Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 21:56:28 (2350)

2000-11-28 21:56:28# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[21:56]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Einn þáttur og ekki lítill í því að halda landinu í byggð er að tryggja að sveitarfélögin geti veitt eðlilega þjónustu við íbúana eins og þeim reyndar ber. Á þetta skortir núorðið víða í byggðum landsins enda hafa sveitarfélögin verið svelt í tekjum í áratug eins og fjölmargar skýrslur og gögn frá sveitarfélögum og samtökum þeirra sýna og einnig ummæli einstakra sveitarstjórnarmanna. Slíkt ástand árum saman er með öllu óbærilegt.

Nú er lagt til í því frv. sem við höfum rætt lengi dags að komið verði á móts við þennan vanda að nokkru leyti en þó ekki nægjanlega að mati margra þeirra sveitarstjórnarmanna sem fjallað hafa um þessi mál. Reyndar skilaði tekjustofnanefndin af sér með sérstakri bókun af hálfu sveitarstjórnarmannanna. Í máli sveitarstjórnarmanna hefur komið fram að þeir hafa talið að það þyrfti 2,5% í útsvari til að sveitarfélögin byggju við það að vera nokkuð sæmilega haldin til framtíðar varðandi tekjur sínar eins og ástandið er nú. Eins og hefur komið fram í umræðum í dag hafa sveitarfélögin safnað skuldum í áratug.

Auðvitað eru sveitarfélögin misjafnlega á vegi stödd og þau sjálfsagt verst sem orðið hafa fyrir mestum tekjusamdrætti og þaðan sem mestur fólksflóttinn hefur verið.

Það er ákaflega erfiður kostur fyrir sveitarfélögin og fólkið sem þar býr að þurfa að búa við það jafnvel í heilan áratug að þar sé nánast ekkert hægt að gera í verklegum framkvæmdum. Þar geri menn ekkert annað en að halda sjó og illa það. Í sveitarfélögum sem þannig er orðið ástatt fyrir er margt farið að skorta í alls konar framkvæmdum sem eðlilegt væri að sveitarfélögin gætu veitt.

[22:00]

Ákveðinn vanda á að leysa með þeim tillögum sem birtast í frv., annars vegar með því að taka á því sem reyndar hefur verið baráttumál landsbyggðarfólks lengi, þ.e. að fasteignagjöld á landsbyggðinni séu í samræmi við verðgildi fasteigna á viðkomandi stöðum. Með frv. er það lagt til og auðvitað ber að fagna því skrefi.

Jafnframt er lögð til sérstök aðgerð til þess að koma til móts við vanda sveitarfélaga sem verða af miklum tekjum af þessari tilfærslu. Þetta er réttlát aðgerð og hefði mátt framkvæma fyrir löngu síðan. Fólk á landsbyggðinni hefur verið að borga fasteignagjöld af húsum sínum í samræmi við verðlag á Reykjavíkursvæðinu þó að verðgildi fasteignanna sé oft og tíðum hemingi lægra og jafnvel meira, eins og þekkt er. Þetta hefur verið ósanngjörn skattheimta eins og hún hefur verið framkvæmd og ber að fagna því að þessu er núna breytt.

Síðan er lögð til í frv. tvenns konar útsvarshækkun samanlagt upp á 0,99% og að fyrri hluti þess komi þegar á næsta ári upp á 0,66. Á móti ætlar ríkið að lækka tekjuskatt að hluta til. Það er hins vegar svo að þau sveitarfélög sem ég hef gert að umræðuefni í mínu máli og verst eru stödd og í mjög erfiðri stöðu fjárhagslega munu vafalaust þurfa að nýta sér útsvarsheimildina að fullu bæði á næsta ári og þar næsta ári. Þá standa menn frammi fyrir því að fólk sem býr á þeim stöðum fær á sig skattahækkun og er kannski ekki á bætandi eins og atvinnuástandið hefur verið sums staðar og tekjusamdráttur í sveitarfélögunum. En mér sýnast allar líkur benda til þess að mörg sveitarfélögin eigi ekki annars kost en taka það sem í boði er varðandi útsvarið og nýta þann tekjustofn að fullu. Staða þeirra er einfaldlega þannig að þau hafa ekkert val.

Deilan stendur fyrst og fremst um þetta, þ.e. að af hendi ríkisvaldsins skuli menn ekki vera tilbúnir að leggja til á móti meiri lækkun á tekjuskattinum þannig að ekki verði raunveruleg hækkun vegna þessa.

Ég hef eitt við meðferð þessa máls að athuga. Málið hefur verið unnið úti í bæ eins og sagt er, unnið af ákveðinni nefnd og síðan fáum við það inn í þingið og eigum að klára það á mjög stuttum tíma. Það er ekki góð málsmeðferð fyrir okkur þingmenn sem eigum að fjalla um málið að þurfa að taka við því á þennan hátt án þess að hafa fengið að fylgjast með málinu á vinnslustigi að einhverju leyti. Mun betra hefði verið ef upplýsingar í málinu hefðu borist til þingnefnda og verið ræddar í nefndum eða þá að þingflokkum hefði verið kynnt málið á einhvern hátt. Við stöndum frammi fyrir því að meiri hluti Alþingis hefur lagt þetta til og mun sjálfsagt fara með þetta í gegn óbreytt. Ég vil samt ítreka að í þessum tillögum eru liðir eins og varðandi fasteignaskattana sem ég tel til bóta.

Mig langar aðeins að víkja að nokkru sem kom fram í umræðunni fyrr í dag og mér fannst nokkuð merkilegar upplýsingar, þ.e. þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir upplýsti af hverju sveitarfélögin annars vegar og ríkið hins vegar urðu af tekjum vegna þess að lögum um frestun á skattlagningu söluhagnaðar var breytt. Hún upplýsti að miðað við bréf sem hún vitnaði til frá ríkisskattstjóra hefðu sveitarfélögin orðið af tveimur milljörðum í tekjum á síðustu tveimur árum, ef ég hef skilið hennar mál rétt, vegna þess ákvæðis að sett var í lög að menn gætu frestað skattlagningu söluhagnaðar og að ríkið hefði orðið af tekjum upp á 6,5 milljarða vegna sömu lagabreytinga síðustu tvö ár. Þarna er verið að ívilna þeim sem hafa verið að taka mikinn hagnað í þjóðfélaginu. Í þessu sambandi kemur upp í hugann það sem nefnt hefur verið útstreymi á fé úr sjávarútveginum í gegnum sölu aflaheimildanna og þegar menn hafa verið að taka þann verðmætisauka sem orðið hefur, a.m.k. er bókfærður, og gengur í þjóðfélaginu undir nafninu sala á aflakvótum eða leiga á aflakvótum. Þetta hefur margoft verið rætt í Alþingi og verið vitnað til þess að skuldir sjávarútvegsins hafi aukist og það sé vegna þess að menn hafi tekið mikið fé út á sjávarútveginn. Miðað við þær upplýsingar sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi í dag þá er ekki verið að tala um neina smápeninga. Við erum í raun að tala um hátt í helminginn af því sem verið er núna mögulega að færa til sveitarfélaganna ef öll sveitarfélögin nýta heimildir sínar í botn við hækkun útsvarsins.

Í skýrslu tekjustofnanefndar kemur fram að fulltrúar sveitarfélaganna hafa afgreitt þær tillögur sem hér eru settar í frumvarpsform með bókun. Ég ætla að leyfa mér að lesa hana. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Bókun fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga í tekjustofnanefnd.

Tekjustofnanefnd hefur frá upphafi lagt áherslu á vandaða öflun og úrvinnslu gagna um fjárhagslega stöðu og afkomu sveitarfélaganna. Tölulegar niðurstöður eru allar á einn veg og leiða ótvírætt í ljós að mjög hefur hallað á sveitarfélögin í fjármálalegum samskiptum þeirra við ríkið allt frá árinu 1991.

Öll rök benda til þess að auka þurfi árlegar tekjur sveitarfélaganna í heild um 6--7 milljarða króna. Við teljum að nú séu forsendur fyrir því að ríkið geti að sama skapi dregið úr skattheimtu sinni og höfum við bent á ýmsar leiðir til útfærslu í því sambandi. Harmað er að fulltrúar ríkisvaldsins í nefndinni hafa ekki fallist á að koma nægjanlega til móts við tillögur okkar um að rétta hlut sveitarfélaganna til samræmis við það sem á þau hefur hallað á undanförnum árum þrátt fyrir ítarlegan rökstuðning og kröfur okkar þar að lútandi.

Við leggjum áherslu á að fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga séu stöðugt til um fjöllunar milli fulltrúa þeirra. Við treystum því að viðvarandi formlegt samstarf ríkis og sveitarfélaga verði um efnahagsmál þar sem fjallað er um þróun í fjármálum og kjaramálum, samanber yfirlýsingu aðila frá 16. desember 1999. Með slíkum vinnubrögðum ættu ávallt að liggja fyrir faglegar niðurstöður um þróun fjármálalegra samskipta ríkis og sveitarfélaga.

Við teljum að sameiginlegar tillögur nefndarinnar séu fyrsta skrefið í áttina til frekari eflingar tekjustofnum sveitarfélaganna. Í trausti þess að framvegis verði kostnaðarmetin öll lagafrumvörp og stjórnvaldsákvarðanir er sveitarfélögin varða, eins og gert er ráð fyrir í tillögu nefndarinnar, undirritum við tillögur hennar.``

Undir þetta skrifa Eggert Jónsson, Ingimundur Sigurpálsson og Guðmundur Bjarnason.

Það var einmitt umræddur Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, sem gerði grein fyrir því á ráðstefnu sveitarfélaga að þeirra mat væri að sveitarfélögin þyrftu 2,5% í útsvari til þess að geta tekist á við þann vanda sem þar er kominn upp og vafalaust hefur það verið byggt á þeirri úttekt að það væri það sem menn þyrftu að meðaltali. Þá situr enn þá eftir, eins og í öllum meðaltölum, vandi þeirra sem verst eru settir.

Það er alveg ljóst, eins og ég gerði að umræðuefni í upphafi máls míns, að þau sveitarfélög sem skuldsettust eru og í mestum erfiðleikum hafa átt vegna tekjubrests, vegna brotthvarfs skipa og aflaheimilda úr byggðarlögum og vegna fækkunar íbúa, eru afar illa sett. Þau eiga fáa kosti, svo að ég endurtaki það, aðra en nýta algerlega í botn þær útsvarshækkanir sem boðið er upp á samkvæmt þessu frv. Það þýðir skattahækkun í sveitarfélögum sem á undanförnum árum hafa orðið að draga úr þjónustu við íbúana.

Þetta er óásættanlegt hlutskipti til framtíðar. Þess vegna hlýtur krafan að verða sú að fylgja eftir þessari bókun fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga um að tekjustofnar til sveitarfélaganna verði bættir frekar en hér er lagt til. En það er greinilegt að ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki tilbúnir að ganga lengra í þessu máli. Það má merkja af málflutningi þeirra í þinginu. Þá er kannski rétt í lokin að ítreka það að hækkun útsvars upp á 0,66 á næsta ári og 0,33 á árinu 2002, sem gerð er ráð fyrir í þessu frv. um tekjustofna sveitarfélaga, nægir ekki til þess að koma sveitarfélögunum í hallalausan rekstur.

Ríkinu er enginn sómi að því að sýna góðan afgang á fjárlögum en láta sveitarfélögin safna skuldum árum saman eins og komið hefur fram bæði á ráðstefnum sveitarfélaganna um fjármál þeirra og hjá einstökum sveitarstjórnarmönnum.

Ég ætla ekki að teygja þessa umræðu lengur. Búið er að fjalla ítarlega um þessi mál í dag. Ég er búin að lýsa skoðun minni og tel að hér sé of skammt gengið fyrir sveitarfélögin svo þau megi takast á við þann vanda sem safnast hefur upp á heilum áratug vegna óréttlátrar tekjuskiptingar.