Efnahagsstefnan

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:09:07 (1584)

2000-11-13 15:09:07# 126. lþ. 23.1 fundur 105#B efnahagsstefnan# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vona svo sannarlega að hæstv. forsrh. hafi rétt fyrir sér með að við séum ekki að sigla inn í neina kreppu en í þjóðfélaginu eru mörg einkenni, rauð ljós sem blikka og forsrh. ætti að skoða það alvarlega. Það segir sína sögu að útlánaþenslan í bönkunum er gífurleg. Þar hafði orðið 27% aukning á 12 mánaða tímabili núna í september. Það er auðvitað alvarleg staða þegar hlutfall skulda heimilanna af ráðstöfunartekjum þeirra hækka samkvæmt áætlun Seðlabankans úr 147% um síðustu áramót í 163% um næstu áramót. Það er einmitt varað við því í skýrslu Seðlabankans að fram undan gætu verið vaxandi greiðsluerfiðleikar heimilanna. Ég bið hæstv. forsrh. því að setjast aðeins yfir þessi einkenni sem við sjáum alls staðar í þjóðfélaginu, öll nema hæstv. forsrh. og ríkisstjórnin, vegna þess að það er alvara á ferðum.