B-landamærastöðvar á Íslandi

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:51:00 (2401)

2000-11-29 14:51:00# 126. lþ. 34.6 fundur 256. mál: #A B-landamærastöðvar á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:51]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svar hans við þessari fyrirspurn. Þar hefur margt komið fram og kannski er það mest um vert að verið er að vinna í þessu af fullum krafti á vegum stjórnvalda sem er ákaflega brýnt. Að mínu mati þolir málið ekki mikla bið.

Það hefur líka komið upp í huga minn hvort nokkur hætta sé á því að íslenskir embættismenn séu að oftúlka eitthvað af þeim reglum sem settar eru af þessu apparati úti í Brussel. Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvort við séum nokkuð að ganga of langt. Það hefur komið fram í ýmsum öðrum málum sem varða túlkun á evrópska efnahagssamningnum að menn geta stundum farið út í oftúlkun þannig að ég vildi spyrja út í það.

Ég vil jafnframt hvetja ráðherra til dáða hvað það varðar að ná þarna viðunandi lendingu fyrir hin ýmsu pláss úti á landi og segja það einnig að ekki er hægt að una við að stórkostlegur munur verði á kostnaði við svona lagað eða því hvort hægt verði að reka rækjuverksmiðjur á Skagaströnd eða Akureyri. Það verður að jafna þennan mun og þetta verður að koma eins út. Fyrirtækin verða að greiða alls staðar jafnan kostnað.

Ég vil taka það skýrt fram að ég er alls ekki að gagnrýna að það þurfi heilbrigðisskoðun í þessu. Ég hef fullan skilning á því. Þetta eru varúðarreglur og kannski er ekki nema von að þær séu hertar núna. Ég ítreka það og segi að ég er sammála því að passað sé upp á það.

Ég vil líka láta koma fram í sambandi við kostnað fyrirtækjanna að töluvert stórt atriði sem blandast inn í þetta mál er að ekki skuli vera hægt að landa þessum afla nema á nokkrum höfnum eins og hér hefur komið fram, og kemur þar inn í náttúrlega tekjutap viðkomandi hafna. Þá má spyrja: Er nokkur sanngirni í því að Skagastrandarhöfn (Forseti hringir.) skuli tapa miklum tekjum við það að ekki megi landa þessum afla þar heldur verði að sigla honum til Akureyrar og keyra hann svo frá Akureyri til Skagastrandar?