Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 17:02:10 (2302)

2000-11-28 17:02:10# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[17:02]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sýndi mér þann heiður að nefna nafn mitt í ræðu sinni og spurði með miklum bægslagangi hvort ég ætlaði að samþykkja þetta frv. Mér finnst sjálfsagt að svara því hér og nú að ég ætla að sjálfsögðu að samþykkja þetta frv. sem ég tel vera til mikilla bóta, ekki síst fyrir fólkið á landsbyggðinni sem fær núna lækkaða fasteignaskatta sína um á annan milljarð króna. Landsbyggðin hefur barist árum saman fyrir því að menn þurfi ekki að borga sama fasteignaskatt af verðlitlu 100 fermetra húsi á Raufarhöfn og sambærilegu húsi í Reykjavík sem er kannski tvisvar, þrisvar sinnum dýrara á fasteignamarkaðnum. Þetta er réttlætismál sem ég tel til mikilla bóta.

En fyrst ég er kominn hingað þá hlýt ég að lýsa ákveðnum áhyggjum yfir málflutningi Samfylkingarinnar í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. Samfylkingin talar í hring í hverju málinu á fætur öðru. Hér kemur hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson bæði í 1. og 2. umr. um málið og hundskammar ríkisstjórnina fyrir skattahækkanir vegna þess að hér er heimild til sveitarstjórnanna að hækka útsvar um einhver brot úr prósenti sem er svo þeirra mál hvort þau nota eða ekki. Á sama tíma er formaður Samfylkingarinnar og fleiri forustumenn hennar, mánuð eftir mánuð, alveg stanslaust frá því fyrir kosningar í fyrra, að skamma ríkisstjórnina fyrir skattalækkanir vegna þess að hún lækkaði tekjuskattinn um 4 prósentustig. Það er einhver mesta skattalækkun Íslandssögunnar og á náttúrlega stærstan þátt í því að kaupmáttur hefur aukist meira á Íslandi á undanförnum árun en í nokkru öðru landi. Sem sagt móti skattahækkunum, með skattahækkunum, þetta er allt í hring. Samfylkingin talar í hring. Einn segir: Það á að hækka skatta. Annar segir: Það má ekki hækka skatta. Einn segir: Það á að hækka framlögin til sveitarfélaganna. Annar segir: Það þarf að lækka útgjöld ríkisins, þau eru alveg komin úr böndunum.

Þetta er ástæðan fyrir því, hæstv. forseti, að þjóðin treystir ekki Samfylkingunni eins og kemur fram í hverri einustu skoðanakönnum mánuð eftir mánuð þar sem blessuð Samfylkingin mælist stöðugt minni en vinstri grænir. Þó að ég hafi ekki miklar mætur á skoðunum vinstri grænna almennt þá tala þeir þó einum rómi, þeir segja það sama að morgni og að kvöldi. Það gerir Samfylkingin ekki.