Verðbréfaviðskipti

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 15:46:17 (2018)

2000-11-21 15:46:17# 126. lþ. 28.5 fundur 233. mál: #A verðbréfaviðskipti# (útboð og innherjaviðskipti) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon komst á nokkurt flug hér undir lokin, kannski um málefni sem er ekki akkúrat á dagskrá en ég skil hins vegar ákaflega vel um hvað hann er að fjalla og get að mörgu leyti tekið undir margt af því sem kom fram í máli hans.

Ef ég reyni að bregðast við því sem komið hefur fram í seinni umferð umræðunnar þá var það í fyrsta lagi atriði sem kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að setja hlutabréfasjóðum fjárfestingarstefnu. Það er reyndar atriði sem ég hef látið koma fram opinberlega að þurfi að gera. En þetta varðar kannski ekki akkúrat það sem er hér til umfjöllunar en er engu að síður mikilvægt mál og ég held að nauðsynlegt sé að í nýjum lögum um verðbréfasjóði verði einnig tekið á hlutabréfasjóðunum.

Hv. þm. taldi að ástæða væri til þess að gera tilraun til að kortleggja óskráða markaðinn, óskráð bréf, gráa markaðinn. Ég vil segja í því sambandi að ég tel ekki að við getum fengið þær upplýsingar sem gerðu það að verkum að þetta yrði mögulegt. En það sem við leggjum hins vegar áherslu á er að við viljum efla skipulagða markaðinn og að hann sé sem virkastur. Hin viðskiptin eru einfaldlega ekki uppi á borðinu. Ég tel að þetta frv., ef það verður að lögum, sé liður í því að styrkja og efla skipulagða markaðinn.

Það sem hv. þm. gerði einnig athugasemdir við eða velti fyrir sér er ákvæði í 7. gr. frv. og varðar það að Fjármálaeftirlitið staðfesti reglur skv. 1. mgr. 37. gr. en ekki eins og hér kveður á um, með leyfi forseta:

,,Reglur skv. 1. mgr. skulu staðfestar af stjórn viðkomandi félags og sendar Fjármálaeftirlitinu og kauphöll eða skipulegum tilboðsmarkaði þar sem verðbréf félagsins eru skráð eða óskað hefur verið skráningar þeirra.``

Þetta er atriði sem ég tel að hv. nefnd geti alveg farið yfir eins og náttúrlega allt annað sem er í frv. en við setjum þetta fram svona.

Síðan er það í sambandi við verklagsreglur, að viðskipti starfsmanna með óskráð bréf eru óheimil. Það er eðlilegt og kemur fram í drögum Fjármálaeftirlitsins sem eru nú til umsagnar og eru á grundvelli laga sem sett voru á hv. Alþingi sl. vor. Hins vegar gengur ekki að stoppa markaðinn þannig að þessi ákvæði geta ekki að mínu mati gilt alfarið um markaðinn. En þetta er sem sagt sett fram á þennan hátt í frv. og ekki að ástæðulausu heldur að vel yfirveguðu ráði.

Hvað varðar ólögleg viðskipti, þ.e. hver beri ábyrgð í sambandi við ólögleg viðskipti, þá er það hvert fyrirtæki, samkvæmt því sem hér er lagt til, sem setur sér reglur og sérhver starfsmaður sem á í hlut ber ábyrgð. Ólögleg innherjaviðskipti eru saknæm. Ef um ólögleg viðskipti er að ræða fer málið til Fjármálaeftirlitsins, ef um brot er að ræða er málið sent ríkislögreglustjóra. Þannig er nú atburðarásin í þessu.

Hv. þm. setti út á orðið viðskiptalota. Það má velta því fyrir sér hvort annað betra orð finnst en skilgreiningin er á bls. 1 í frv.

Ég hef víst lokið tímanum sem ég hef til nota, ég lýk því máli mínu.