Ábyrgðarmenn

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 17:31:44 (2036)

2000-11-21 17:31:44# 126. lþ. 28.7 fundur 160. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[17:31]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég tek fyrst og fremst til máls til að lýsa yfir stuðningi við þetta mál sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson flytur nú í fjórða sinn. Ég tel að frv. sé mjög vandað og skynsemi í því að það er nú flutt þverpólitískt, þ.e. með stuðningi fulltrúa úr öllum flokkum. Það tel ég að ætti að tryggja framgang málsins. Hér er ætlunin einfaldlega að lögfesta vernd einstaklings gegn yfirburðastöðu lánveitanda við samningsgerð.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna í nokkur atriði úr grg. sem ég tel vera lykilatriði í málinu. Í frv. segir í grg., með leyfi forseta:

,,Hér á landi virðist hafa verið lögð ríkari áhersla á að þriðji maður ábyrgist efndir aðalskuldara en þekkist í nágrannalöndunum. Minni áhersla hefur verið lögð á að lánveitandi láti fara fram faglegt mat á greiðslugetu lántakenda ...``

Þetta er eitt af lykilatriðunum í þeirri kollsteypu sem orðið hefur hjá fjölmörgum heimilum vegna veittra ábyrgða. Í grg. segir jafnframt að róttækustu breytingarnar sem frv. felur í sér sé að finna í 4. gr. Þar er kveðið á um að ábyrgðarsamningar skuli vera skriflegir. Þetta er eitt af lykilatriðunum. Í framhaldi af því er kveðið á um að óheimilt sé að afhenda viðskiptabréf með ábyrgðarmönnum til að tryggja kröfu sem kann að stofnast til síðar. Sú regla sem var í gildi leiddi m.a. til notkun tryggingarvíxla sem voru í gangi og fjölmargir þekkja og er einstakt, séríslenskt fyrirbrigði. Þetta hefur leitt til þess, eins og ég sagði áðan, að ábyrgðarmenn hafa misst heimili sín, fjárhagslegum stoðum hefur verið kippt undan heimilunum og félagslegu öryggi án þess að ábyrgðarmenn hafi á nokkurn hátt haft hagsmuni af samningum.

Ég velti fyrir mér, sem ég hef áður gert: Hver er ábyrgð bankanna? Það er ótrúlegt að bankar á Íslandi skuli til skamms tíma hafa látið það nægja að finna einstakling til að skrifa upp á lán og þá hafi nærri því hver sem er getað fengið fjármuni. Ég tel að í þessu frv. og þeim lögum sem ég vænti að verði sett felist að bankarnir séu skyldugir til að veita ábyrgðarmönnum upplýsingar þannig að þeim sé áhættan ljós.

Síðan vil ég benda á annað. Ég tel að bankakerfið þurfi að líta til þess að veita lán gegn sjálfsábyrgðum einstaklinga, grundvölluð á tekjum einstaklingsins. Nákvæmlega það hefur verið gert í langan tíma í lánastofnunum erlendis. Þar hefur einstaklingurinn getað fengið fyrirgreiðslu og lán út á eigin tekjur og út á þann grundvöll sem hann leggur fyrir bankana án þess að leggja neinn ábyrgðarmann fram. Hins vegar getur komið upp sú staða að við ákveðnar aðstæður þurfi að setja fram kröfu um ábyrgð.

Herra forseti. Ég tel góð rök og veigamikil fyrir því að þetta mál verði afgreitt nú fyrir áramót. Ég vil þar með taka undir með öðrum hv. þm. sem hér hafa talað. Ég hef áður tjáð mig um þetta mál og önnur sem hafa gengið á sama veg og vísa til þess sem skráð er í þingtíðindi þar að lútandi.

Það mætti hafa mörg orð um það sem er ábótavant í fjármálakerfi okkar Íslendinga. Ég get ekki látið hjá líða að nefna eitt atriði, verðtryggingar sem tíðkast hér á landi í meiri mæli en annars staðar. Þetta er sérstakt tæki í efnhagskerfi Íslendinga sem ekki þekkist annars staðar. Ég veit ekki hvort menn hafa velt því fyrir sér að ef til þess kæmi að evran yrði aðalgjaldmiðill íslensku þjóðarinnar þá féllu brott ákvæði um verðtryggingar sem hafa óspart verið notuð hér.

Ég veit ekki hvort fólk hefur velt því fyrir sér að lán hjá Íbúðalánasjóði eða Húsnæðisstofnun frá árinu 1988, þægileg lán sem þá voru veitt upp á 1.200 þús. kr., það er lán sem ég þekki mætavel til, stendur núna í --- hér er um eðlilegt lán að ræða --- 2,5 milljónum. Það var tæpar 1.200 þús. kr. þegar það er tekið, það hefur alltaf verið greitt af þessu láni, allir vextir og allt saman og aldrei verið vanskil. En ef sama upphæð hefði verið lögð inn í banka, alveg sama hvaða banka, alveg sama hvaða ávöxtunarkerfi hefði verið notað sem boðið er, þá væri sú upphæð ekki nema í kringum 500 þús. kr. hærri en grunnupphæðin var árið 1988. Bankalánið sem borgað hefur verið af á hverju einasta ári, svo tugum þúsunda kr. skiptir er komið upp í 2,6 milljónir.

Ég held, herra forseti, að ástæða sé til að þessi stofnun og íslenska fjármála- og efnahagskerfið skoði hvaða einstaklingar hafa þurft að bera þær byrðar sem hljótast af þeim verðtryggingum sem um ræðir.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara lengra í umræðum um þau mál í tengslum við þetta frv. Það væri hægt að hafa langt mál þar um en eins og ég sagði í upphafi kom ég fyrst og fremst til að lýsa enn og aftur yfir stuðningi við þetta mál. Ég tel að það sé enn betur fram sett og vandaðra en í upphafi. Ég vil að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson njóti hróss fyrir vinnu sína í þessu máli.