Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 18:45:13 (1554)

2000-11-09 18:45:13# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[18:45]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var um margt kúnstug ræða hjá hæstv. ráðherra og seinheppinn var hann þegar hann valdi sér dæmigerð sveitarfélög hér sunnan við höfuðborgina. Hann staldraði einkum og sér í lagi við minn heimabæ, Hafnarfjörð og vakti athygli á Morgunblaðsfrétt sem átti að sýna fram á glæstan hag þess sveitarfélags. Betur ef satt væri, segi ég.

Staðreyndin er sú að í þeim forsendum hafa einmitt verið reiknaðar inn þær skattahækkanir sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórn eru að knýja sveitarfélögin allt í kringum landið, og þar á meðal Hafnarfjörð, til þess að nýta sér. Og ekki nóg með það, í Hafnarfirði er allt keyrt í botn í álögum, hækkun sorphirðugjalds, allra þjónustugjalda sem nöfnum tjáir að nefna.

Því miður er það nú þannig með þetta ágæta sveitarfélag, minn heimabæ, að á umliðnum árum, sérstaklega síðustu tveimur, hafa skuldir þar hækkað um 3 milljarða kr. Þar ráða ríkjum framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, nýlegir, að segja, einkavinir hæstv. ráðherra. Og af því hæstv. ráðherra vildi kalla mig til sögu og mín störf þar suður frá, þá voru skuldir Hafnfirðinga 1,2 milljarðar kr. þegar sá sem hér stendur lauk starfi. Þeir eru núna 7. Það þarf ekki frekari vitnanna við.

Herra forseti. Það þarf heldur ekki frekari vitnanna við þegar tölur eru skoðaðar. Í skýrslunni sjálfri er nákvæmlega kveðið á um það hvernig þessar skattahækkanir falla til á einstök héruð. Þær eru upp á 2,5 milljarða rúma á höfuðborgarsvæðinu. Mildandi áhrif eru upp á 800 millj. kr. Það eru með öðrum orðum 160 þúsund manns sem ætla að greiða þessa 1,6--1,7 milljarða kr. Það þýðir að meðaltali 10 þús. kr. á hvern íbúa þessa svæðis.

Þetta er ósköp einfaldur útreikningur. Þannig er það bara. Einhverjir verða að borga þessa hækkun og það eru 160 þúsund manns um þessa 1,6 milljarða kr.