Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 21:22:14 (2333)

2000-11-28 21:22:14# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GunnB
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[21:22]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Hér er fjallað um frv. um breytingu á lögum um tekjur sveitarfélaga ásamt lækkun á tekjuskatti ríkisins.

Samningaviðræður hafa alllengi staðið milli ríkis og sveitarfélaga og er mál að linni. Það hefur tekið mörg ár að lenda þessu máli. Skipuð var nefnd sem starfaði um langa hríð og komst að niðurstöðu sem sveitarfélögin sættu sig við með bókun. Það er sú niðurstaða sem ég styð.

Þetta er langt ferli. Ég byrjaði í sveitarstjórnarmálum 1990 og er ýmsu vanur í samskiptum mínum við ríkið. Þá var hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir félmrh. --- þá var hennar tími. Ég ætla að fara yfir nokkur atriði sem kunna að vera ástæða þess að sveitarfélögin þurftu að fá þessa hækkun á tekjum. Ég tel þetta einungis fyrsta skrefið af mörgum í þessu máli. (ÁRJ: Allt Jóhönnu að kenna.) Við skulum byrja á að fara yfir nokkur atriði í þessu. Ég held að það sé mjög hollt fyrir hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að rifja þetta upp með mér.

Ég ætla að byrja á árunum 1992--1995. Þá var lagður á sveitarfélögin svokallaður lögregluskattur, síðan svokallað framlag í Atvinnuleysistryggingasjóð. Hér er fullt af fyrrv. félagsmálaráðherrum, t.d. hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson. Á sveitarfélögin var lagt að greiða framlag í Atvinnuleysistryggingasjóð. Fyrir sveitarfélagið mitt, Kópavog, þýddi þetta 42 milljónir árið 1994. Framreiknað væru það 60 milljónir í dag sem þýðir 700--900 millj. í skatt á sveitarfélögin í landinu, á fólkið í landinu. Þetta gerði hæstv. þáv. félmrh. sem kemur nú iðulega í ræðustól og ásakar ríkisstjórnina um skattheimtu á fólkið í landinu. Þetta er það fyrsta en sem betur fer er nú búið að fella þetta niður.

Þá vil ég benda á annað sem sveitarfélögin sitja enn uppi með og það er óafturkræft framlag til félagslegra íbúða, 3,5% af byggingarkostnaði. Því var komið á árið 1992. Það var líka í tíð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Sveitarstjórnir voru ekki mjög kátar með þetta en létu það yfir sig ganga.

Þá má nefna að árið 1992 var endurgreiðsla ríkis á skipulagsgjöldum lækkuð. Þetta þýddi nokkra tugi milljóna fyrir sveitarfélögin í landinu. Allt telur þetta. Árið 1992 var endurgreiðsla ríkisins á skipulagsgjöldum einnig felld niður að hluta. Svona var alls staðar reynt að krafsa í sveitarfélögin. Ég held að það væri hollt fyrir fólk að rifja þetta upp. Eins og ég segi: Mál er að linni og vonandi að ríki og sveitarfélög nái saman í þessum málum. Árið 1992 var einnig lagt á sveitarfélögin þjónustugjald til Fasteignamats ríkisins. Þegar þetta allt hafði dunið yfir árið 1992 tók ég þetta saman að gamni og skrifaði um þetta í málgagn okkar hér í Kópavogi, gerði það árlega 1992--1996. En þáv. félmrh. var ekki aldeilis hætt.

Árið 1993 var krafist af sveitarfélögum framlags til Atvinnuleysistryggingajóðs. Árið 1993 var aðstöðugjald afnumið. Það kom sér vel fyrir suma, það var reiknað með 80% innheimtu af álögðu aðstöðugjaldi. Fyrir mitt sveitarfélag þýddi þetta 30--40 millj. á ári, þar sem innheimtan var hærri en 80%. Þetta var gott fyrir sveitarfélög sem höfðu lágt aðstöðugjald þó að þetta væri sanngjarnt fyrir atvinnulífið. En þetta var tekið af tekjum sveitarfélaganna, það er klárt.

Árið 1993 var virðisaukaskattur lagður á hita, rafmagn, bækur og tímarit. Það var kostnaðarauki fyrir sveitarfélögin. Árið 1994 var landsútsvar fellt niður og hvarf úr tekjum sveitarfélaganna. Árið 1994 var einnig tekið atvinnuleysistryggingagjald af launatekjum. Árið 1994 þurfti að greiða fyrir pláss á leikskólum Ríkisspítalanna. Það var lagt á sveitarfélögin. Auðvitað voru þetta álögur. Þeim var mótmælt og lofað að koma á viðræðum en þáv. félagsmálaráðherrar sinntu því lítið.

Árið 1995 var síðan ákveðið að undanþiggja greiðslur launþega til lífeyrissjóða, að hámarki 4%, álagningu tekjuskatts og útsvars. Þessi breyting kom til framkvæmda í þrepum á árunum 1995--1997. Í ársbyrjun 1997 var enn fremur lögfest heimild til að undanþiggja allt að 2% viðbótarframlag til lífeyrissjóða frá skatti.

[21:30]

Síðan er það fjármagnstekjuskatturinn sem varð sveitarfélögunum ekki mikil gæfa. Ljóst er að kostnaður sveitarfélaganna við upptöku fjármagnstekjuskattsins er sá að sveitarfélögin þurfa að greiða fjármagnstekjuskatt af vöxtum og arði og söluhagnaði hlutabréfa. Síðan er það kannski aðalmálið og við erum að sjá það núna þegar verið er að gera fjárhagsáætlanir fyrir sveitarfélögin, og af því að fyrri umræða um fjárhagsáætlun Kópavogs stendur yfir, þá er eitt sem menn rak í vörðurnar með að eftiráálagning skatta á einyrkja og annað hefur farið hlutfallslega minnkandi ár frá ári. Upptaka fjármagnstekjuskattsins sem leggst á arð og annað hefur haft í för með sér að nú þykir fínt að borga sér meðalgóð laun og leggja síðan hagnaðinn fram sem arð og greiða af því fjármagnstekjuskatt. Þetta hefur líka minnkað tekjur sveitarfélaganna.

Árið 1996 kom framlag frá sveitarfélögunum til Neyðarlínunnar 112. (Gripið fram í: Hvað var ...) Grunnskólinn var fluttur yfir 1996 og 1997 og fólk hefur verið að tala mikið um kostnað vegna grunnskólans og sitt sýnist hverjum í því. Hver endurskoðunarskrifstofan á fætur annarri hefur verið að reikna það út og fengið mismunandi niðurstöður. Ég held að báðir aðilar hafi nokkuð til síns máls. Ljóst er að eftir að návígið jókst varðandi grunnskólana, þá jókst kostnaðurinn, þjónustan var bætt. Það eru hreinar línur. Það kostaði peninga og sumt er erfitt að meta, annað er hægt að reikna. Sum sveitarfélög hafa farið óvarlega varðandi hækkun launa í þeim geira og setið uppi með slakan rekstur á eftir og átt erfitt um vik. En hin mikla uppsveifla í íslensku efnahagslífi varð sveitarfélögunum til bjargar þannig að ávinningurinn af því kom m.a. til að mæta kostnaði við grunnskólann. Annars hefðu sveitarfélögin verið áfram að keyra á halla því að fræðslumálin eru um 45--50% af rekstri sveitarfélaganna.

Ég er búinn að nefna skattfrelsi lífeyrisiðgjalda en síðan er það viðbót lífeyrissparnaðar og mótframlag sveitarfélaga sem kemur 1997 og svo er það allra nýjasta að viðbótarlífeyrissparnaður er aukinn og mótframlag enn hækkað árið 2000. Þá er söluhagnaður af sölu félagslegra íbúða lagður í varasjóðinn og 5% óafturkræft framlag í varasjóð Íbúðalánasjóðs vegna viðbótarlána.

Ég er því búinn að tína hér upp 25--26 atriði þar sem hallar á sveitarfélögin í viðskiptunum við ríkið. Það var einmitt þetta sem hin ágæta nefnd --- sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson var í og hann hefur væntanlega það allt á hraðbergi sem ég var að tína hérna upp --- var að koma leiðréttingu á. Ég tel þá leiðréttingu alls ekki næga, það eru alveg hreinar línur. En ég segi: Þetta varð niðurstaðan og þetta er fyrsta skrefið.

Það er náttúrlega margt annað í þessu fyrir sveitarfélögin úti á landi, eins og að heyra sönginn í hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þar sem ég tel að þetta sé mikil kjarabót fyrir fólkið á landsbyggðinni að fá 1.100 millj. kr. niðurgreiðslu á fasteignasköttum, þó að ég sé ekki hrifinn af öllu þessu mixi í jöfnunarsjóði. En ég tel þetta mikla kjarabót og til mikilla bóta til að stöðva þennan gegndarlausa flótta af landsbyggðinni hingað á höfuðborgarsvæðið, sem mér finnst vera lítið að sækja fyrir margt þetta fólk sem er að flytja af landsbyggðinni. Auk heldur eru fólksfækkunarframlög fyrir sveitarfélögin úti á landi til að rétta þau af og þau eru ekkert ofhaldin í sínum málum, það er alveg ljóst.

Mikið hefur verið talað um skattahækkanir og allt hvaðeina. Ljóst er að þessi lausn þýðir einhverjar skattahækkanir, en þær eru hverfandi nema sveitarfélögin muni nýta sér að fullu þær hækkanir. Sveitarfélögin hafa ekki og geta ekki ákveðið álögur sínar mörg ár fram í tímann, menn gera það eitt ár í senn og verða að skila því inn til félmrn. fyrir 1. desember ár hvert. Flestöll sveitarfélögin hafa nýtt sér þá 0,66% hækkun sem verður vonandi lögfest á þingi. En ég er ekki viss um að menn muni hækka útsvar um 0,33% árið 2002. En fólk er að reikna þetta og í pólitískum tilgangi á hinn versta veg og þar kannski helgar tilgangurinn meðalið hjá mörgum.

En ég tel að við eigum ekki að stoppa hér, ríkið og sveitarfélögin eiga að halda áfram að ræða saman og finna lausn á sínum málum. Sem betur fer hefur verið uppgangur hjá ríkissjóði og góð stjórn á efnahagsmálum. En uppgangur hefur verið misjafn hjá sveitarfélögunum. Ég get nefnt sveitarfélag mitt, af því að verið er að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2001 í dag, þar sem rekstur bæjarfélagsins með vöxtum er á milli 63% og 64%, þar sem við nýttum okkur þó útsvarsheimildina upp á 0,66%. Veldur hver á heldur, sums staðar er þetta betra en annars staðar.

Auðvitað vilja sveitarfélögin fá meiri peninga. Þetta er alltaf sama glíman þegar tveir aðilar eru að skipta á milli sín skatttekjum landsmanna. Það er bara eðlilegt að menn togist á um það.

Á árum áður skrifaði ég í málgagnið okkar lista á hverju ári yfir það sem verið var að taka af okkur og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrv. félmrh., var hvað hörðust í, bara eins og að drekka vatn. Það var ekki talað um fólkið sem minna mátti sín í þá daga. Þess vegna gekk málflutningurinn í efh.- og viðskn. í gærkvöldi algjörlega fram af mér sem sveitarstjórnarmanni að koma inn í.

Þar var annar sveitarstjórnarmaður, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. Ég hef ekki séð jafnmikinn leikaraskap í seinni tíð eins og þarna var.

En svona er staðan og við eigum að styðja þetta, halda áfram að tala saman um málið og komast að niðurstöðu. Ég er alveg sammála því að sveitarfélögin eiga að fá meira en þau fengu og tel þetta einungis fyrsta skrefið.

Einnig má benda á að áform eru um hækkun barnabóta, eins og hér hefur komið fram. Ekkert hefur verið rætt um það í þessu sambandi, ég bara minni á að það er líka til umfjöllunar í þinginu. (Gripið fram í.) Ég er einungis að minna á það sem vel er gert.