Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 17:24:24 (1972)

2000-11-20 17:24:24# 126. lþ. 27.5 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[17:24]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Landsfundur Sjálfstfl. er auðvitað ekki ómark, hv. þm. Hann gefur frá sér leiðbeiningar og vegvísa fyrir okkur sem erum kjörnir fulltrúar flokksins til þess að starfa eftir. Það er misjafnt í hve miklum mæli slík skilaboð eru skilgreind nákvæmlega eða á hve löngum tíma eigi að ná ákveðnum markmiðum. Okkur hefur tekist í ýmsum málum að ljúka þeim hratt. Annað er tímafrekara, tekur lengri tíma. Það þarf kannski að semja um það við fleiri eða þá að fjárhagur ríkissjóðs getur sett ýmsum góðum málum skorður.

Þessi sjö ára regla er auðvitað ekkert aðalatriði í þessu kerfi okkar. Hún var hugsuð þannig upphaflega að með því að setja hana inn í kerfið væri hægt að gera meira fyrir ákveðinn hóp. Það hefði verið hægt að sleppa sjö ára reglunni og gera bara jafnmikið fyrir þá sem áttu börn yngri en sjö ára og fyrir hina. Þá hefði ríkissjóður sparað sér peninga. En það var ákveðið að taka ákveðna upphæð og dreifa henni á þennan hóp.

Við vitum náttúrlega að unglingar geta verið dýrir í rekstri. Enginn ber á móti því. Eigi að síður hefur enginn stjórnmálaflokkur treyst sér til þess að leggja beinlínis til að afnema núverandi reglu um að foreldrar með börn yngri en sjö ára fái ákveðið álag á barnabæturnar. Ég man í það minnsta ekki eftir slíkri tillögu á undanförnum árum og hef nú fylgst með þessu nokkuð grannt nokkuð lengi.

Aðalatriðið er þó að hin vísindalega niðurstaða í þessu efni er ekki til. Hv. þm. tók undir það. En hér er komin niðurstaða sem ég held að við eigum sem flest að geta sætt okkur við þó allir vildu gjarnan hafa úr meiru að spila í þennan þátt eins og marga fleiri.