Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 16:29:50 (2217)

2000-11-27 16:29:50# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[16:29]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Villan er þeim mun alvarlegri ef hv. þm. hefur haft það fyrir atvinnu að kenna börnum reikning. Það er mjög slæmt ef menn eru ekki alveg vissir í litlu margföldunartöflunni. Menn geta lengi komist af án ýmiss annars fróðleiks. (Gripið fram í.) Ef menn vilja halda áfram þessum leik, þá er það allt í lagi en í áætluninni var munurinn 1% og það er alvarlegt. Það er vont ef við getum ekki áætlað þetta nákvæmlega. En það er bara svo í frjálsum þjóðfélögum að ég ætla að áætlanir sem gerðar eru um þróun þjóðarbúskapar víða um heim séu ekki nákvæmari. Ég ætla að svo sé og þó að þjóðhagsáætlun áætli 3% og reyndin verði 4%, ég held að þessi 1% munur sé mjög algengur meðal þjóða heimsins. Því miður hafa menn ekki nákvæmari upplýsingaöflun en þetta. Þannig eru þessi mál og því best þegar menn gera grein fyrir stöðu ríkissjóðs og ríkisfjármálanna að við skulum ætla okkur þetta. Við erum með slík frávik og verðum að lifa við það. Við skulum ekki magna það upp með einhverjum krúsindúllum um það að 1% séu 33,3%. Það mundi rugla öll börnin í barnaskólunum sem eiga að læra prósentureikning ef við förum svona með tölurnar.

Hins vegar er það alveg rétt sem þingmaðurinn sagði. Við deilum áhyggjum af því að fjárlögin séu ekki virt og ástæða til þess að ítreka það aftur og aftur. Því miður hefur þingnefnd ekki annað vald en það að koma þeim ábendingum á framfæri og það er ágætt ef bæði þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu sameinast í því að gera það.