Notendabúnaðardeild Landssíma Íslands

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:26:51 (2393)

2000-11-29 14:26:51# 126. lþ. 34.5 fundur 257. mál: #A notendabúnaðardeild Landssíma Íslands# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:26]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Í fyrsta lagi spyr hv. þm. sem hafði ekki tíma til að lesa upp spurningar sínar:

Veitti ráðherra Landssímanum heimild til þess að selja eða afhenda notendabúnaðardeild fyrirtækisins sem annaðist sölu og þjónustu símkerfa og tengds búnaðar til fyrirtækja um síðustu áramót? Ef svo er ekki, hver tók ákvörðun um að selja?

Svar mitt er eftirfarandi: Eins og öllum er kunnugt um er þróun fjarskipta undraverð. Samruni hljóðs, myndar og gagna er staðreynd sem öll framsækin fjarskiptafyrirtæki hafa brugðist við með því að veita betri, fjölbreyttari og ódýrari þjónustu. Landssími Íslands hefur eins og önnur íslensk fjarskiptafyrirtæki borið gæfu til þess að fjárfesta markvisst í hugbúnaðar- og þróunarfyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum í upplýsingatækni. Jafnframt hefur fyrirtækið efnt til samstarfs við ýmis fyrirtæki um þróun hugbúnaðarlausna fyrir fjarskiptaþjónustu í stað þess að byggja upp eigin hugbúnaðardeildir í því skyni. Þannig hefur mörgum íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum gefist kostur á að þróa lausnir í samstarfi við tæknimenn Símans og reyna þær bæði frá tæknilegu og viðskiptalegu sjónarmiði. Sumar þessara lausna hafa þegar verið seldar til útlanda. Þetta er sama þróun og í öllum öðrum ríkjum Vestur-Evrópu. Það er orðið hefðbundnum fjarskiptafyrirtækjum nauðsynlegt að veita alhliða samskiptaþjónustu. Með skynsamlegri fjárfestingarstefnu hefur Síminn lagt grunn að áframhaldandi vexti fyrirtækisins þrátt fyrir lækkun á markaðshlutdeild fyrirtækisins í hefðbundinni fjarskiptaþjónustu sem er óhjákvæmileg í öflugri samkeppni. Þetta eru skynsamleg viðbrögð til að tryggja gengi fyrirtækisins og vaxandi verðgildi á komandi árum.

Stjórn fyrirtækisins ákvað á síðasta ári að færa fyrirtækjaþjónustu notendabúnaðardeildar Landssímans yfir í dótturfélag símans, Grunn -- Gagnalausnir frá 1. jan. 2000 að telja. Fyrir því voru ýmsar ástæður, auk þeirra sem ég gat um áðan. Í fyrsta lagi var verulegt tap af þeirri starfsemi og nauðsynlegt að leita allra leiða til að snúa tapi yfir í hagnað án þess að draga úr þjónustunni.

Í öðru lagi var það mat stjórnenda Landssímans að fyrirtækið þyrfti að geta veitt öflugri þjónustu við samtengingu tölvu- og símkerfa en það hafði gert. Þá var í raun tveggja kosta völ. Annars vegar að ráða inn í fyrirtækið sjálft sérhæfða tölvumenn og fjölga þannig starfsmönnum Símans eða hins vegar stofna til samstarfs við aðila sem hafði mikla þekkingu á tölvusviðinu. Síðari kosturinn var valinn eins og hér hefur komið fram. Stofnað var sérstakt fyrirtæki Grunnur -- Gagnalausnir sem nú er í eigu Símans að 80%, en Opin kerfi eiga 20%. Ég ber fullt traust til stjórnar Landssímans í þessum efnum og legg reyndar áherslu á að stjórnin sé virk og eigi frumkvæði að bættum rekstri fyrirtækisins. Þar undir fellur stofnun Grunns -- Gagnalausna. Auk þess legg ég mikla áherslu á þá staðreynd að Ríkisendurskoðun lagði mat á eignirnar og komst að þeirri niðurstöðu að verðmæti þeirra efnislegu og óefnislegu fjármuna sem lagðir voru til Grunns -- Gagnalausna hafi ekki verið of lágt metið. Í ljósi þess sá ég enga ástæðu til að gera athugasemd við þessa ákvörðun stjórnar Landssímans.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Hver var velta notendabúnaðardeildar fyrirtækisins árið 1999? Heildarvelta notendabúnaðardeildar Landssímans árið 1999 var 887.993.432 kr. Ég legg áherslu á að þessi fjárhæð er heildarvelta deildarinnar sem nær bæði til ytri viðskipta og þjónustu við Landssímann sjálfan. Hins vegar var aðeins hluti af starfsemi notendabúnaðardeildarinnar færður yfir í Grunn -- Gagnalausnir. Það var einungis sala á símstöðvum, símkerfum og tengdum búnaði til fyrirtækja og þjónustu tengdri þeim. Það eru um það bil 225 millj. kr. af tæplega 890 millj. sem veltan var í deildinni.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: Telur ráðherra samræmast lögum nr. 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Pósts og síma, að selja deild út úr fyrirtækinu? Lokamálsliður 1. mgr. 2. gr. laga um stofnun hlutafélags Póst- og símamálastofnunar er svohljóðandi:

,,Þá skal félaginu einnig heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum.``

Auk þess má benda á 3. mgr. 2. gr. laganna sem heimilar hlutafélaginu að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt. Í skýringum með þessu ákvæði segir berum orðum að með því sé m.a. átt við aðild hlutafélagsins að öðrum félögum. Það kom fram í ræðu í þinginu þegar mælt var fyrir frv. Með þessum ákvæðum er Landssímanum veitt ótvíræð heimild til að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum. Í öðrum ákvæðum laganna eru ákveðnar takmarkanir á þessari heimild hvað varðar leyfisbundna starfsemi félagsins. Á hinn bóginn eru engar takmarkanir í lögum nr. 103/1996 hvað varðar þá þætti í starfsemi félagsins sem eru ekki háðir rekstrarleyfi og að fullu í samkeppnisumhverfi eins og hér um ræðir. Það er því niðurstaða mín að sú ráðstöfun að hluti notendabúnaðardeildarinnar verði yfirtekinn af Grunni -- Gagnalausnum samræmist lögum nr. 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar.