtaka --- ég fékk reyndar áskoranir um það --- sögu af aldraðri konu sem var að ferðast með Akraborginni og lenti á tali við kunningja minn. Hún fór að hrósa þessum unga manni á Alþingi sem ætlaði að bæta klukkutíma við sólarhringinn, það væri nú meiri snillingurinn. Hann ætlaði að bæta þessum klukkutíma við sólarhringinn síðdegis á sumrin, það yrði alltaf gott veður og svo mundu menn sitja úti í góða veðrinu og grilla, drekka rauðvín og þetta yrði svo huggulegt allt saman. Og mikið væri hann nú vænn þessi drengur að norðan sem ætlaði að leggja þetta til.

Að mínu mati er ekki tilefni til að taka þetta mikið alvarlegar en þetta, satt best að segja. Staðreyndin er sú að hér er sumartími og Ísland er, ef eitthvað er, þegar með það skakkan tíma miðað við landfræðilega legu að það væri að mínu mati fremur gagnrýnisvert en hitt að láta það hvarfla að sér að tvöfalda hér þann sumartíma sem fyrir er og gera það að verkum að vestari hluti landsins yrði skakkur frá sinni náttúrulegu klukku, sem sólin býr okkur, sem nemur næstum þremur klukkutímum. Þannig að sól yrði ekki í hádegistað vestast á landinu fyrr en klukkan hér á Íslandi væri af þessum undarlegu ástæðum að verða þrjú, frá því síðla vetrar og fram á haust.

Ég gef ekki mikið fyrir þau rök sem færð eru fyrir breytingunni þó ég skilji þau reyndar. Ef það eina sem menn hugsa um í lífinu er að viðskipti fyrirtækja við Evrópu gangi sem greiðast fyrir sig þá er út af fyrir sig hægt að hugsa þetta svona: Mannfólkið skal láta sig hafa það hvort sem bjart er eða myrkur og þó klukkan sé ekki í samræmi við náttúrufræðileg lögmál og líffræðileg bara ef bisnissinn við Evrópu getur haft sinn gang. Um það er þetta frv. og einu haldbæru rökin eru þau að auðveldara verði fyrir fyrirtæki sem eiga mikil viðskipti við Evrópu að stunda þau. Þá er auðvitað spurning hvort ekki eigi að stíga skrefið til fulls og taka upp Mið-Evróputíma. Er þá ekki óþarflega hógvært að ætla bara að fylgja Bretunum? Eigum við þá ekki að fara inn á Frankfurt-tíma. (Gripið fram í: Þetta er málamiðlun.) Já, þetta er kannski málamiðlun við það.

En þetta mundi líka þýða, herra forseti, að við yrðum næstum næstum þremur og fjórum tímum á undan, hvað klukkuna varðaði, okkar næstu landfræðilegu nágrönnum, Grænlendingum. Mönnum finnst auðvitað óskaplega vitlaust að nefna Grænlendinga í þessu sambandi. Við þá er ekki svo mikill bisniss og hið virðulega Verslunarráð er ekki mikið að hugsa um Grænland.

Af hverju eru þá ekki Grænlendingar með sama tíma og Danir? Nei, Grænlendingar taka þetta svo bókstaflega hjá sér að þeir eru með tímabelti á Grænlandi. Íbúar Scoresbysunds eru með sitt tímabelti. Svo kemur Mið-Grænlandstími og svo er vestasti hlutinn á sínum náttúrulega rétta tíma. Veldur þetta ekki ægilegum vandræðum í Grænlandi, er þetta ekki óskaplegt vesen? Nei, þeir bara taka þetta eins og þetta er. Jörðinni er skipt í tímabelti eftir lengdarbaugum samkvæmt ágætri formúlu sem menn fundu upp, miðuðu núllpunktinn við Greenwich-turninn í Bretlandi og þannig gengur þetta og gengur bara ágætlega. Það er eins og menn gleymi því alveg að það eru fjölmörg lönd, fjölmörg markaðssvæði sem búa við mörg tímabelti og eru ekkert að ergja sig yfir því.

Hvað mega aumingja Rússarnir hugsa? Eru það ekki ein tólf tímabelti sem viðskiptin í Rússlandi verða að láta sig hafa, Bandaríkin þrjú o.s.frv.? Ætla menn þá líka að leggja til að við skekkjum okkur um klukkutíma í viðbót hvað varðar samskiptin við Vesturheim? Ég held einmitt að ef eitthvað væri þá væri betri málamiðlun, út frá viðskiptum í báðar áttir frá Íslandi vegna þess að við erum mitt í Atlantshafinu, að seinka klukkunni um klukkutíma. Þá væri landið mun nær því að vera á réttum tíma og við mundum halda sama tíma allt árið. Það eru engin rök fyrir þessu hringli með klukkuna, það vita allir. Menn eru bara fastir í því á meginlandi Evrópu af því að Bretarnir eru íhaldssemin uppmáluð og vilja ekki hrófla við þessu. Íhaldsemin er slík að þeir hafa meira að segja barist í því innan samveldisins gamla, sem enn er á löppunum að nafninu til, að verjast því að samveldisríki í fjarlægum heimsálfum hættu að breyta tímanum. Það vill svo til að ræðumanni er kunnugt um að uppi hafa verið viðræður um það t.d. á Nýja-Sjálandi, Ástralíu og víðar að hætta þessu rugli, sem þar heitir því aldagamla heiti ,,daylight saving``. Nú skiptir þessi tilhögun þá auðvitað engu máli og þessi orkusparnaðarrök eru löngu horfin út úr myndinni.

Þetta skapar heilmikið óhagræði og vandræði. Þannig hafa t.d. bændur á Nýja-Sjálandi margendurtekið reynt að fá þessu breytt. Þeim finnst alveg nóg að vakna klukkan sex á morgnana þó ekki verði bara allt í einu breyting á og þeir verði að vakna klukkan fimm en þannig er þetta og ýmiss konar óhagræði og rask skapast við þessi mörk bæði að vori og hausti. Að það sé slíkt mál með viðskiptin við Evrópu að víkja eigi öllum öðrum sjónarmiðum og rökum til hliðar, ég ansa því ekki.

Mér finnst grg. þessa frv. satt að segja nálgast hneyksli. Hér er gefið í skyn að það sé nánast einróma gleði með þetta í Evrópusambandinu, en til þess að slá varnagla er látið koma fram að athuganir framkvæmdastjórnarinnar hafi engin meiri háttar vandkvæði leitt í ljós þó að til séu þeir sem telja breytingarnar hafa óþægindi í för með sér. Herra forseti, ég endurtek: ... þó að til séu þeir sem telja að breytingarnar hafi óþægindi í för með sér. Hverjir skyldu vera þessir þeir sem fyrirfinnast? Það mætti ætla af orðalaginu að það væru svona þrír menn, þrír kverúlantar í Evrópu sem væru eitthvað óánægðir með þetta. Það eru m.a. Frakkar eins og þeir leggja sig. Í Frakklandi hefur verið bullandi umræða um að hætta þessu af því að þetta er meiri háttar vesen. Það er fyrst og fremst þvingunin frá Evrópusambandinu, við að reyna að halda hópnum saman, sem hefur aftrað Frökkum frá því að hætta fyrir alvöru hringlinu með klukkuna. Þar hafa verið færð fram mörg sterk rök fyrir því að það sé löngu úrelt tímaskekkja að hringla þarna með klukkuna. Það viðhorf finnst mér hafa gleymst í þessari umræðu og þetta sé bara spurningin um hvort við eigum að vera klukkutímanum fyrr eða seinna. Gleymum því ekki að menn eru líka að tala um að fara aftur í að hringla með klukkuna sem hefur margvísleg óþægindi í för með sér. Greinargerð, herra forseti, þar sem reynt er að hagræða hlutunum með þessum hætti er ekki mikils virði. Menn geta fært kraftmikil rök fyrir því sem þeir telja rétt og skylt, það er sjálfsagt. Ugglaust er það einnig gert hér af ýmsum aðilum en það á ekki að reyna að hagræða staðreyndum og búa þannig um að það finnist engin önnur sjónarmið og allir séu á máli flutningsmanna því að svo er ekki.

Ég, herra forseti, vil nefna einn þátt í þessu sem mér finnst menn ættu líka að athuga mjög vandlega vegna hinnar landfræðilegu legu Íslands. Rökin fyrir klukkubreytingunni, ef við værum að horfa á birtuna, eru engin á Íslandi. Það eina sem skiptir máli hér er að vera ekki með mjög skakka klukku. Vegna hinnar norðlægu legu Íslands og þess að birtan er hér mikil allan sumartímann er það eins og hver annar brandari að tala um að taka upp sumartíma vegna birtunýtingar, það er hvort sem er bjart að langmestu leyti allt þetta tímabil, er það ekki? Eða er það þannig í hugum hv. þm. Vilhjálms Egilssonar og flutningsmanna að það sé myrkur á nóttunni í júní? Hafa þeir rekist á það hér á Íslandi? Er það til þess að lengja dagsbirtuna og seinka þessum dimmumótum morguns og kvölds um hásumarið sem menn ætla að færa til klukkuna á Íslandi? Sérkennilegt væri ef svo er. Ísland er nefnilega á 64--66° norðlægrar breiddar og nýtur þar af leiðandi góðs af því yfir sumartímann. Að sama skapi er hér dimmt á vetrum.

Herra forseti. Ég held að menn ættu fremur að skoða hvort líklegt sé að þetta yrði talin jákvæð breyting með tilliti til öryggis. Hvað veldur mönnum mestum áhyggjum, a.m.k. þeim sem eiga börn sem eru að hefja skólagöngu á haustin? Og hver er einn hættulegasti tíminn hvað varðar slys á gangandi vegfarendum? Það er í myrkrinu á morgnana þegar börnin eru á ferð. Yrði til bóta að láta vera myrkur klukkutíma lengur, þangað til klukkunni væri seinkað í lok október? Halda menn að það væri til bóta í þessum efnum? Hið sama gerðist aftur að vorinu? Það er þó farið að birta með hækkandi sól á útmánuðum. En þarna eru menn að tala um að flýta klukkunni aftur um klukkutíma, að færa myrkrið upp um klukkutíma. Ég held að menn ættu líka að horfa á þessi atriði og spyrja sig hvort séð sé fyrir endann á slíku.

Ég er líka þeirrar skoðunar, herra forseti, að út frá líffræðilegu og náttúrufarslegu tilliti sé ákaflega hæpið að hafa tímareikninginn, hinn mælda tíma, þ.e. klukkuna svo fjarri hinni náttúrulegu klukku. Menn gera hér lítið úr tali um líffræðilega klukku en hafa menn efni á því? Hafa menn stúderað það svo, öll þau vísindi sem liggja fyrir í þeim efnum? Ég held t.d. að þingmenn, sem eru þekktir fyrir að bregða sér einstöku sinnum í ferðir, ættu þá að lesa sér til. Það er nú ekki talið mjög hollt að hringla mjög mikið á milli tímabelta og er eitt af því sem er talið valda verulegu álagi bæði á sál og líkama. Það er langhollast að hafa reglubundinn hvíldartíma og auðvitað er hollt að fara snemma að sofa og snemma á fætur. (Gripið fram í: Eins og þingmenn gera.) Eins og þingmenn gera meira og minna. Allt hringl með þetta er ekki til góðs.

Það er nokkurn veginn öruggt og allt sem bendir til þess samkvæmt rannsóknum á hinni líffræðilegu klukku manna að hún sé geymd í erfðamengi mannsins, í þeim skilningi að manninum líði best þegar hann er í tilteknum takti við náttúrulögmálin, það sem drífur hlutina hér hjá okkur, ekki síst sólina, nótt og dag og öll þau áhrif sem þau hafa á okkur.

Herra forseti. Ég tel að það geti varla komið til mála að menn láti sér detta í hug að ræða þetta mál út frá því hvað kunni að henta einhverjum stöðum á landinu. Það vill svo til að vísu að ég hef ákveðnar grunsemdir um að þetta mál sé þannig til komið að 1. flm. hafi verið á fundi með frystihússfólki á Siglufirði. (Gripið fram í.) Ja, það er eins og mig rámi í að einhvern tímann í fyrndinni hafi mér verið sögð sú saga, gott ef ekki af hv. flm. sjálfum, að kveikjan að þessu sé sú að þar, við tilteknar landfræðilegar aðstæður, hefði mönnum fundist sniðugt að færa klukkuna fram vegna þess að þar er morgunsól og miðdegissól en skuggsælt á kvöldin. En ætli það sé þá ekki einhvern veginn öðruvísi annars staðar á landinu af því að það vill svo til að landið er eyja?

Það var einu sinni ungur drengur á hlaðinu á Svalbarði og þar komu að ferðamenn og fóru að hlýða honum yfir hversu vel hann væri að sér. Þeir spurðu: Í hvaða átt er sjórinn? og bentu út á sjó. Hann benti í aðra og sagði: Í þessa átt. Þeir spurðu: Í þessa átt? Já, sagði hann. Og í þessa átt? Já, sagði hann. Og í fjórðu áttina. Já, sagði drengurinn. Þeir héldu að þetta væri nú meira fíflið en þá sagði hann: Ísland er jú eyja, ekki satt? Og fór þá mesta brosið af ferðamönnum.

Þess vegna er það þannig að það sem mundi henta einum stað vel í þessum skilningi mundi henta öðrum miður af augljósum ástæðum og þarf ekki að ræða það meir. Hér ber að skoða hið almenna og stóra samhengi hlutanna og mér fyndist það ákaflega sérkennileg niðurstaða ef Ísland ætlaði að fara að skera sig úr öllu sem ég þekki á byggðu bóli og taka upp tíma sem væri svo bjagaður frá því sem hér ætti að vera miðað við landfræðilega legu landsins að ég trúi því varla að svo verði.

[18:15]

Landið er þar sem það er og það er ekkert til að skammast sín fyrir, það er þvert á móti mjög gott. Mér sjálfum finnst eðlilegt, t.d. þegar maður kemur úr ferðalagi frá Evrópu og flýgur með sólinni, að það sé kannski roðagyllt kvöldsól utan flugvélarinnar nánast alla flugleiðina, að fylgja henni og lenda hér í nokkurn veginn sömu birtu og maður fór af stað í, enda er það alveg í takt við það sem vera á og er eðlilegt miðað við aðstæður. Að fara að hringla enn þá meira með þetta teldi ég alls ekki til bóta, herra forseti.

Hér áðan voru orðaskipti um símtöl sem menn fengju á mismunandi tímum sólarhringsins. Í þeirri röksemdafærslu fannst mér felast að viðkomandi, hv. þm. Kristján L. Möller, ætti bara erlenda kunningja á einum stað á jörðinni, þ.e. í Evrópu. Ef svo er með hann er skiljanlegt út frá hans persónulegu hagsmunum að hann vilji helst hafa sama tíma og þeir. En svo er t.d. ekki með þann sem hér stendur. Það vill svo til að mínir kunningjar eru alveg eins í Ameríku, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Það er ekki stórkostlegt vandamál í sjálfu sér. Ég hringi yfirleitt til Ástralíu og Nýja-Sjálands á bilinu frá tíu á morgnana til tólf vegna þess að þá er kvöldmatarleyti og komið fram undir háttatíma þar en fólk enn á fótum. Svona hafa samskipti mín verið við þetta ágæta kunningjafólk mitt í yfir 20 ár og ekki komið upp nein sérstök vandamál. Ég á marga kunningja og á stundum erindi við menn, t.d. starfsins vegna, í Vesturheimi, Kanada og Bandaríkjum Norður-Ameríku, jafnvel Mexíkó --- það er lélegt símasamband við Kúbu að vísu --- og það er ekki nokkurt vandamál heldur. (Gripið fram í.) Það ekkert vandamál að haga því þannig að hringja þá á þeim tíma sólarhringsins, síðdegis og um kvöld, sem vel er fallinn til samskipta þangað vestur.

Þetta með opinn skrifstofutíma er að mínu mati víkjandi rök hvort sem er vegna þess að þessi samskipti eru mikið notuð. Menn nota netið og ýmsa aðra tækni sem hafa auðveldað samskiptin og ég held að það séu ekki gild rök sem við þurfum að falla fyrir að Verslunarráðið sem á hér ötulan talsmann hefur áhuga á þessu út frá þröngum hagsmunum viðskiptalífsins við Evrópu.

Mér finnst það fremur smátt í hugsun í raun og veru að Ísland geti ekki að þessu leyti staðið sjálfstætt og haft sinn sjálfstæða tíma, réttan tíma, og byggt upp samskipti við nágranna sína í austri og vestri bara út frá því að við erum þar sem við erum. Ekki drögum við landið til, þó að þjóðsögur segi að risar hafi haft slík áform uppi, alla vega í Færeyjum. Það tókst ekki vel og ég held að það eigi bara að líta á það sem hluta af því að vera sjálfstæð þjóð með menningu og tungu sem býr í tilteknu landi að við höfum þann tíma sem okkur er eðlilegastur út frá legu landsins og byggjum upp samskipti okkar og viðskipti á þeim grunni. Ég sé ekki nein haldbær rök fyrir því að það sé ekki hægt og hitt allt of léttvægt til þess að ljá máls á því að gera þessar breytingar. Í öllu falli ætti ekki að gera þær fyrr en að undangenginni mjög rækilegri skoðun á kostum þeirra og göllum. Þá held ég að málið færi aldrei lengra því að þegar farið yrði að skoða þetta í alvöru þá sæju menn að það eru of veigamiklar röksemdir gegn þessu til að fara lengra með málið.