Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 19:09:27 (1659)

2000-11-13 19:09:27# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[19:09]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Við komum alltaf að kjarna málsins. Til þessa voru refirnir skornir. Það á að vísa þessari pólitísku ábyrgð á hendur einhverra annarra.

En ég árétta það og undirstrika og ég heyri að hæstv. ráðherra er mér sammála um það að verið er að leggja til að auka heildarskattbyrði á íbúa í landinu. Og forustumenn ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin fara fram með þá stefnumörkun. Það er því sem við erum andvíg.

Við samþykkjum það hins vegar, eins og hæstv. ríkisstjórn gerir í raun og sanni og kemst að sömu niðurstöðu og tekjustofnanefndin, að sveitarfélögin hafa þörf yfir þessa fjármuni, það sýna allar tölur, og þess vegna erum við að auka á heimildir þeim til handa. Að segja síðan í öðru orðinu að kannski noti þau þetta ekki er auðvitað aumur flótti frá raunveruleikanum og eins og ég sagði áðan verið að varpa hinni pólitísku ábyrgð á herðar einhverra allt annarra en sjálfs sín. Og það er ekkert mjög stórmannlegt í pólitík, það verð ég að segja, herra forseti.