Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 21:43:51 (2338)

2000-11-28 21:43:51# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[21:43]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst satt að segja ömurlegt að hlusta á formann bæjarráðs Kópavogs standa hér og verja almennar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar á íbúa í Kópavogi.

Ég fagna því að fá tækifæri til að rifja upp ráðherratíð mína sem félmrh. og ráðherra sveitarstjórnarmála sem hv. þm. gaf tilefni til, vegna þess að í þessari ágætu skýrslu er sérstaklega tekið til árið 1990, þegar sú sem hér stendur var ráðherra, hve vel hefði til tekist og því var slegið föstu að markmið breytingarinnar, sem var ein stærsta breyting sem gerð var á tekjustofnamálum og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga árið 1990 hafi tekist mjög vel. En árið 1991 byrjaði að halla undan fæti þegar Sjálfstfl. kom til valda í ríkisstjórninni, þá fyrst byrjaði að halla undan fæti. Og einnig, herra forseti, þó tekjur ríkissjóðs hafi aukist sl. sex ár um 64 milljarða, en á þeim tíma sem sú sem hér stendur var ráðherra, varð lítil tekjuaukning hjá ríkissjóði.