Sjúkraflug

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:27:19 (1598)

2000-11-13 15:27:19# 126. lþ. 23.1 fundur 108#B sjúkraflug# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:27]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. heilbrrh. varðandi sjúkraflug. Í hádegisfréttum útvarps í dag var greint frá hremmingum sem sjúklingar á Austurlandi höfðu átt í við að komast til fullkominnar læknishjálpar eftir slys. Í fréttinni var sagt, með leyfi hæstv. forseta:

,,Engir samningar eru í gildi um sjúkraflug á Austurlandi. Þetta hefur skapað mikla óvissu í sjúkraflugi fjórðungsins og kom það berlega í ljós á laugardagsmorgun þegar tveir slasaðir sjómenn þurftu að bíða á Egilsstöðum í þrjár klukkustundir. Ekki rætist úr fyrr en ákveðið hefur verið hvaða tilboði í sjúkraflug á landinu verður tekið.`` --- Það er dálítið langt fyrir þá menn að bíða eftir því.

Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ráðherra: Er það svo að engir samningar séu til og í gangi um sjúkraflug í landinu eða er þetta bara einsdæmi fyrir Austurland?

Í öðru lagi, ef svo er að þetta sé bara fyrir Austurland eða aðra landshluta mun þeim úrræðum þá verða beitt að koma á einhverju bráðabirgðaskipulagi þangað til hugsanlega verði búið að ganga frá samningum samkvæmt því útboði sem gert var á haustdögum og gæti komist í framkvæmd í byrjun næsta árs?