Arkitektanám á Íslandi

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:43:58 (2211)

2000-11-27 15:43:58# 126. lþ. 32.1 fundur 142#B arkitektanám á Íslandi# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. svörin svo langt sem þau ná, en ég hef ekki enn þá fengið svar við því hver sé stefna menntmrn. í þessum efnum vegna þess að það hlýtur að vega þungt eftir þá skoðun sem hefur farið fram eftir að nefnd sem starfaði á vegum menntmrn. skilaði áliti. Í rauninni liggja fyrir allar forsendur í málinu. Óskir þeirra sem starfa í faginu liggja fyrir og þá hlýtur stefna menntmrn. að vega þungt hver og að einhverju leyti hlýtur menntmrn. að bera ábyrgð á því hvernig fari fyrir þessu námi en að það snúist ekki um samkeppni á milli þessara tveggja skóla hvernig þeir nýta fjármagn sitt. Þeim er fengið ákveðið hlutverk og ef óskað er eftir því að ákveðinni deild sé bætt við þá hlýtur að fylgja því einhver nánari stefna frá menntmrn. um hvernig að því skuli staðið.

Ég hef ekki enn fengið það fram hjá hæstv. ráðherra og ef hann ekki getur útskýrt það betur fyrir mér verð ég að skilja það svo að menntmrn. sé í raun og veru stefnulaust í málinu.