Málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 13:50:00 (2263)

2000-11-28 13:50:00# 126. lþ. 33.94 fundur 146#B málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Verkfall kennara í framhaldsskólunum hefur nú staðið í þrjár vikur. Tæplega tuttugu þúsund nemenda og fjölskyldur þeirra bíða þess að málin leysist og skólarnir taki til starfa á ný. Ábyrgð deiluaðila er þung gagnvart þessu unga fólki. Það er enginn ágreiningur um að kjör kennara þarf að bæta. Til að það takist verða menn að koma sér upp úr hjólförunum, kasta burt úreltu og stöðnu launakerfi sem þrengir að starfsemi framhaldsskólanna og ræða nýjar leiðir. Við þurfum sveigjanlegt og opið launakerfi sem hentar þörfum framhaldsskólanna og styrkir skólastarfið í landinu.

Herra forseti. Eitt er a.m.k. alveg víst: Þessi alvarlega deila verður ekki leyst hér í sölum Alþingis.