Málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 13:47:45 (2262)

2000-11-28 13:47:45# 126. lþ. 33.94 fundur 146#B málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[13:47]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Lokun framhaldsskólans hefur nú staðið í þrjár vikur. Daglegt líf tæplega tuttugu þúsund ungmenna hefur verið sett úr skorðum. Þetta er blómi Íslands en aldurinn 16--20 ára er mikilvægt mótunarskeið og þá er álag umhverfisins mest. Hátt brottfall í framhaldsskólum við eðlilegt skólahald er um 40%. Við röskun á skólagöngu og fjölskylduhögum fólks á þessum aldri eru auknar líkur til að fleiri finni fyrir tilgangsleysi og sé hættara við að lenda í fíkniefnum eða öðrum brotlendingum.

Nemendur halda ekki lengi út í sjálfsnámi. Flestir bíða og vita ekki hvort á að læra eða leita að vinnu. Það má vel vera að hér á höfuðborgarsvæðinu finnist tímabundin atvinna fyrir þorra unglinga en víða um land er atvinnulífið í lægð um hávetrartímann og því enga atvinnu að fá. Þetta ástand þrúgar daglegt líf þessarar einstaklinga og fjölskyldunnar allrar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Það er því eðlilegt að spyrja: Eiga þeir nemendur sem ekki eiga möguleika á að fá vinnu rétt á atvinnuleysisbótum? Og ef þeir eiga ekki þann rétt nú, hvenær fá þeir hann?

Í öðru lagi: Hvaða fjárhagsbótum geta nemendur og fjölskyldur þeirra átt von á ef verkfallið dregst enn? Fá þau endurgreidd skólagjöld? Fá þau endurgreidda fyrir fram greidda húsaleigu eða mötuneytiskostnað á heimavistum?

Herra forseti. Nemendur standa frammi fyrir spurningunni: Hvað eigum við að gera? Þeir þurfa að fá svör. Nemendur og fjölskyldur þeirra verða að fá svör til að geta ákveðið hvaða skref þau taka á næstu dögum. Stendur verkfallið í mánuð, þrjá mánuði eða hvað? Svör verða að fást svo þau viti hvaða möguleikum þau standa frammi fyrir þegar þau taka ákvörðun. Við stöndum frammi fyrir alvarlegu ástandi.