Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 16:29:07 (1529)

2000-11-09 16:29:07# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[16:29]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom inn á það sem ég gat um, að ef heimilt væri að mynda skuldir og íbúar sveitarfélagsins mundu kjósa um útsvarið, þá gæti það leitt til þess að hópur manna í sveitarfélaginu, því ekki eru allir englar, tækju þá ákvörðun að hafa útsvarið mjög lágt í einhver ár, safna skuldum og flytja svo í burt. Þetta hefur reyndar gerst. Ég er að tala um þá sem ekki eru englar. (Gripið fram í: Er þetta ábyrg fjármálastjórn?) Þegar kerfið býður upp á slíkt gerist það því miður, herra forseti, þó það sé ekki sérstaklega ábyrgt.

Síðan kom hv. þm. inn á samkeppni um skattgreiðendur og hafði greinilega misskilið orð mín. Ég bætti því við að þetta væri hægt hérna á Reykjavíkursvæðinu og svo er í reynd.

[16:30]

Ég geri ráð fyrir því að þegar fjölskylda flytur utan af landi til Reykjavíkur þá vegi hún og meti hvar útsvarsprósentan er há, hvar hún er lág og hvort önnur gjöld eru há eða lág, fjöldi annarra gjalda, sorphirðugjald o.s.frv. Þetta kemur allt inn í dæmið. Fólk reiknar með þessu þegar það flytur og velur sér sveitarfélag og auk þess með félagslegri þjónustu, góðum barnaheimilum og skólum eftir atvikum. Það kemur líka inn í dæmið.

Spurningin er hins vegar: Er sú þjónusta eins vel rekin og mögulegt er, er velferðarkerfi sveitarfélaganna skilvirkt? Það skiptir virkilega miklu máli því að stjórnunin er ekki síður mikið mál en aðrir þættir.

Það að byggja íbúðir fyrir aldraða og annað slíkt er líka hluti af þeirri þjónustu sem sveitarfélög veita. Ég benti hins vegar á að það þyrfti að gera á skilvirkan hátt og með góðri stjórn er hægt að veita ódýrari þjónustu en annars staðar.