Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 12:09:45 (2430)

2000-11-30 12:09:45# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[12:09]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. skaut sér undan því að svara spurningu minni. Hún er þessi: Hefur forusta Framsfl. aðra sýn á hættuna sem felst í viðskiptahallanum en forusta Sjálfstfl.?

Það hefur komið fram hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni að hann telur viðskiptahallann óviðunandi. Hann telur hann ekki góðkynja. Hann telur hann beinlínis hættulegan. Hæstv. forsrh. hefur ítrekað sagt að viðskiptahallinn sé góðkynja vegna þess að hann stafi af einkaneyslu en ekki fjárfestingum hins opinbera og fyrirtækja. Hann hefur líka sagt að ekki þurfi að óttast viðskiptahallann.

Nú er það að vísu svo að viðskiptahallinn er mun verri en jafnvel hv. þm. Jón Kristjánsson sagði áðan. Ég spyr þess vegna hv. þm. aftur: Telur hann að það aðhald sem sýnt er í núverandi fjárlagafrv. sé nóg til þess að vinna bug á þessum viðskiptahalla? Hann svaraði því ekki áðan. Ég er nefnilega sammála honum um að viðskiptahallinn er óviðunandi. Samfylkingin hefur sagt það núna missirum saman að hætta væri á því að gengið veiktist verulega vegna viðskiptahallans. Þetta hefur allt saman komið fram og ég held að því miður að ekki séu öll kurl til grafar komin í þeim efnum.