Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 15:55:23 (2423)

2000-11-29 15:55:23# 126. lþ. 36.1 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., Frsm. 1. minni hluta GÖ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 126. lþ.

[15:55]

Frsm. 1. minni hluta félmn. (Guðrún Ögmundsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa hér langt mál. Ég veit að það var búið að semja um að ganga frá þessu máli núna. Það eru aðeins örfáir atriði sem mig langar til að árétta.

Það sem hér liggur fyrir er sú lending sem varð að samkomulagi milli sveitarfélaga og ríkisins. Ákveðna þætti á eftir að leysa. Það á t.d. eftir að skoða niðurgreiðslu af vöxtum vegna leiguíbúða sem er stórt mál milli ríkis og sveitarfélaga. Það er eitt af því sem skoða verður. Vegna biðlista eftir leiguíbúðum er afar brýnt að það fjárhagslega dæmi verði gert upp. Það eru því heilmörg verkefni sem liggja fyrir í þessu samráði.

Mér fannst sveitarstjórnir óska þess að ríkið lækkaði tekjuskattinn meira á móti í stað þess að rétta fram tékka sem enginn þyrði að innleysa vegna pólitísks ástands í sveitarfélaginu, ef svo mætti að orði komast.

Í áliti okkar, 1. minni hluta félmn., er áréttað að samráð milli ríkis og sveitarfélaga verði gert enn virkara þannig að það sem þó hefur verið gert geti orðið vísir að framhaldi í þeim efnum. Einnig vil ég minnast á hugmyndir sveitarfélaganna um hvernig aðkoman gæti orðið t.d. með óbeinum sköttum. Það þarf einnig að skoða.

Það sem stendur upp úr er kannski að þetta virka samráð haldi áfram og tekið verði á hlutunum jafnóðum þannig að ekki kastist í kekki milli þessara aðila. Við vitum að kostnaður við grunnskólann eykst stöðugt. Til stendur að flytja málefni fatlaðra til sveitarfélaganna. Það gæti orðið stærra mál. Mér finnst því afar mikilvægt að samráðið verði aukið enn frekar eins og sveitarfélögin hafa óskað. En eins og kom fram í 2. umr. munu þingmenn Samfylkingarinnar sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.