Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 16:04:34 (1523)

2000-11-09 16:04:34# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[16:04]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga þar sem gerðar eru þó nokkuð miklar breytingar á útsvarsprósentu og fleiri atriðum.

Nú eru útsvar og tekjuskattur á bilinu 37,65% til 38,45% en verða 37,32% til 39,11%, þ.e. neðri mörkin lækka en efri mörkin hækka. Þeir hv. þm. sem hafa verið að halda því fram í umræðunni að þetta muni valda skattahækkun á borgaranum eru í rauninni að lýsa vantrú á sveitarstjórnirnar, að þær muni ekki gera annað en fara í hámarkið.

Nú er það þannig að sveitarstjórnirnar eru að sjálfsögðu kosnar af sínum borgurum og eiga þar af leiðandi að gæta hagsmuna þeirra ekki síður en hagsmuna sveitarfélagsins. Þar af leiðandi munu þær væntanlega velja útsvarsprósentu frekar í lægra kantinum. Þetta frv. eykur sjálfræði sveitarfélaganna og það þykir mér vel, þær geta valið útsvarsprósentuna á stærra bili.

Herra forseti. Það sem við ræðum hér um og hefur komið fram í umræðunni er þetta vandamál skattlagningar og skattgreiðandans. Allir opinberir starfsmenn, þingmenn, bæjarráðsmenn o.s.frv. hafa metnað til góðra verka. Þeir vilja byggja falleg íþróttahús eða eitthvað annað. Svo eru sett góð lög á Alþingi sem bera oft keim af útópíu eða einhverri draumsýn og það telja menn sig þurfa að framkvæma þegar kemur heim í hérað og þá vex kostnaðurinn. Venjan er sú hjá sveitarfélögum, andstætt venjulegu heimili, að þegar kostnaður vex heimta menn hærri tekjur. Hjá venjulegu heimili, hjá venjulegri húsmóður eða þeim sem sér um fjármál heimilisins, gerist það þegar útgjöldin vaxa að menn spara. Það verða menn að gera því að þeir geta ekki fengið hærri tekjur, ekki svona að öllu jöfnu. En sveitarfélögin telja sig geta það.

En varðandi vandamál skattgreiðandans og hins opinbera, framkvæmdarvaldsins, vil ég nefna hrossaræktina sem dæmi sem við samþykktum á síðasta þingi fjárframlög til upp á 250 milljónir. Ég greiddi reyndar atkvæði gegn því en hv. þm. voru flestir með á því að setja 250 millj. í hrossarækt á fimm árum. Þetta eru ekki nema þúsund krónur á hvern íbúa, bara pínulítið, 200 kr. á ári, ekki neitt neitt. En þetta eru geysilegir hagsmunir fyrir hrossaræktina, fyrir þá menn sem hafa lifibrauð af því að starfa við það að rækta hross, vinna við það að kenna á hross eða vinna við að starfrækja reiðhús og annað slíkt. Hagsmunirnir eru svo ólíkir, hagsmunirnir rekast á, annars vegar pínulitlir hagsmunir skattgreiðandans í þessu sérstaka tilfelli og hins vegar stórir hagsmunir einhvers lítils hóps manna. Til þess að beina kastljósinu að þessu vandamáli langar mig til að lesa grein sem birtist í Morgunblaðinu 4. nóv. árið 2000 eftir Atla Harðarson heimspeking sem heitir svo: ,,Hvernig væri að kjósendur veldu skatthlutföll``, með leyfi herra forseta:

,,Alla 20. öld hafa ríkisumsvif farið vaxandi. Ríkið rekur skóla, fjölmiðla, sjúkrahús, samgöngumannvirki og alls konar eftirlitsstofnanir. Stór hluti af löggjöf fjallar um starfsemi þessara stofnana svo löggjafinn verður að hafa verulegt samráð við þá sem bera ábyrgð á rekstri þeirra. Þetta þýðir ekki að Alþingi sé valdalaust. Þingmenn geta samþykkt vantraust á ríkisstjórn eða sett lög sem Stjórnarráðinu eru lítt að skapi. En þeir geta ekki sett skilvirk lög um framkvæmdir og rekstur á vegum ríkisins án samvinnu við ráðherra, embættismenn og sérfræðinga. Þarna vinna þing og Stjórnarráð því hlið við hlið með þeim afleiðingum að þingmennirnir koma ekki fram sem fulltrúar almennings gagnvart framkvæmdarvaldinu heldur miklu fremur sem samverkamenn þess. Við þessar aðstæður liggur það nánast í hlutarins eðli að löggjafinn lítur ekki á það sem hlutverk sitt að takmarka opinber útgjöld heldur snúa framkvæmdar- og löggjafarvald bökum saman í þeirri viðleitni að afla ríkinu sem mestra tekna.

Nú kann sumum að þykja þetta gott og blessað en ég held að skattheimta sé komin á það stig að draga úr sköpunarmætti og aðlögunarhæfni samfélagsins auk þess að spilla efnalegri afkomu þorra fólks. En hér er við ramman reip að draga. Þingið sem upphaflega átti að standa gegn ásælni ríkisvaldsins er í liði með því.

Ég býst við að flestir þingmenn sinni starfi sínu af lífi og sál. Sé starfið í því fólgið að stuðla að opinberum framkvæmdum í eigin kjördæmi eða styrkja einhver málefni þá mun þeim ætíð þykja þörf á meiri peningum. Dugmiklu fólki sem langar til að gera eitthvert gagn finnst alltaf að það þurfi meiri peninga. Þetta verður svo auðvitað til þess að venjulegir borgarar sem vilja verða ágætir af verkum sínum hafa minna fé handa á milli.``

Þetta er vandinn í hnotskurn sem við erum að glíma við. Þess vegna treysta hv. þm. sveitarstjórnunum ekki til að vera með útsvarsprósentuna í lágmarki. Það sem heimspekingurinn Atli Harðarson stingur upp á er að það sé kosið um skattprósentuna og mér líst bara ljómandi vel á það. Mér litist ágætlega á að það yrði kosið í Reykjavík um tvær mismunandi útsvarsprósentur, með menningarhúsi, sem kostar 40 þús. kr. á hvern einasta íbúa í Reykjavík, eða án. Með þessum og hinum góðu málunum eða án. Svo getur borgarinn kosið hvort hann vill hafa hrossarækt, menningarhús o.s.frv. eða hvort hann vill borga minna útsvar. Ég kem þessari hugmynd á framfæri, herra forseti.

Um leið yrði að banna skuldasöfnun sveitarfélaganna, það segir sig náttúrlega sjálft. Ef kjósandinn á að kjósa um útsvarsprósentuna yrði að banna skuldasöfnun og það er gert sums staðar á Norðurlöndum, skilst mér.

Herra forseti. Málið er ekki alveg svo einfalt eins og sumir hv. þm. hafa látið að liggja, að sveitarfélögin muni öll fara upp í hámark. Það er nefnilega samkeppni milli sveitarfélaga um skattgreiðendur, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Menn geta flutt sig um set, keypt íbúð í Garðabæ eða annars staðar þar sem prósentan er lægri. Þetta hafa menn gert. Það er samkeppni milli sveitarfélaga og ekki aðeins milli sveitarfélaga heldur líka milli landa. Það er það sem við erum í síauknum mæli að mæta, þ.e. hvernig stendur Ísland sig í skattalegri samkeppni um launþega við önnur lönd? Því þurfum við að mæta og því þurfum við að svara innan ekki mjög langs tíma vegna þess að heimurinn er orðinn afskaplega lítill, það er orðið mjög ódýrt að ferðast milli landa í hlutfalli við laun og það er líka orðið erfitt að skilgreina hvar menn vinna á tölvuöld þar sem menn geta unnið hvar sem er og verið búsettir einhvers staðar allt annars staðar.

Það að sveitarfélögin geti valið sér útsvarsprósentu þýðir jafnframt kröfu um arðsemi í rekstri þeirra, hagræðingu, sparnað og aðhald. Og það mun einmitt svara því sem seðlabankastjóri, Birgir Ísl. Gunnarsson, sagði í gær, að hann hefði áhyggjur af hægari vexti, framleiðni í þjóðfélaginu. Það er kannski vegna þess hve stór hluti af atvinnurekstrinum er í opinberum höndum þar sem ekki er endilega gerð krafa um arðsemi heldur krafa um að byggja sem mest af íþróttahúsum sem er ekkert endilega arðbært. (Gripið fram í.) Ekki endilega. Sums staðar ekki, t.d. þar sem einungis tólf kílómetrar liggja milli 120 millj. kr. húsa. (Gripið fram í.) Ég er að tala um Hellu og Hvolsvöll.

Herra forseti. Góðærið hefur gagnast sveitarfélögunum eins og ríkinu, eins og einstaklingum. Laun hafa hækkað sem aldrei fyrr í Íslandssögunni, 20--30%, og útsvör hækka hlutfallslega því að það er flatur skattur á tekjum alveg upp úr og niður úr þar sem ríkið borgar nefnilega útsvarið fyrir þá sem eru undir frítekjumarkinu. Útsvarið er flatur skattur nákvæmlega eins og tryggingagjaldið. En tekjuskatturinn vex hlutfallslega miklu meira en launin vegna frítekjumarksins.

Fasteignaverð hefur hækkað líka umfram verðlag umtalsvert, svona svipað og launin, enda kannski ekkert skrýtið. Það er venjan að það haldist í hendur. Það þýðir að tekjur sveitarfélaganna af fasteignagjaldi hafa líka hækkað stórlega umfram verðlag þannig að allir hafa í rauninni notið góðs af góðærinu. Eignarskattar hækka mikið umfram verðlag, umfram hækkanir vegna fríeignamarksins. Allir eru því glaðir og ánægðir í þessari stöðu nema menn hafi verið svo óskaplega duglegir að eyða þannig að útgjöldin hafi vaxið langt umfram verðlag og langt umfram tekjur.

[16:15]

Í umræðunni hafa hv. þm. nefnt að ýmsar breytingar á skattalögum hafi skaðað sveitarfélögin, t.d. að breyting á hlutabréfakaupum sé frádráttarbær. Þeir gleyma að það var forsenda fyrir góðærinu. Það var forsenda góðærisins að liðka um fyrir atvinnulífinu, veita fé í atvinnulífið, auka veltuna og auka umsvifin. Það er nú ekki lítið sem sveitarfélög eins og Siglufjörður hafa grætt á verðbréfamarkaðnum. Þar hefur verið fjárfest fyrir milljarða með hjálp verðbréfamarkaðarins, einnig á Austurlandi og víðar. (KLM: En sveitarfélögin borga.) Þessar aðgerðir til að örva verðbréfamarkaðinn hafa komið landsbyggðinni til góða og miklu fremur en þær stofnanir sem settar eru í gang til þess að veita fé út á land.

Iðgjöld til lífeyrissjóða hafa líka verið nefnd sem dæmi. Það er rétt að það hefur skert tekjur sveitarfélaganna sem og ríkissjóðs en samt hafa tekjurnar vaxið umtalsvert.

Sumir segja að góðærið sé í raun náttúrulögmál og komi þeim ríkisstjórnum sem hafa verið hér við völd síðan 1990 ekkert við, það hefði ekki skipt máli hver hefði verið við stjórnvölinn. Ég hef ekki trú á því. Ég held að þær ráðstafanir sem ríkisvaldið hefur gripið til, m.a. þessar sem ég nefndi, hafi örvað fyrirtækin, hvatt þau til dáða og komi þeim öllum til góða, líka sveitarfélögunum.

Þær tillögur sem við ræðum hér byggja á jafnstöðu, þ.e. það á að taka burt þá furðulegu reglu sem sett var upp 1989 að kröfu sveitarfélaganna, að skattar á fasteignir í sveitarfélögunum miðist við verðlag í Reykjavík. Það er ótrúleg krafa og ótrúleg fyrirlitning á skattborgurunum heima í héraði, að ætla þeim að borga af verðlausum eignum eins og borgað er af eignum í Reykjavík. Nú á að taka það til baka af því að skattborgarinn er farinn að kvarta. Nú á að laga þetta með framlagi ríkissjóðs í jöfnunarsjóðinn og gefa sveitarfélögunum aukna heimild til að leggja á aukið útsvar.

Auðvitað geta tekjur sveitarfélaga og ríkisins ekki komið frá öðrum en skattgreiðendum, hvergi nokkurs staðar. Þau geta reyndar farið út í atvinnurekstur en það hefur yfirleitt gefið illa raun. (Gripið fram í: Selja eignir.) Þau gætu selt eignir já, en það er skammtímalausn. Það gengur náttúrlega ekki endalaust.

Það sem við erum að ræða hér er í raun að flytja skattgreiðsluna frá fasteignaeigendum úti á landi til launagreiðenda á sama svæði í stórum dráttum, flytja eilítið skattgreiðslu frá launagreiðendum á Reykjavíkursvæðinu út á land gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Svona sé ég þessar tillögur í grófum dráttum.

Ég get ekki séð að borgarstjórn Reykjavíkur ákveði að hækka útsvarsprósentuna þó hún hafi heimild til þess vegna þess að hún hefur hagnast lifandis býsn á hækkandi fasteignaverði. Ég sé ekki neina ástæðu til þess að skattar hækki hér í Reykjavík. Þeir ættu frekar að lækka vegna þess að tekjuskatturinn er lækkaður um þriðjung úr prósenti.

Ég sé þetta ekki sem skattahækkun, ekki almennt, vegna þess að ég treysti hreinlega sveitarfélögunum til að fara ekki offari á kostnað skattgreiðenda. En það er kannski misskilið traust og kannski ætti ég að ganga í hóp þeirra hv. stjórnarandstæðinga sem hér hafa talað og reikna með því að sveitarfélögin fari öll í toppinn í útsvarsprósentunni. Ég hef hins vegar enn nógu mikið traust á þeim ágætu mönnum sem stýra sveitarfélögunum.

Þetta mun þýða að krafan um arðsemi og ráðdeildarsemi hjá sveitarfélögunum eykst. Þau þurfa að passa sig á þeim fjárfestingum sem þau fara í því þær lenda á skattgreiðendum í auknum mæli.

Þetta var það sem ég vildi segja um þessar tillögur. Þær eru góðar að því leyti að þær auka sjálfræði sveitarfélaganna og það líst mér vel á. Ég vona að sveitarfélögin geti staðið undir þeirri ábyrgð sem á þau eru lögð. Þetta gefur jafnframt möguleika á skattalækkun hjá þeim sveitarfélögum sem best eru rekin. Það er gott mál því þá getur fólk bara flutt þangað ef sveitarfélagið sem það býr í verður mjög ósvífið.