Flutningur eldfimra efna

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 13:55:47 (2381)

2000-11-29 13:55:47# 126. lþ. 34.3 fundur 212. mál: #A flutningur eldfimra efna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[13:55]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hefur oft komið upp í þingsal að þingmenn hafa miklar áhyggjur af flutningi eldfimra efna um vegi landsins, bæði vegna þeirrar auknu slysahættu sem þetta skapar og einnig vegna mengunarhættu ef t.d. slíkt farartæki kæmi til með að velta. Oftast hefur slík umræða komið upp varðandi Reykjanesbraut en nú nýlega varð mikil umræða vegna þáltill. Guðjóns Guðmundssonar o.fl. um flutning eldfimra efna um Hvalfjarðargöng. Tilefni þeirrar tillögu var m.a. frétt um að árlega væru flutt 180 tonn af própangasi frá Straumsvík til Grundartanga og þessir flutningar færu fram fyrir hádegi á sama tíma og gríðarleg umferð er á viðkomandi vegum, hvað þá í sjálfum Hvalfjarðargöngum. Vinnueftirlitið hefur bent á þá hættu sem sé í göngunum þegar verið er að flytja eldfim efni og beint því til dómsmrh. að setja reglur um þetta því það sé að sjálfsögðu ekki í verkahring Vinnueftirlitsins þar sem dómsmrh. er æðsti yfirmaður umferðarmála í landinu.

En það er ekki aðeins á Vesturlandsveginum og í Hvalfjarðargöngum sem ástandið er viðsjárvert. Margoft hefur borið á góma á hinu háa Alþingi gríðarlega eldsneytisflutninga suður á Keflavíkurflugvöll þar sem allt flugvélabensín og annað bensín og olíur, sem eru notuð á Suðurnesjum, er flutt alla daga á tönkum utan úr Skerjafirði gegnum Reykjavík og nærliggjandi byggðir eftir vegum sem anna engan veginn þeirri umferð sem þarna fer um og sem leið liggur til Suðurnesja eftir Keflavíkurveginum sem hefur gríðarlega slysatíðni og mikla umferð að degi til. Þarna eru m.a. á ferðinni farmar af öllu því flugvélabensíni sem utanlandsflugið notar. Um þessa flutninga gilda heldur engar reglur, t.d. um að þeir fari fram að næturlagi meðan umferð er minnst.

Þessa dagana ber hátt fréttaflutning af hræðilegu slysi í göngum í Austurríki og ekki fer hjá því að manni detti í hug hvort andvaraleysi Íslendinga í þessum málum sé forsvaranlegt, að ekki skuli hafa verið settar skýrar reglur, þ.e. takmarkanir á því hvaða efni má yfirleitt flytja t.d. um jarðgöng og á hvaða tímum sólarhrings eldsneytisflutningar fari fram. Ég spyr því hæstv. dómsmrh. hvort og þá hvenær hún hyggst setja skýrar reglur um flutning eldfimra efna um þjóðvegi landsins.