Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 17:08:22 (1547)

2000-11-09 17:08:22# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[17:08]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Þessi umræða um breytta tekjustofna sveitarfélaga hefur um margt verið fróðleg og farið um víðan völl eins og við mátti búast. Þetta er þó kannski býsna einfalt mál, þ.e. að sú ágæta nefnd sem hér hefur verið minnst á komst auðvitað að skýrum niðurstöðum. Hún safnaði merkum upplýsingum og niðurstaðan var ósköp einfaldlega sú, eins og fram kom í máli hv. þm. Jóns Kristjánssonar sem jafnframt var formaður nefndarinnar, að sveitarfélögin hafa verið rekin með halla allan þennan áratug. Lög og reglugerðir hafa kallað á aukin útgjöld sveitarfélaga en um leið dregið úr tekjum þeirra. Vandamálið lá því ljóst fyrir en síðan kom að tillögugerðinni og þá náðist því miður ekki niðurstaða sem tæki á þeim vanda sem nefndin var á margan hátt svo vel búin að skilgreina.

Meginniðurstaðan er sem sagt sú að tillagan tekur ekki á því sem við getum kallað fortíðarvanda, þ.e. þeim vanda sem safnast hefur upp á þessum áratug. Hins vegar gera tillögurnar ráð fyrir því að þetta verði jafnað miðað við þær áætlanir sem fyrir liggja um næsta ár. Auðvitað má deila um þá leið sem farin er en ég held að nauðsynlegt sé að það komi skýrt fram að þarna skilur í raun á milli. Fortíðarvandinn er skilinn eftir og það kemur fram hjá fulltrúum sveitarfélaganna í nefndinni að því hafi verið hafnað, þrátt fyrir eftirgangssemi af þeirra hálfu, að farið væri sérstaklega yfir þennan vanda og settur sérstakur hópur til að komast að niðurstöðu um hvernig hann yrði bættur. Það fékk því miður ekki hljómgrunn í nefndinni eða réttara sagt, ekki hljómgrunn hjá ríkisstjórnarmeirihlutanum, vegna þess að við höfum orðið vitni að því hér í dag að áherslurnar í málinu hjá ríkisstjórnarflokkunum eru æðimisjafnar.

Niðurstaða nefndarinnar er að sjálfsögðu málamiðlun milli flokkanna og þarf ekki að hafa langt mál um það. Á margan hátt er eðlilegt í ríkisstjórnarsamstarfi að stjórnarflokkarnir komist að sameiginlegri niðurstöðu. Ég held að það fari ekki á milli mála hjá öllum þeim sem fylgst hafa með umræðunum undanfarnar vikur og mánuði að Sjálfstfl. hefur verið annarrar skoðunar en Framsfl. í málinu. Framsfl. hefur greinilega ekki náð lengra með Sjálfstfl. í þessu máli. Auðvitað harma ég mjög að Framsfl. skuli ekki ráða betur við samstarfsflokk sinn í þessu máli því að hér er vissulega um brýnt og mikilvægt mál að ræða.

Ég sagði áðan að því miður hefði ekki náðst niðurstaða í því hvernig taka ætti á fortíðarvandanum. Hins vegar er rétt að halda til haga öllu því sem tengist fortíðarvandanum. Það hefur komið fram hér í dag að utan við verksvið nefndarinnar var sá vandi sem við er að glíma í félagslega íbúðakerfinu og önnur nefnd vinnur að því að fara yfir flutning grunnskólans. Við skulum vona að niðurstöður þeirrar nefndar verði til að bæta hag sveitarfélaganna því að ekki mun af því veita, ekki þarf annað en að vísa til ýmissa talna sem fram hafa komið frá tekjustofnanefndinni.

Ef við skoðum tillögurnar frá meiri hluta nefndarinnar, þ.e. að fara þá leið að heimila sveitarfélögunum að hækka útsvarið en lækka ekki hlutfall ríkisins í staðgreiðslunni nema um þriðjung leyfilegrar hækkunar, þá er auðvitað ljóst og ég held að það hafi komið mjög skýrt fram hjá mjög mörgum ræðumönnum að hér er í raun um skattahækkun að ræða. Í besta falli skilar breytingin sér slétt út, þ.e. hjá þeim sveitarfélögum þar sem lækkun fasteignaskattsins kemur á móti. Ýmsir talsmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa einmitt boðað að lækka beri fasteignaskattinn einmitt á þeim svæðum og það er gert með annarri hendinni á meðan það er jafnharðan gripið til baka með hinni.

Niðurstaðan er vitanlega óásættanleg en eins og ég sagði áðan þá virðist Framsfl. því miður ekki hafa náð Sjálfstfl. lengra í þessum efnum. Við verðum að vona að brátt komi betri tíð og hægt verði að taka á vandanum. Eins og hv. formaður nefndarinnar, Jón Kristjánsson, sagði þá telur hann eðlilegt að afgangur af ríkissjóði sé nýttur til þess að greiða niður skuldir. Það er rétt að taka undir það en hins vegar gengur ekki að hann sé eingöngu nýttur til að greiða niður skuldir ríkissjóðs meðan sveitarfélögin eru látin safna skuldum. Auðvitað lækka ekki skuldir opinberra aðila í heild sinni og því hefði verið eðlilegt að ríkissjóður hefði komið til móts við sveitarfélögin með því að lækka hlutdeild sína í staðgreiðslunni á móti hækkunum sveitarfélaganna.

Það mjög ankannalegt þegar ýmsir hv. þm. úr ríkisstjórnarflokkunum tala um aukið svigrúm sveitarfélaganna. Það er vissulega þannig á pappírnum í en raunveruleikinn er allt annar. Raunveruleikinn er sá, eins og komið hefur fram hjá nær öllum fulltrúum sveitarfélaganna, að það er enginn valmöguleiki í stöðunni, það verður að nýta heimildirnar algjörlega í topp. Sveitarfélögin neyðast til þess.

Herra forseti. Hér hefur ýmislegt fleira markvert komið fram í ræðum hv. þm. Það var býsna athyglisvert að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, sem verður að teljast einn af talsmönnum Sjálfstfl. í þessu máli, hún átti sæti í nefndinni sem komst að þeirri niðurstöðu sem hér er til umræðu í frumvarpsformi, taldi eitt af því merkasta í störfum nefndarinnar að hafa komið réttlætismáli í höfn, þ.e. breytingum á álagningu fasteignagjalda.

[17:15]

Herra forseti. Það er auðvitað nauðsynlegt í þessu samhengi að það komi skýrt fram að í rauninni fékk nefndin það bara í veganesti að landa málinu, ákvörðunin lá fyrir, enda hafði hv. þm. farið víða um héruð og boðað að þetta bæri að gera. En þetta er nú ekki komið meira í höfn en svo, eins og ég sagði áðan, að því er sleppt með annarri hendinni sem síðan er gripið til baka jafnharðan með hinni, þannig að hér hefur ekki mikið komist í höfn annað en það að verið er að lækka álagningu fasteignagjalda á fólk en útsvarið hækkað jafnharðan. Hér er, eins og ég sagði áðan, um algjörlega óviðunandi lausn að ræða.

Það var einnig athyglisvert í máli hv. þm. að hvergi örlaði fyrir neinum rökstuðningi fyrir þeirri skattahækkunarleið sem ríkisstjórnin er að fara í þessu máli. Þar var hvergi komið með rökstuðning um að hér væri t.d. verið að ná niður þenslu með skattahækkunum eða öðru þess háttar. Ég verð því að vænta þess að hv. þm. komi hér í seinni ræðu sinni, sem ég geri ráð fyrir að hv. þm. flytji vegna þess að ekki hafa ræður hv. þingmanna Sjálfstfl. verið mjög margar hér og hv. þm. verður að teljast einn af aðaltalsmönnum Sjálfstfl. í málinu, og þá komi þessi rökstuðningur fram.

Herra forseti. Það var hins vegar athyglisvert að hv. þm. tengdi barnabætur við þessa umræðu og taldi að eðlilegt væri að tengja það saman. Ég tel að í einu samhengi sé sú tenging afar eðlileg vegna þess að það er um margt líkt með því hvernig komið hefur verið fram við barnafjölskyldur í landinu á undanförnum árum og hvernig hefur verið komið fram við sveitarfélögin, þ.e. fyrst er skert og tekið af og síðan er skammtað til baka og reynt að gera málið hið jákvæðasta með því að nú sé verið að taka á málum. En eins og bent hefur verið á hér er eingöngu verið að skila hluta af því sem hallað hefur á í báðum tilfellum. Og í því samhengi var eðlilegt að hv. þm. tæki barnabæturnar inn í umræðuna.

En, herra forseti, það var athyglisvert að heyra ræðu hv. þm. Péturs Blöndals vegna þess að með hv. þm. Pétri Blöndal höfum við heyrt í fjórum hv. þm. Sjálfstfl. um þetta mál. Fyrstur gekk fram á sviðið hæstv. forsrh. og allir þekkja að sjálfsögðu málflutning hans í málinu, þ.e. að sveitarfélögin þyrftu ekkert því að þar væri aðaleinkennið á rekstri þeirra óráðsía í fjármálastjórn. Ég er sannfærður um að það hefur auðvitað valdið miklum vanda í þeirri ágætu nefnd sem hér hefur verið mikið rætt um að slík yfirlýsing hafði komið fram frá hæstv. forsrh. Það verður þó að segja að miðað við þá yfirlýsingu hafa ýmsir nefndarmenn náð verulegum árangri í því að fá hæstv. forsrh. til þess að bakka. En hv. þm. Pétur Blöndal hefur greinilega ekki orðið var við það að hæstv. forsrh. hefur bakkað í málinu og kom og hélt fram sömu rökum og hæstv. forsrh. gerði fyrr í sumar, að fyrst og fremst væri um óráðsíu sveitarfélaganna í fjármálastjórn að ræða. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í ræðu borgarhagfræðings, Eggerts Jónssonar, sem flutt var á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga nú fyrir skömmu en þar kemur m.a. fram eftirfarandi:

,,Í þessu sambandi má heldur ekki gleyma því, að skuldir sveitarsjóðanna hefðu hækkað mun meira en raun ber vitni, ef ekki hefðu komið til umtalsverðar tekjur af sölu eigna á tímabilinu,`` --- það er rétt að skjóta því inn í að hér er verið að ræða um tímabilið 1991 til 2000 --- ,,auk þess sem hagrætt var í rekstri og ýmsum brýnum verkefnum slegið á frest.

Takið eftir því, að uppsafnaður greiðsluhalli nam 36 milljörðum en skuldirnar hækkuðu um 31 milljarð.``

Þarna er vissulega um ákveðinn árangur að ræða sem ber að virða og eðlilegt að hafa í þessu samhengi.

Herra forseti. En það voru fleiri sem héldu ræður á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga og það voru fleiri sem svöruðu hæstv. forsrh. og hv. þm. Pétri Blöndal. Þar kemur til að vísu varaþingmaður Sjálfstfl., formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, en með leyfi forseta, sagði formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga m.a. í ræðu sinni:

,,Niðurstöður athugana tekjustofnanefndar eru allar á einn veg og leiða ótvírætt í ljós að mjög hefur hallað á sveitarfélögin í fjármálalegum samskiptum þeirra við ríkið allt frá árinu 1991. Sú yfirborðslega umræða ...`` --- Herra forseti. Ég held að rétt sé að endurtaka þetta þar sem hv. þm. Pétur Blöndal gengur hér fram hjá púltinu: ,,Sú yfirborðslega umræða sem borið hefur á um óvandaða fjármálastjórn og ábyrgðarleysi í rekstri og fjárfestingu sveitarfélaga almennt á sér því ekki stoð.``

Herra forseti. Óhjákvæmilegt er að benda hv. þm. á að fara vel yfir gögn nefndarinnar því að hér talar flokksbróðir hans sem verður að teljast þekkja nokkuð til þess sviðs sem hér er fjallað um.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt í samhengi við þessi ummæli, sem ég hef bæði vitnað til og þess sem við höfum orðið vitni að í dag og við höfum einnig heyrt áður, að velta því upp hver er í raun talsmaður Sjálfstfl. í þessu máli. Ég sagði áðan að það væru fjórir aðilar til að vitna og hv. þm. Pétur Blöndal á augljóslega samleið með forsrh., þ.e. fyrr á árinu, spurning hvort það er enn í dag. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir skautaði hins vegar algjörlega fram hjá því að færa nokkur rök fyrir þeirri niðurstöðu sem nefndin komst að og er í því frv. sem um er fjallað. En varaþingmaðurinn Vilhjálmur Vilhjálmsson hefur hins vegar komist að annarri niðurstöðu en þau þrjú hin þannig að ég endurtek spurningu mína: Hver er stefna Sjálfstfl. og hver er talsmaður Sjálfstfl. í því máli sem hér er fjallað um?