Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 22:57:01 (2092)

2000-11-21 22:57:01# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[22:57]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur verið rætt ansi mikið og ljóst að um það verður ekki eindregin samstaða í þinginu og er kannski enginn sem ætlast til þess. Ég sit í hv. félmn. og mun að sjálfsögðu eiga kost á því að ræða þetta mál þar. Ég vil samt sem áður tæpa á nokkrum atriðum í þessu sambandi.

Sem gamall sveitarstjórnarmaður og áhugamaður um að styrkja stöðu sveitarfélaganna og sveitarstjórnarstigsins hef ég alla tíð litið svo á að eitt af þeim málum sem hentuðu fyrir sveitarfélögin væru málefni fatlaðra.

Það kemur verulega á óvart, og ég held að það sé rétt sem kemur hér fram frá ýmsum ræðumönnum, að sveitarfélögin eru að breyta um skoðun. Ekki endilega að þau vilji ekki fá þetta strax heldur að þau vilja fá þetta seinna. Þau vilja fá að skoða ýmsa þætti sem snúa að þessum flutningi sérstaklega fjármál.

Ég held að það verði samt að taka þessu öllu með fyrirvara af hálfu sveitarfélaganna og samtaka fatlaðra. Röksemdir þeirra eru fyrst og fremst þær að það vanti fjármuni. Ef maður lítur á það sem fylgir með þessu frv. og er fylgiskjal sem er úttekt fjmrn. þá munu fylgja þessu verkefni 4,4 milljarðar. Eins og staðan er í dag og núverandi kostnaður ríkisins af kerfinu eru það 3,6 milljarðar sem fara af hálfu ríkisins til þessa málaflokks. Það er því greinilega verið að auka mjög þá fjármuni sem ættu að vera í þessu kerfi ef það færi til sveitarfélaganna. Þar á meðal í alls konar þætti sem ég sé í frv. að ýmsir nefndarmenn hafa haft áhyggjur af að yrðu ekki inni í dæminu og kemur fram í bókun frá Jóni Björnssyni, sem var fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, og undirritaði þetta allt saman með miklum fyrirvörum og telur upp á annan tug atriða sem hann telur að séu aukin verkefni sveitarfélaga sem eigi eftir að gera ráð fyrir að kosti einhverja peninga.

Ég get ekki séð að því hafi verið gleymt en hef ástæðu til að ætla að við munum fara yfir það í félmn. að öll þau atriði sem þarna eru talin upp verði skoðuð með tilliti til þess að þeim kostnaði sé mætt sem þeim auknu skyldum fylgir.

[23:00]

Ég held, herra forseti, að ótti sveitarfélaga og samtaka fatlaðra við að kostnaðarþáttur frv. sé ekki rétt metinn sé ástæðulaus. Alla vega hafa ekki komið fram rök sem benda til þess. Við þessa umræðu hafa engin rök komið beinlínis út af fjárhagslega þættinum.

Ég get út af fyrir sig tekið undir ýmislegt af því sem fram hefur komið um smæð sveitarfélaga. Það hefur lengi verið áhugamál sveitarstjórnarmanna að stækka sveitarfélögin og fækka hinum smærri einingum sem eru ákveðið vandamál þegar kemur að flutningi eins og þeim sem hér er til umræðu. Ég sé að í 7. gr. frv. er fjallað um samvinnu sveitarfélaga og þar segir, með leyfi forseta:

,,Þar sem markmiðum laga þessara verður ekki náð á annan hátt skulu sveitarfélög sameinast um þjónustuna.``

Spurningin er: Hvað þýðir þetta, hvernig sameinast þau um þjónustuna? Eiga þau að sameinast eða gera samning sín á milli og hvernig?

Við vitum að sameining sveitarfélaga hefur gengið afskaplega illa. Samfara sameiningunni hafa komið í ljós ýmsir agnúar á fjármálum. Ef ég man rétt hafa sveitarfélögin á Norðurlandi, þ.e. í Eyjafirði og sveitunum þar í kring, reiknað út að þau muni tapa hátt í 100 millj. kr. á því að sameinast. Það er náttúrlega mjög slæmt. Ég lít svo á að skoða þurfi sérstaklega reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í þessu ljósi, þannig að sameining sveitarfélaganna geti farið af stað að nýju. Takist það held ég að við ættum ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að sveitarfélögin sameinist ekki, eins og stefnt hefur verið að af hálfu hæstv. félmrh. og stjórnvalda á undanförnum árum.

Ég vil segja, herra forseti, að þó að hægt sé að setja einhverja fyrirvara við að þessi flutningur geti orðið af hálfu ýmissa aðila þá er verkefni félmn. að eyða þeirri vantrú sem kann að vera komin upp og hafa samband og samráð við alla þá aðila þannig að málefnið fái þann framgang sem ætlast er til. Ég held að það verði auðvelt. Ég trúi ekki öðru en að sveitarfélögin muni standa að þessu og samtök fatlaðra, sem áttu upphafið að þessu, muni gera það einnig.

Það er alltaf spurning um hvenær gildistakan á að verða. Gildistaka á kosningaári hjá sveitarfélögunum er að sjálfsögðu viðkvæm en það eru nú kosningar á fjögurra ára fresti og spurning hvenær hægt er að gera þetta án þess að það stangist á við kosningar einhvers staðar. Kosningar til Alþingis eru árið 2003 o.s.frv. Ég held samt að þetta sé eitt af þeim málum sem félmn. þarf að skoða, þ.e. hvort gildistökunni verði eitthvað hnikað. Ég ætla ekki að leggja það til en veit að í félmn. verða allir hlutir skoðaðir í nánu samráði við hæstv. félmrh. Ég hef ekki reynt hann að öðru en að gera þessi frv. þannig úr garði að sem mest sátt geti verið um þau.