Greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 10:53:17 (1317)

2000-11-03 10:53:17# 126. lþ. 20.94 fundur 92#B greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[10:53]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Stöðugt hefur dregið úr framlögum ríkisins til lyfjakaupa svo nemur gífurlegum upphæðum. Það er alveg ljóst, herra forseti, að ríkisstjórnina skortir í þessum málaflokki stefnumótandi ákvarðanir og í umræðum á Alþingi á síðasta vetri þegar rætt var um breytingar á lyfjalögunum var því lofað af hæstv. ráðherra heilbrigðismála að stefnumótandi ákvarðanir yrðu teknar og að umræða um stefnumótun í lyfjakaupamálum færi fram. Hún fór ekki fram í fyrravetur og hún er greinilega ekki að fara fram hér og nú. Það er alveg ljóst á svari hæstv. ráðherra við mjög þörfum og greinargóðum spurningum hv. málshefjanda að stefnan er enn jafnóljós og loðin og hún hefur verið undanfarin ár. Kerfið er orðið svo mannfjandsamlegt og óaðgengilegt að það liggur við að sjúklingar þurfi að hafa með sér umboðsmann og túlk til þess að fá að vita hver réttur þeirra innan þessa kerfis er. Stöðugar breytingar á kerfinu eru mannfjandsamlegar í garð sjúklinga og ekki til þess fallnar að fólk geti bætt heilsuvernd eða aukið við heilsu sína.

Það er algerlega ljóst að þetta stöðuga og óendanlega verkefni heilbrigðisyfirvalda eins og hv. þm. Ásta Möller kallaði hefur legið á hillunni og það er synd og skömm ef svo á að vera áfram.