Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 17:04:44 (2226)

2000-11-27 17:04:44# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[17:04]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og komið hefur skýrt fram í umræðum er gagnrýni hv. þm. byggð á misskilningi og gott að búið er að koma því til skila. Hins vegar skal ég taka undir það sem hann sagði í ræðu sinni, að ástæða er til að hafa áhyggjur af vaxandi rekstrarkostnaði ríkisins. Það er alltaf ástæða til þess, t.d. í utanríkisþjónustunni og ýmsu fleiru. Það er mikil ástæða til þess. Ég skal líka taka undir gagnrýni hans á embætti forseta Íslands. Þetta er mjög alvarlegt. En við höfum engin vopn, eins og ég hef áður sagt í dag, við höfum engin tækifæri. Við höfum bara þá einu von og við deilum því saman, bæði stjórn og stjórnarandstaða, að forustumenn þessara æðstu embætta ríkisins, þ.e. í þessu tilfelli þjóðhöfðinginn sjálfur, sjái til þess að svona lagað gerist ekki því að vansi er af því. Þetta á að vera rétt, það er alveg rétt hjá hv. þm., en við höfum engin ráð til þess, hvorki meiri hluti fjárln. né minni hlutinn. Við höfum reynt af fremsta megni að koma þeim skilaboðum til allra aðila, allra forstöðumanna opinberra fyrirtækja, að sú regla yrði að vera við lýði og menn yrðu að virða hana, að fjárlögin giltu. Þetta er sú messa sem við höfum reynt að halda og munum reyna að halda áfram að boða. Það er því rétt að mjög mikilvægt er að æðstu embætti þjóðarinnar virði þetta í hvívetna.