Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 18:51:20 (1558)

2000-11-09 18:51:20# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[18:51]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt vegna ummæla hæstv. ráðherra um hvað gerðist á ráðstefnu um fjármál sveitarfélaganna 2. og 3. nóvember sl. að rifja örlítið upp fyrir hæstv. ráðherra.

Það verður að vísu einnig fróðlegt að sjá umsagnir sveitarstjórnanna við það frv. sem hér liggur fyrir og kanna þá hvort lýsingar hæstv. ráðherra á viðhorfum sveitarstjórnarmanna eigi við rök að styðjast. Það voru fleiri ræður haldnar á þessari ráðstefnu en þær sem hæstv. ráðherra minntist á. Ég mun þó aðeins grípa niður í eina þeirra vegna þess að ég hef hér undir höndum eina ræðu sem að vísu var ekki flutt á ráðstefnunni af höfundi ræðunnar vegna þess að hann var veðurtepptur austur á landi en hún var eigi að síður lesin yfir ráðstefnugestum og ég trúi því að hæstv. ráðherra hafi heyrt þá ræðu eins og aðrir.

Í ræðu Guðmundar Bjarnasonar, bæjarstjóra í Fjarðarbyggð, sem var einn af fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga í títtnefndri nefnd, segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ljóst er að þær niðurstöður sem nú liggja fyrir duga hvergi nærri til að bæta þá miklu tekjuvöntun sem sveitarfélögin hafa átt við að glíma allan síðasta áratug, en þær koma nokkuð til móts við hallarekstur þeirra nú sem stendur. Því lögðum við fulltrúar sveitarfélaganna í tekjustofnanefnd til að skipuð yrði sértök nefnd sem færi ofan í fortíðarvandann. En þær málaleitanir báru ekki árangur.``

Hér er varla mikið fagnaðaróp um tillögur nefndarinnar eða tillögur ráðherra sem koma fram í frv. Einnig segir, með leyfi forseta:

,,Það er okkur fulltrúum sveitarfélaganna í tekjustofnanefnd vonbrigði að ríkissjóður skuli ekki lækka hlutfall sitt í staðgreiðslunni á móti hækkun útsvarsins nema sem nemur þriðjungi hækkunar þess.``

Herra forseti. Hér held ég að sé mjög skýrt mælt og það sé ljóst að ef eitthvað gerðist á ráðstefnunni þá hafi sveitarstjórnarmenn ekki talið ástæðu til að bæta í þann málflutning sem fram var kominn því svo skýr var hann.