Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 18:58:54 (2047)

2000-11-21 18:58:54# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[18:58]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Þegar fjármagnstekjuskattanefnd skilaði niðurstöðum sínum gerði hún ráð fyrir því að fjármagnstekjur yrðu alls staðar 10% án undantekninga. Þetta yrði sem sagt einn skattstofn án undantekninga. Í meðförum hv. efh.- og viðskn. voru sett mörk á söluhagnað hlutabréfa einna, 3 millj. fyrir einstakling og 6 millj. fyrir hjón, og um leið var gefinn möguleiki á að fresta greiðslu skatttekna, þ.e. venjulegs tekjuskatts á afganginn, ef hann yrði notaður til að fjárfesta í hlutabréfum innan tveggja ára. Þetta var ákveðinn stílbrjótur. Ég man eftir því að ég benti á það aftur og aftur á þeim tíma að þetta væri stílbrjótur, en þetta var niðurstaðan. Ég held að fólk hafi verið að horfa til þess dæmis sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi í umræðunni í gær um einhvern sem keypti hlutafé fyrir 2 millj. og seldi þau fyrir 100 millj. að ekki löngum tíma liðnum og græddi sem sagt 98 millj. Þetta þótti hv. þm. Ögmundi Jónassyni afskaplega mikið og sá ofsjónum yfir þessu og þetta er sennilega það dæmi sem menn hafa haft í huga þegar þeir settu þessi mörk.

[19:00]

Ef hv. þm. Ögmundur Jónasson gæti tryggt mér þessa ávísun mundi ég rjúka til strax á morgun og sennilega allir landsmenn með mér og við yrðum öll afskaplega rík. Það sem vantar oft inn í slíkt dæmi er að það er óskapleg áhætta að ætla sér að græða svona mikið á stuttum tíma og flestir, velflestir, 99%, tapa illilega og þeir geta ekkert gert við það tap. Það kemur skattinum ekkert við. Þess vegna er fjármagnstekjuskatturinn ekki nema 10% vegna þess að hann tekur mið af þeirri áhættu sem felst í því að kaupa og selja hlutabréf.

Herra forseti. Þessi lög frá 1996 hafa breytt afskaplega miklu. Þau hafa leitt til þess að fjölskyldufyrirtæki hafa verið seld, lítil fyrirtæki hafa verið seld og stór fyrirtæki hafa verið seld sem ekki hefði verið mögulegt ella. Menn eru bara ekki tilbúnir til að selja eignir sínar þannig, að stór hluti af söluverðinu sé hagnaður sem lendir í 47% skatti eins og það var, núna 45%. Menn eru bara ekki tilbúnir til að borga til ríkisins helminginn af eignum sínum. Þess vegna selja þeir ekki neitt og halda áfram að hokra á eignum sínum öllum til armæðu, sérstaklega þjóðfélaginu. Vegna þess að það vill svo til að menn selja af því að einhver annar aðili telur sig geta rekið fyrirtækið betur og gerir það yfirleitt alltaf. Þess vegna er svona breyting sem veldur því að eignir fara að verða liprari í sölu og ganga kaupum og sölum til þess að örva atvinnulífið, bæta arðsemi í þjóðfélaginu, af hinu góða. Það er hin góða niðurstaða af frv.

Gallinn er sá að þessi stílbrjótur sem ég gat um áðan hefur gert það að verkum að menn borga í rauninni hámarksfjármagnstekjuskatt af söluhagnaði, þ.e. 300 þús. kr. hjá einstakling og 600 þús. kr. hjá hjónum vegna þess að skattgreiðandinn er nefnilega, herra forseti, afskaplega skynsamur. Hann er ekki svona vitlaus eins og menn halda. Ef hann á að fara að borga helminginn af því sem er umfram 6 millj. þá sér hann til þess að fjárfesta í hlutabréfum, annaðhvort í fyrirtæki sem hann stofnar sjálfur eða þá í öðrum hlutabréfum þannig að hann þurfi ekki að borga nær 50% skatt af hagnaðinum. Hann langar nefnilega ekkert til þess utan einn og einn maður sem vill komast í blöðin.

Ég nefndi í gær dæmi um verkstæði sem gamall maður rak og gat ekki selt fyrir upptöku fjármagnstekjuskattsins. Ég geri ráð fyrir að hann sé búinn að selja núna og það er hið besta mál þannig að þetta hefur valdið því að menn eru tilbúnir til að selja.

En það sem þarf að skoða í þessu dæmi er að þegar menn fóru að skoða leiðir til að komast undan þessari miklu skattlagningu þá fóru þeir að sjálfsögðu að rannsaka ýmislegt fleira og þeir komust að því að þeir gátu í fyrsta lagi stofnað hlutafélag sjálfir um sína eign og komist þannig hjá skattlagningu og svo datt einhverjum snjöllum manni í hug að skoða pínulítið lengra, því það er svo leiðinlegur eignarskattur á Íslandi, og kíkja til útlanda og sérstaklega það að selja hlutabréf með háu gengi, segjum 200, vegna þess að það er enn einn stílbrjótur í skattalögunum að hlutafé er talið á nafnvirði, ekki á eigið fé viðkomandi fyrirtækis heldur á nafnvirði, sem gerir það að verkum að ef maður kaupir á genginu 100, fyrir 100 millj., þá á maður allt í einu bara 1 millj. í augum skattsins en ekki 100 millj. eins og áður og losnar þannig við eignarskatt sem sumum þykir afskaplega leiðinlegt að borga af því að þeir eru búnir að borga tekjuskatt af öllum tekjununum sem mynduðu eignirnar. Menn komust allt í einu að því að úti í heimi borga hlutafélög ekki eignarskatt og þá var mjög snjallt að fara með eignina þangað og jafnvel fjárfesta þaðan á Íslandi. Svona hafa rannsóknirnar sem þetta ákvæði leiddi til leitt til þess að menn fóru til útlanda og eru orðnir miklu fróðari um skattkerfi annarra landa.

Það voru sem sagt mistök, herra forseti, að taka upp þá reglu, en nú er verið að falla frá henni sem er gott.

En ég vil benda á annað atriði í þessu sambandi sem hv. efh.- og viðskn. þarf að skoða og það er það fyrirbæri sem við upplifum í dag hjá ungum fyrirtækjum, nýsköpunarfyrirtækjum sem blómstra, fyrirtækjum sem eru í hugbúnaði alls konar. Þetta er oft ungt fólk sem er mjög bjartsýnt og mjög snjallt og er að hasla sér völl í hugbúnaði. Þar eru menn að kaupa og selja hlutabréf gegn hlutabréfum. Ég á t.d. fyrirtæki sem ég hef stofnað og einhver annar á annað fyrirtæki og svo skiptumst við á hlutabréfum. En þá allt í einu myndast söluhagnaður á hlutabréfum. Þau eru hugsanlega hærra metin í þessum viðskiptum, jafnvel á genginu 10 eða 20. Menn eru bjartsýnir. Þó er enginn hagnaður neins staðar og enginn peningur. Þetta er vandamálið. Hvernig fara menn að borga eftir þessari nýju reglu þar sem þeir sjá engan pening? Þetta þarf hv. efh.- og viðskn. að taka fyrir vegna þess að í starfi nefndarinnar, fjármagnstekjuskattsnefndarinnar var haft að leiðarljósi að menn borguðu ekki skatt nema þeir hefðu pening til að borga skattinn. Ekki er borgaður skattur af áföllnum vöxtum t.d.

Herra forseti. Ég gat í umræðunni í gær um annað frv. svipaðs eðlis vegna þeirrar umræðu um tekjuskatt á laun og síðan fjármagnstekjuskatt að 10% þykir mörgum mönnum lágt miðað við tekjuskattinn. En það vill svo til að landsmenn borga að meðaltali 20% tekjuskatt vegna frítekjumarksins og vegna alls konar bóta sem eru í kerfinu. Að meðaltali væri því hægt að hafa flatan tekjuskatt upp á 20% ef vaxtabætur og sjómannaafsláttur og sitthvað fleira yrði fellt niður, en barnabætur héldu sér. Við erum þá að tala um að fjármagnstekjuskatturinn sé helmingurinn af meðaltekjuskatti. Ég hef getið um það áður að inni í vöxtum er verðbótaþáttur sem er náttúrlega engar tekjur og sennilega er verðbótaþátturinn að meðaltali núna jafnhár vöxtunum þannig að fólk hefur engar tekjur af innstæðum í bönkum í dag, enga raunvexti að meðaltali.

Í arði og söluhagnaði er áhætta eins og dæmið um 2 millj. sem urðu að 100 millj. er dæmi um. Ef menn ætla að vera rökréttir, sanngjarnir og réttlátir, þá verða þeir að sjálfsögðu að leyfa frádrátt frá tekjum vegna taps af sölu hlutabréfa. Öll gjaldþrotin sem verða eiga menn að geta dregið frá tekjuskatti ef menn ætla að vera sanngjarnir og sjálfum sér samkvæmir.

Í sambandi við leigutekjur þyrfti að taka inn kostnaðinn sem ekki er leyft í dag þannig að ég er hræddur um að ef menn færu þessa leið, þá mundu tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjum lækka umtalsvert frá því sem nú er.

Herra forseti. Ísland er ekkert eyland lengur þó að það sé eyja. Vegna mikilla samskipta við útlönd erum við komin í hörkusamkeppni við önnur lönd eins og dæmið sýnir sem er hvatinn að þessu frv. sem við ræðum hér, þ.e. flótti fjármagns til útlanda. Þegar hv. efh.- og viðskn. skilaði áliti 1996 þá sagði þar, með leyfi herra forseta:

,,Sú aðgerð, sem frumvörpin mæla fyrir um, er liður í samræmingu skattlagningar á eignir og eignatekjur. Meiri hluti nefndarinnar minnir á yfirlýsingu ráðherra um að þeim tekjuauka, sem fellur til við samþykkt frumvarpsins, skuli ráðstafa til lækkunar á öðrum sköttum. Hlýtur þá lækkun eignarskatts að koma sérstaklega til greina enda slíkt í samræmi við tilgang frumvarpsins um samræmingu skattlagningar á eignir og eignatekjur.``

Herra forseti. Mig langar til að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh. hvort hann sé ekki tilbúinn að taka undir eftirfarandi ummæli forvera síns í starfi. En hæstv. fjmrh. þess tíma, Friðrik Sophusson, sagði svo þann 16. apríl 1996, með leyfi forseta:

,,Um eignarskattinn vil ég einungis segja að ekki liggja fyrir neinar tillögur en skoðun mín er sú að þegar fjármagnstekjuskattur sé lagður á þá þurfi í framtíðinni að lækka eignarskattinn og breikka stofninn. Það sé eðlileg afleiðing af því starfi sem hér hefur átt sér stað.``

Þarna lýsti hæstv. fjmrh. yfir þeirri skoðun sinni að lækka þyrfti eignarskatt sem nemur tekjuauka ríkissjóðs af fjármagnstekjusköttum. Nú hafa fjármagnstekjuskattar vaxið óskaplega mikið þrátt fyrir þessa ,,skammarlega`` lágu prósentu sem sumir eru að gagnrýna sem er 10%. Tekjur ríkissjóðs hafa vaxið mikið af fjármagnstekjum og hann getur þá gert enn meira í velferðarkerfinu sem ég held að sé hið besta mál.

En þá er að spyrja um eignarskattana. Hér hefur hæstv. fyrrv. fjmrh., Friðrik Sophusson, sagt að það sé skoðun hans að þá eigi að lækka og breikka stofninn. Nú er það þannig með eignarskatt að hann er sennilega einn af fáum sköttum sem hægt er að lækka án þess að valda þenslu. Af hverju? Vegna þess að þeir sem borga eignarskatta er fólk sem á eignir, sem er vant því að spara og stendur ekki í bruðli og sóun. Það fólk mun væntanlega ekki eyða þessum peningum til að kaupa sér jeppa með lánum eða eitthvað slíkt, heldur mun það hreinlega leggja þessa peninga fyrir þannig að mjög líklega mun lækkun eignarskatta ekki valda þenslu og það sem meira er, það mun hvetja menn til sparnaðar vegna þess að ef einhverjum manni verður sú ólukka á að spara meira en milljón umfram fríeignarmörk, þá er hann orðinn fastur áskrifandi að eignarskatti upp á 14.500 kr. árlega úr því, og sumir nenna bara ekki að borga það og þeir hætta að spara og kaupa sér jeppa fyrir milljónina. Það er nefnilega þannig að eignarskattur er refsing á sparnað. Mönnum er refsað fyrir að spara. Og þess vegna er mjög skynsamlegt að fella niður eignarskatta vilji menn yfirleitt örva sparnað sem slær á þensluna sem er í þjóðfélaginu í dag.

Þess vegna, herra forseti, skora ég á hæstv. fjmrh. að vinna nú í anda forvera síns og lækka eignarskatta og breikka stofninn þannig að fólk geti farið að spara í friði fyrir ríkinu.