Málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 13:57:09 (2267)

2000-11-28 13:57:09# 126. lþ. 33.94 fundur 146#B málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[13:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér ber samkvæmt venju að þakka hæstv. ráðherrum fyrir svörin og er það gert hér með, en hitt verð ég að segja að mig undrar nokkuð framgangur þeirra, bæði hér í þessum umræðum og reyndar fyrr. Talsmenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. ráðherrar, hafa fyrst og fremst gengið þannig fram í þessu máli að kenna öðrum deiluaðilanum alfarið um og hvítþvo sjálfa sig af allri ábyrgð í málinu. Mætti þar bæta við framgöngu formanns menntmn., hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur, sem kemur reglubundið upp og amast við því að verkfall yfir tuttugu þúsund manna sé rætt á Alþingi, telur það mikla tímasóun og lýðskrum. (SAÞ: Það er rangtúlkun.)

Herra forseti. Ljóst er að ýmsu mætti enn bjarga í skólastarfinu ef tækist að leysa deiluna á allra næstu dögum en það þarf þá að gerast til þess a.m.k. þessi önn fari ekki í súginn. Það vekur spurningar, herra forseti, um hvað mönnum eins og hæstv. menntmrh. gengur til með skrifum á heimasíðu sinni eða ítrekuðum tilraunum hæstv. ráðherra, líka hæstv. fjmrh. sem var þó í öllu meira jafnvægi í málflutningi sínum, að gera forustumenn kennara ótrúverðuga, ráðast á þá sérstaklega og beina að þeim spjótum sínum. En það gera hæstv. ráðherrar.

Hverjir eru forustumenn kennara fyrir utan að vera kjörnir trúnaðarmenn og forustumenn þeirra sem stéttar? Þeir eru viðsemjendur þessara manna. Er það vænlegt til árangurs að kasta sprengjum og ráðast að viðsemjendum sínum inn í miðri kjaradeilu? Þessir hæstv. menn ættu að hafa fyrir sig persónulegar hugleiðingar af því tagi sem lesa má í skrifum þeirra og halda þeim þar á meðan þeir eiga í viðræðum við þessa menn um lausn vandasamrar kjaradeilu. Það þarf ekki að kunna nema hálft starfrófið í samningaviðræðum, herra forseti, til að sjá hversu ógæfuleg þessi framganga hæstv. ríkisstjórnarinnar er. Hér verður að verða breyting á.