Verkfall framhaldsskólakennara

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:20:57 (1950)

2000-11-20 15:20:57# 126. lþ. 27.91 fundur 123#B verkfall framhaldsskólakennara# (aths. um störf þingsins), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég get ekki á mér setið að koma upp öðru sinni og vekja athygli á því að það eru aðallega hæstv. ráðherrar sem stöðugt halda á lofti því sem þeir kalla 70% kjarakröfur framhaldsskólakennara. Mér er kunnugt um að innan samninganefndarinnar er ekkert verið að ræða á þeim nótum og í rauninni er eina tilboð um launahækkun sem komið hefur frá ríkinu er á sömu nótum og Flóabandalagið fékk. Ég veit ekki hvernig fólk metur það í dag eftir að allt það hefur gengið í gegn sem við höfum horft upp á hjá öðrum háskólamönnum, og auðvitað miða framhaldsskólakennarar sig við þá. Ég held að engum geti þótt það óeðlilegt.

Ég held að það sé rétt sem hér hefur komið áður, hér þarf að setja inn peninga. Það þarf að setja inn peninga til að launa framhaldsskólakennara þannig að þeir vilji gegna þessu starfi áfram. Annars eru þeir bara farnir og þá verða engir skólar reknir. Ég hef ekki séð glytta í þá peninga enn í þessum viðræðum og ég held að það hljóti að koma að því að það verði að fara að sýna þá en ég vil að það komi fram að ég tel að það verði mjög erfitt að ná niðurstöðu um miklar breytingar á vinnutíma á svo stuttum tíma sem hér er um að ræða. Ég mundi telja efnilegt að gerður yrði bráðabirgðakjarasamningur og sá tími svo notaður til að ræða breytingar á vinnutíma. Ég held að óásættanlegt sé að halda öllum kennurum og nemendum landsins utan skóla meðan slíkar viðræður fara fram því að þær geta dregist á langinn.