Greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 10:42:53 (1312)

2000-11-03 10:42:53# 126. lþ. 20.94 fundur 92#B greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[10:42]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að taka þetta mál til umræðu utan dagskrár vegna þess að margt er mjög óskýrt í þessum efnum nú um stundir.

Í fjárlagafrv. segir, með leyfi forseta, að áformað sé að taka upp nýtt greiðsluþátttökukerfi en markmið þess er að flytja greiðsluþátttöku almannatrygginga frá einstaklingum með lítinn lyfjakostnað yfir til þeirra sem nota mikið af lyfjum.

Þetta er afar óljóst orðalag sem hæstv. ráðherra reyndi að skýra fyrir okkur og bætir því við að það sem vaki fyrir stjórnvöldum sé að draga úr sjálfvirkum vexti og gera kerfið sanngjarnara.

Það var hæstv. fjmrh. sem reið á vaðið með sanngirnispólitíkina í vor þegar hann lýsti því yfir að ríkið hygðist draga úr þátttöku í lyfjakostnaði um 1 milljarð til viðbótar því sem áður hafði verið ákveðið. Síðan létu þeir verkin tala, bæði um áramót og síðan aftur í sumar. Þegar þessar hækkanir eru lagðar saman kemur eftirfarandi í ljós um hlutdeild Tryggingastofnunar ríkisins í lyfjakostnaði að hámarksgreiðsluhlutfall sjúklinga mun hafa hækkað um 72,22% frá áramótum eða úr 1.800 kr. fyrir hvern lyfseðil í 3.100 kr. Þetta á við um svokölluð b-lyf, en í þeim flokki eru m.a. lyf við hjarta-, astma-, psoriasis- og geðsjúkdómum. Hvað elli- og örorkulífeyrisþega snertir er hækkun í báðum lyfjaflokkum heldur minni en þó 58,33%. Þetta er sú sanngirnispólitík sem ríkisstjórnin stendur fyrir gagnvart sjúklingum.

Núna lýsir hæstv. ráðherra því yfir að þrátt fyrir þessa hækkun hafi lyfjakostnaðurinn lækkað. Ég auglýsi eftir upplýsingum um þessi efni því að eitt er alveg víst að ríkisstjórnin hefur haft forgöngu um að auka kostnaðarhlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði sem því nemur sem ég hef hér gert grein fyrir.