Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 14:00:38 (2004)

2000-11-21 14:00:38# 126. lþ. 28.4 fundur 214. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (stjórnarmenn o.fl.) frv., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[14:00]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún var skemmtileg og ágæt. Það er erfitt að búa í landi eins og Íslandi sem er til þess að gera stórt og fámennt en hefur þessa sterku höfuðborg sem við þekkjum. Þess vegna ræðum við landsbyggðarmenn um málefni okkar á pínulítið annan hátt en þeir sem búa í höfuðborginni og hafa kannski vart kynnst öðrum hluta af landinu.

Af því að við erum að tala um flutninga á landi langar mig að vekja athygli ráðherrans og þingmanna, herra forseti, á ákveðnu óréttlæti sem á sér stað. Ef ég bý í Vík í Mýrdal og panta vöru frá Danmörku, t.d. með Eimskip eða Samskip, læt flytja þessa vöru til Þorlákshafnar og síðan með bílum til Víkur borga þessi fyrirtæki ekki virðisaukaskatt af landflutningunum frá Þorlákshöfn til Víkur.

Hins vegar ef ég skipti við einyrkja sem er að gera út vöruflutningabíl þarf einyrkinn að borga virðisaukaskatt frá Þórlákshöfn til Víkur sem leggst síðan ofan á vöruverð. Ég er auðvitað ánægður með það að lögin séu þannig að ekki þurfi að leggja virðisaukaskattinn á ef flutt er með Eimskip eða Samskip. Hins vegar er þetta afar ósanngjarnt gagnvart einyrkjunum. Þetta er hlutur sem ég held að sé mjög nauðsynlegt að taka á þegar við erum að tala um flutningsjöfnun. Með þessum hætti erum við í raun og veru að leggja af þennan atvinnurekstur. Þingmenn skynja að það eru að verða býsna fáir einyrkjar eftir í þessum atvinnurekstri.

Við veltum því ekki alltaf fyrir okkur þegar við erum að tala um niðurgreiðslu á vörum, t.d. þegar við erum að kaupa mjólk sem hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði um að mætti hugsanlega vera á mismunandi verði í landinu sem er náttúrlega fáránlegt mál að því er mér finnst. Við megum ekki gleyma því að við kaupum enn þá sem betur fer bensín og olíu á sama verði alls staðar á landinu á sama hátt og þegar við förum í leikhús, förum í Þjóðleikhúsið, förum í Borgarleikhúsið eða á sinfóníuhljómleika, þá greiðir ríkið niður miðana fyrir okkur. Við skulum hafa þetta allt inni í þessum potti þegar við erum að ræða þessa hluti.

Eins og ég sagði í upphafi getur verið nokkuð flókið að búa á landi eins og Íslandi. Við viljum kappkosta að byggja allt landið eftir því sem við getum og því verðum við að grípa til aðgerða eins og þessara þó svo hv. þm. þyki það kannski súrt í broti. Auðvitað væri miklu einfaldara að setja alla á þetta svæði hérna og hafa síðan eyðibyggð vítt og breitt um landið. Það viljum við ekki og því þurfum við að grípa til aðgerða eins og þessara.