Námsmatsstofnun

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 11:16:25 (1325)

2000-11-03 11:16:25# 126. lþ. 20.10 fundur 176. mál: #A Námsmatsstofnun# (heildarlög) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[11:16]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka þessar umræður um frv. Þegar spurt er hvert sé hlutverk stofnunarinnar þá er hægt að lesa 2. gr. frv. um verkefni stofnunarinnar. Þar kemur fram, eins og ég var að leitast við að segja í framsöguræðu minni og menn geta einnig lesið í greinargerðinni með frv., að það er verið að skilgreina verkefni stofnunarinnar upp á nýtt, ekki aðeins vegna þess að hún tekur nú við því hlutverki að sinna samræmdum prófum sem eiga að koma til sögunnar á framhaldsskólastigi samkvæmt framhaldsskólalögunum heldur einnig með tilliti til þess að frá því að lögin voru fyrst sett um þessa stofnun hefur orðið veruleg breyting að því leyti að innan allra þriggja háskólanna sem sinna menntun kennara, Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, hafa orðið til sérstakar rannsóknastofnanir og aukin áhersla er þar lögð á meistaranám og rannsóknarnám af öllu tagi. Nýlega var haldið málþing t.d. í Kennaraháskóla Íslands þar sem voru kynnt hátt í 100 verkefni sem unnið er að og tengjast rannsóknum á skólastarfi og þróun þess þannig að af hálfu menntmrn. hefur verið mörkuð sú stefna að ekki sé starfandi utan háskólanna sérstök stofnun með því víðtæka hlutverki sem Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála hafði samkvæmt þeim lögum sem lagt er til að verði breytt með þessu frv. Það er meginkjarninn í þessum þætti frv. og tekur mið af þeirri þróun sem verið hefur á undanförnum árum.

Hins vegar er hlutverk stofnunarinnar að þessu leyti skilgreint eins og kemur fram í d-lið 2. gr.: ,,vinna að námsmatsrannsóknum og samanburðarrannsóknum við árangur skólastarfs í öðrum löndum.`` Þetta eru rannsóknir sem tengjast beint hlutverki stofnunarinnar og ekki á annarra færi en hennar að leggja stund á slíkar rannsóknir. Ég held að þegar menn kynna sér málið sjái þeir að hér er um skynsamlega verkaskiptingu að ræða og að ekki sé skynsamlegt að hafa rannsóknastofnun utan háskólanna með því víðtæka hlutverki sem Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hefur haft til þessa.

Ég er þeirrar skoðunar að heitið á Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hafi alls ekki gefið rétta mynd af meginverkefnunum hennar og ég tel að með því að breyta heitinu og kalla hana Námsmatsstofnun sé í fyrsta lagi verið að gefa til kynna með heiti stofnunarinnar nákvæmlega hvaða verkefni hún á að sinna og einnig verið að árétta að við erum að þrengja verksviðið frá því sem nú er og lýsa því yfir að það sé nauðsynlegt að hafa stofnun sem sinnir þessu hlutverki sérstaklega. Ég tel því rökrétt að breyta heiti stofnunarinnar bæði til þess að gefa betur til kynna hvaða hlutverki hún gegnir að meginhluta nú þegar og einnig til þess að árétta þá breytingu sem frv. hefur í för með sér.

Varðandi spurninguna um upplýsingamiðlun og miðlun niðurstaðna á samræmdum prófum þá er það svo eins og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir gat um, að ólík sjónarmið eru um þetta og það eru margir sem eru eindregnir talsmenn þess að þessar upplýsingar liggi fyrir. Ég verð ekki var við annað en það hafi almennt mælst vel fyrir og til mín hafa komið fulltrúar fámennra skóla sem ekki hafa komist inn í þennan samanburð vegna þess að nemendur sem þar taka próf eru færri en 11 eins og tölvunefnd lagði til að yrði sett sem lágmark í þessu og þessir skólar hafa beðið um að komast inn í samanburðinn með því að fá að bera saman þrjú ár, taka saman nemendafjölda í þrjú ár og komast þannig inn í samanburðinn og við höfum í sjálfu sér heimilað það. Það hefur frekar verið áhugaefni skóla að komast inn í þessar samanburðartölur heldur en að forðast þær.

Hvað sem líður þessum lögum þá er okkur skylt að gera þetta samkvæmt upplýsingalöggjöf. Það voru tvær ástæður sem ollu því að við fórum út á þessa braut, ef ég man, rétt í ársbyrjun 1997. Það var annars vegar tilkoma nýrra upplýsingalaga sem voru túlkuð á þann veg að það bæri að gefa þessar upplýsingar og í öðru lagi var það hluti af stefnumörkun í skólamálum sem laut að því að með því að veita þessar upplýsingar stæðu allir betur að vígi, nemendur, kennarar og foreldrar og það eru þessir þrír aðilar sem koma að því að gera góða skóla. Það eru nemendur, kennarar og foreldrar. Og til þess að foreldrar hafi upplýsingar um þetta er nauðsynlegt að þær liggi fyrir og séu gefnar út eins og gert hefur verið. Ég er því eindregið þeirrar skoðunar að þetta sé til bóta í íslensku skólakerfi. Það hafa verið ólík sjónarmið um þetta á Alþingi eins og við vitum. En mín reynsla af þessu er sú að ekki beri að hverfa frá þessu og það sé nauðsynlegt að hafa um þetta lagaákvæði með þeim hætti sem segir í 2. gr. frv.

Ég þakka þessar umræður. Ég tek ekki undir að það hafi verið sérstakt markmið mitt í sjálfu sér að leggja ofurkapp á samræmd próf. Þvert á móti hef ég verið að beita mér fyrir þeim breytingum á löggjöf sem gerir fólki kleift að komast á milli grunnskóla og framhaldsskóla án þess að taka samræmd próf og það hefur verið skapaður aukinn sveigjanleiki í skólakerfinu með því að aflétta þeirri skyldu af öllum nemendum að þurfa að taka samræmd próf þannig að mér finnst það heldur skjóta skökku við að koma hér og segja að ég sé að leggja ofurkapp á samræmd próf þegar ég hef verið að beita mér fyrir þessum sveigjanleika.