Málefni innflytjenda

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:39:24 (2154)

2000-11-22 14:39:24# 126. lþ. 30.5 fundur 211. mál: #A málefni innflytjenda# (fsp. til menntmrh.) fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:39]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Eins og gefur að skilja eru vaxandi umræður um þessi mál í þjóðfélagi okkar vegna þeirra breytinga sem eru að gerast og eru mjög örar. Haldið var málræktarþing fyrir tíu dögum sérstaklega um þetta mál þar sem litið var til íslensku sem annars tungumáls og farið ítarlega yfir ýmsa þætti þessa máls og þar komu fram miklu fyllri upplýsingar en ég get gefið í þessu stutta svari mínu. En ég fullvissa hv. fyrirspyrjanda um að það eru margir sem huga að úrræðum í skólakerfinu og annars staðar til að bregðast við óskum þeirra sem vilja tileinka sér íslensku. Einnig vil ég ítreka það sem ég sagði á málræktarþinginu, að ég tel að líta þurfi til fleiri þátta en skólanna í þessu efni. Það þurfi að móta heildstæðari stefnu varðandi þetta af hálfu Alþingis og stjórnvalda og menn þurfi að ræða þetta mál í stærra samhengi en við höfum tök á að gera á þessari stundu.

Fyrri spurningin er: Hvað hefur menntmrn. gert og hvað er á döfinni til að tryggja að innflytjendur, bæði fullorðnir og börn, fái lögbundna kennslu í íslensku?

Í lögum um grunnskóla, nr. 66/1995, eru ákvæði um sérstaka íslenskukennslu fyrir nemendur sem hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli og í reglugerð nr. 391/1996, um íslenskukennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku, er nánar kveðið á um sérstaka kennslu í íslensku fyrir þessa nemendur. Í reglugerðinni kemur einnig fram að menntmrh. skuli setja íslenskunáminu markmið í aðalnámskrá grunnskóla og hver nemandi með annað tungumál en íslensku fái tvær stundir í viku í sérstakri íslenskukennslu á meðan hann er að ná tökum á íslensku máli.

Í lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996, eru einnig ákvæði um að nemendur með annað tungumál en íslensku eigi rétt á sérstakri kennslu í íslensku og í reglugerð nr. 29/1997 eru nánari ákvæði um þessa sérstöku íslenskukennslu. Þar segir m.a. að í aðalnámskrá framhaldsskóla skuli gera grein fyrir markmiðum og skipulagi kennslunnar. Ekki er að finna í lögum og reglugerðum fyrirmæli um að fullorðnir með annað tungumál en íslensku og með fasta búsetu hérlendis eigi rétt á sérstakri íslenskukennslu umfram það sem segir í lögum um framhaldsskóla.

Í samræmi við þessi lög og reglugerðir eru fyrirmæli um sérstaka íslenskukennslu fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku, bæði í námskrá fyrir grunnskóla og framhaldsskóla. Í aðalnámskrá grunnskóla sem tók gildi 1999 með þriggja ára aðlögunartíma er í fyrsta sinn sett ákvæði um sérstaka íslenskukennslu fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Íslenska sem annað tungumál er námsgrein fyrir nemendur sem hafa ekki nægilegt vald á íslensku til að geta stundað nám í íslenskum skólum til jafns við aðra nemendur. Í aðalnámskrá framhaldsskóla sem tók gildi 1999 með fimm ára aðlögunartíma er einnig í fyrsta sinn sérstök námskrá í íslensku fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku.

Menntmrn. væntir þess að með framkvæmd nýrra námskráa, bæði í grunn- og framhaldsskóla, verði komið til móts við þarfir nemenda með annað móðurmál en íslensku og að undanförnu hefur ráðuneytið veitt þeim aðilum styrki sem halda námskeið í íslensku fyrir fullorðna nýbúa. Hér er aðallega um að ræða Námsflokka Reykjavíkur og símenntunarmiðstöðvar sem starfræktar eru í öllum landshlutum. Gera má ráð fyrir að þessar styrkveitingar nemi alls um 20 millj. kr. á þessu ári.

Síðan er spurt: Á hvern hátt eru kennarar búnir undir að mennta börn og unglinga sem hafa annað móðurmál en íslensku?

Í kennaramenntun fyrir bæði fyrir grunn- og framhaldsskóla hefur ekki verið boðið upp á sérstök námskeið í íslenskukennslu fyrir nemendur með annað tungumál en íslensku, en kennaranemar hafa fengið nokkra fræðslu um þennan hóp. Hins vegar hafa verið haldin endurmenntunarnámskeið fyrir kennara sem fást við þessa kennslu, bæði á vegum Símenntunarstofnunar Kennaraháskóla Íslands og Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands.

Þá hefur menntmrn. fyrir fáeinum dögum gefið út sérstakar kennsluleiðbeiningar í íslensku fyrir þá sem hafa annað móðurmál en íslensku. ,,Íslenska sem annað mál fyrir fullorðna`` heita þessar leiðbeiningar og þær eru ætlaðar þeim kennurum sem kenna fullorðnum nýbúum íslensku.

Þá hefur einnig á vegum ráðuneytisins verið lagður grunnur að frekara starfi á þessu sviði og ég hef lagt á ráðin um það innan ráðuneytisins að það styrki hlutverk sitt að þessum verkefnum því að hér er, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi og ég sagði í upphafi máls míns, um brýnt verkefni að ræða sem ekki má víkjast undan.