Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 14:04:13 (2458)

2000-11-30 14:04:13# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2001 kemur nú til 2. umr. Endurskoðuð tekjuáætlun og lánsfjáráætlun liggur ekki fyrir og niðurstaða liggur heldur ekki fyrir um mörg mikilvæg málefni, svo sem fjárþörf heilbrigðisgeirans, málefni Byggðastofnunar og Ríkisútvarpsins, svo eitthvað sé nefnt. Þá er enn beðið eftir svari menntamálaráðuneytisins við aukinni fjárþörf framhaldsskólanna og mati á henni. Þess vegna má telja fullvíst að gjaldahlið frumvarpsins muni taka nokkrum breytingum við 3. umr.

Stærsti liður í brtt. meiri hlutans sem hér eru lagðar fram eru framlög til sveitarfélaga vegna endurskoðunar á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga í samræmi við það frv. sem var samþykkt nýverið um breytta tekjuskiptingu á milli þessara aðila. Herra forseti. Mat velflestra ef ekki allra sveitarfélaga er að sú leiðrétting sem hér er gerð sé allsendis ófullnægjandi. Auk þess standa þar veigamiklir þættir út af svo sem menntamálin og húsnæðismálin svo það sé nefnt þannig að þó að sú breyting sem þarna er verið að gera sé spor í rétta átt þá er hún fjarri því að mæta þeim vanda og þörf sem þarna var fyrir hendi.

Þetta fjárlagafrumvarp er nú tekið til 2. umr. við miklar óvissuaðstæður. Viðskiptahallinn stefnir í 60 milljarða kr. á þessu ári. Gengi krónunnar er fallandi og hefur þurft að verja háum fjárhæðum í erlendum gjaldmiðlum henni til varnar. Það er einnig dálítið ankannalegt að þrátt fyrir yfirlýsingar um góðæri og rekstrarfgang ríkissjóðs er gjaldeyrisstaðan svo þröng að ríkissjóði er ókleift að greiða niður erlend lán. Tekjur ríkisins eru enn fremur að miklu leyti tengdar sköttum á innflutning og veltu í þjóðfélaginu. Verði viðskiptahalli nálægt 60 milljörðum er hann nærri tvöfalt meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum þess árs. Tekjur ríkissjóðs munu því væntanlega hækka verulega á árinu samsvarandi þessari auknu neyslu og þenslu í þjóðfélaginu.

Áætlanir um tekjur og gjöld ríkissjóðs á næsta ári eru í mikilli óvissu og geta orðið í algeru uppnámi ef samdráttur verður í innflutningi sem verður að gerast ef jafnvægi á að nást. Þá er mikil óvissa í atvinnulífinu og öflun aukinna þjóðartekna ef hagvöxtur verður með minna móti eins og haustspá Þjóðhagsstofnunar gerir ráð fyrir.

Herra forseti. Þessi mikli viðskiptahalli má þó ekki verða til þess að hræða Íslendinga til að selja eignir sínar úr landi til þess að létta á þeirri stöðu. Ég vara við þeim málflutningi sem hvetur til þess að þjónustueignir Íslendinga svo sem Síminn og orkuver séu seld úr landi til þess að létta á viðskiptahalla við útlönd sem er til kominn m.a. vegna neyslu. Það er sama hver ástæðan er, við eigum að reka okkar þjóðarbúskap þannig að við þurfum ekki að selja eignir úr landi til þess að bjarga okkur við. Ég vara við allri umræðu sem lýtur að þessu í umræðunni um viðskiptahallann. Hversu alvarlegur sem hann er þá þarf að vinna að rótum hans og hann er hér innan lands í rekstri þjóðarskútunnar, í rekstri á mörgum þáttum almennings og fyrirtækja, sjóða og banka og fleira má nefna. Markmiðið er að styrkja og efla íslenskt atvinnulíf til þess að skapa aukna framleiðslu og aukna framleiðni og standa þar með undir auknum lífskjörum sem við öll stefnum að en ekki bregðast við því með því að selja okkar góðu eignir, okkar góðu mjólkurkýr úr landi til þess að standa straum af eyðsluskuldum erlendis.

Herra forseti. Kjaradeila framhaldsskólanna er í hnút og mörg stéttarfélög eru með lausa samninga og það er því veruleg óvissa á vinnumarkaði. Þetta er sú umgjörð sem við nú fjöllum um og umgjörð fjárlagafrv. sem við nú erum að vinna að fyrir næsta ár.

Herra forseti. Ég vil víkja nokkuð að störfum fjárln. Frá því síðla í september hafa fulltrúar sveitarfélaga, stofnana, félagasamtaka og einstaklingar komið til fundar við nefndina. Þeir hafa borið fram erindi sín, greint frá áherslum, veitt upplýsingar og lagt fram beiðnir um framlög. Þetta fólk hefur lagt á sig mikla vinnu, oft komið um langan veg og lagt fram vönduð og greinargóð erindi. Þessar heimsóknir til fjárln. eru afar þýðingarmiklar fyrir fjárlagavinnuna og tengsl Alþingis við þjóðina. Því er mikilvægt að halda þeim dyrum opnum sem bjóða upp á samskipti við fólkið í landinu. Það er varhugavert ef einstök ráðuneyti letja forstöðumenn sína og ábyrgðaraðila til þess að koma fyrir nefndina og kynna vinnu og þarfir stofnana sinna. Stofnanir bera margs konar samfélagsskyldur víða í þjóðfélaginu en eru ekki bara bókhaldstofur fyrir einstakar rekstrareiningar ráðuneyta. Ég veit engin dæmi til þess að fjárln. hafi hafnað viðtali. Það er mun frekar að hún hafi átt frumkvæði að því að kalla fulltrúa ýmissa stofnana fyrir sig til þess að gera grein fyrir einstaka málaflokkum. Ég legg áherslu á þetta, herra forseti, mikilvægi þessa frelsis sem allar stofnanir og allir aðilar í þjóðfélaginu eiga að hafa á Alþingi og á nefndum þess.

Ríkisendurskoðun gerir nú reglulega úttekt á frammistöðu framkvæmdarvaldsins, ráðstöfun fjár og hvernig opinberir aðilar rækja skyldur sínar. Mikilvægt er að fjárlaganefnd taki skýrslur og álit Ríkisendurskoðunar fljótt og örugglega til umræðu og hafi þær til ályktunar eða hliðsjónar í sínum gerðum. Það er samróma álit innan fjárln., og legg ég áherslu á að því verði fylgt eftir af einurð, að skýrslum Ríkisendurskoðunar sé skilað til Alþingis með umsögn nefndarinnar eftir því sem við á.

Þá ber að leggja áherslu á skyldur fjárln. við Alþingi og ótvírætt sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu. Mikilvægi þessa ber sérstaklega að árétta þegar meiri hlutinn að baki ríkisstjórninni er mjög stór, eins og nú er raunin. En almennt má segja að það ríki kerfislægur þrýstingur af hálfu framkvæmdarvaldsins í þá átt að segja löggjafanum fyrir verkum. Lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, sem kveða á um meðferð ríkisfjármuna, fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga ýta undir þessa tilhneigingu.

Um framkvæmd fjárlaga segir í 30. gr.:

,,Einstökum ráðherrum er heimilt, með samþykki fjármálaráðherra, að gera verksamninga og samninga um rekstrarverkefni, sem undir ráðuneytið heyra, til lengri tíma en eins árs við þá ríkisstofnun sem sinnt hefur verkefninu, aðrar ríkisstofnanir, sveitarfélög eða einkaaðila, enda sé áætlað fyrir verkefninu á fjárlögum. Með rekstrarverkefni er átt við afmarkaða rekstrarþætti eða rekstur ríkisstofnunar í heild sinni vegna viðfangsefna eða þjónustu sem ýmist er kveðið á um í lögum að ríkið skuli veita og standa undir kostnaði af eða eru liðir í því að ríkisaðili geti rækt hlutverk sitt.``

Með leyfi herra forseta vitnaði ég í lög um fjárreiður ríkisins.

Þessai ákvæði eru tilgreind hér sérstaklega því þarna er að finna smugur fyrir framkvæmdarvaldið til að ákveða fjárframlög til stórra og lítilla málaflokka og viðfangsefna án þess að Alþingi fái miklu ráðið. Í skjóli þessa ákvæðis er samið um víðfeðm verkefni, t.d. við hin svokölluðu reynslusveitarfélög og við Háskóla Íslands, samið um framlög til framhaldsskóla, framlög í heilbrigðiskerfinu svo dæmi séu nefnd. Þarna falla einnig undir ýmsir safnliðir ráðuneytanna og óskipt fé ráðherra. Alvarlegast er þó hvernig verið er að beita þessu ákvæði til að einkavæða ýmsa mikilvæga opinbera þjónustu, svo sem innan heilbrigðiskerfisins og þá sérstaklega innan menntakerfisins. Ef svo fer fram sem verið hefur nú síðustu ár er stutt í það að meginþorri útgjalda einstakra ráðuneyta renni til þeirra sem ein heildarupphæð, óskipt. Síðan mun framkvæmdarvaldið tilkynna að gerðir hafi verið hinir og þessir þjónustusamningar, eða árangursstjórnunarsamningar, þar sem útgjaldaskipting hefur verið gerð á grundvelli þessara eða hinna reiknilíkana sem ráðuneytin hafa unnið. Skipting fjár á einstaka rekstrarliði og viðfangsefni verður því komin úr höndum löggjafans og til framkvæmdarvaldsins sem mun eðli sínu samkvæmt vera sérstaklega upptekið af hinni bókhaldslegu hlið viðfangsefna.

Sá sem hér talar telur að fyrrgreind ákvæði fjárreiðulaganna séu túlkuð allt of rúmt af framkvæmdarvaldinu. Það getur ekki hafa verið ætlun löggjafans að meginþorri útgjalda ríkisins sé bundinn með þessum hætti, því að þannig er gengið á móti góðum og gegnum lýðræðislegum gildum sem við byggjum okkar stjórnskipan á. Við þessa ráðstöfun verður viðbragðsgeta framkvæmdarvaldsins gagnvart pólitískum vilja og ákvörðunum Alþingis takmörkuð og það getur hindrað nauðsynlega endurskipulagningu og nýsköpun sem Alþingi vill ná fram.

[14:15]

Herra forseti. Ég vil víkja að málefnum framhaldsskólanna en miklar deilur hafa einmitt staðið um ágæti þeirra reiknilíkana sem þar er verið að beita. Ég vek athygli á því að í frv. til fjárlaga sem við höfum til meðhöndlunar er hvergi í greinargerðum minnst á stöðu einstakra framhaldsskóla heldur á framhaldsskólapakkann sem eina heild.

Það er deginum ljósara að fjárhagsvandi framhaldsmenntunarinnar og framhaldsskólanna er ein af ástæðunum fyrir þeirri deilu sem við stöndum nú frammi fyrir og að skólahald skuli liggja niðri vegna kjaradeilna. Það vantar inn bæði nýtt fjármagn og ekki hvað síst ný vinnubrögð.

Herra forseti. Ég vek athygli á erindi sem Ingibjörg Guðmundsdóttir, skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík, flutti á aðalfundi Félags framhaldsskóla á Ísafirði í júní árið 2000. Hún segir í lokaorðum sínum eftir að hún hafði fjallað um kosti og galla reiknilíkansins sem notað er til að deila út fjármagni til framhaldsskólanna og er mjög umdeilt, með leyfi hæstv. forseta:

,,Skólameistarar hafa í raun lítil völd þegar fjármál skólanna eru annars vegar en eiga þó að bera ábyrgð á öllu skólastarfinu og að námskrá, lögum og reglum sé fylgt. Vandi þeirra er mikill. Fjárlagatillögum skólanna er sjaldan svarað og erfitt er að fá skýra mynd á fjárhag skólanna. Nokkrir aðilar eru að sýsla með fjármálin og upplýsingastreymi til skólameistara er lítið. Eitt lítið dæmi af sjálfri mér:`` --- segir þessi ágæti skólameistari. --- ,,Fyrir páska var ég kölluð í menntamálaráðuneytið til að fara yfir stöðu skólans og þá var mér tjáð að skólinn væri 1,7 millj. í plús á sl. ári og átti þá eftir að leiðrétta fyrir auknum nemendaígildum sem mér væri tjáð að væru 4 millj. en ég taldi að ættu að vera 8 millj. og lýsti óánægju minni með skerðingarákvæði reiknilíkansins. Í framhaldi fundarins skrifaði ég bréf um uppgjörið en hef enn ekki fengið svar`` --- þetta var flutt í sumar --- ,,tveimur mánuðum seinna.`` --- Hún lýkur sínum orðum: --- ,,Þessi vinnubrögð ganga auðvitað ekki og við verðum öll að leggjast á eitt um að finna úrbætur sem duga til að gera fjármálastjórnun skólanna skiljanlega. Reiknilíkanið þarf að endurskoða þannig að það sýni raunkostnað við skólahald sem uppfyllir lög og reglugerðir og þjónar æsku landsins að því marki sem nútíminn gerir kröfu til.``

Ég vek sérstaka athygli á því, herra forseti, að vandi framhaldsskólanna er margþættur. Fjármagn vantar en það vantar líka að dreifa valdi til skólanna og gera þeim kleift að takast á við nýsköpun, nýjar þarfir og breytt viðhorf sem þeir standa frammi fyrir á hverjum stað. Breyting reiknilíkana af því tagi sem hér er gert leiðir einungis til aukinnar miðstýringar og færir ákvörðunarvaldið frá staðnum þar sem verkin eru unnin.

Herra forseti. Alþingi liggur nú undir gagnrýni fyrir að vera í of miklum mæli afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Þess vegna er afar mikilvægt að vera á varðbergi gagnvart öllum misfellum sem geta verið túlkaðar í þessa veru. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs vilja aðra forgangsröðun í útgjöldum ríkisins en ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Fjárlögum ríkisins á að beita til að auka jöfnuð í samfélaginu þannig að enginn þurfi að líða vegna aldurs, fötlunar eða búsetu. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur enn fremur til að tekjum ríkisins verði í auknum mæli varið til menntunar og rannsókna og enn fremur að stefna í atvinnumálum taki fullt mið af sjálfbærri nýtingu náttúruauðlindanna og að tekið verði upp grænt bókhald þegar meta skal arðsemi í atvinnurekstri og ákvörðun framkvæmda. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munu því flytja brtt. við frv. sem taka mið af þessum áherslum flokksins.

Eins og fram hefur komið í umræðunum eru stórir málaflokkar, svo sem heilbrigðisstofnanir, byggðamál, fjarkennsla og fjarvinnsla á ýmsum liðum menntamála enn þá óafgreiddir og bíða 3. umr. frv. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munu því áskilja sér rétt til að flytja brtt. við þá málaflokka við 3. umr. eftir því sem tilefni gefur og tillögur meiri hlutans eru komnar fram.

Ég hef áður vakið athygli á því í umræðunni að tekjuhlið fjárlagafrv. og efnahagsforsendur næsta árs, endurskoðuð tekjuhlið og endurskoðaðar efnahagsforsendur fyrir næsta ár liggja ekki fyrir og ætlunin er að þær komi til umræðu við 3. umr. fjárlagafrv.

Herra forseti. Ég legg áherslu á að hér ætti að verða breyting á. Það ætti að verða sú breyting að tekju- og efnahagsáætlun fyrir næsta ár ætti að verða rædd við 2. umr. fjárlaga. Þar væri lagður grunnurinn að því sem síðan væri ætlunin að ákveða hvernig tekjum skuli varið á næsta ári og 3. umr. fjárlaga færi þá einmitt í það að taka endanlega ákvörðun um gjöld fjárlaganna á grundvelli síðustu og nýjustu tekjuáætlunar og efnahagsforsendna sem fjárlögin eru síðan afgreidd á. Eins og við höfum upplifað, bæði í ár og í fyrra, verða miklar breytingar á þessum áætlunum á milli mánaða. Ef það á að nást að taka fastari tökum um fjármál ríkisins þarf að styrkja innviðina í vinnubrögðum okkar á Alþingi. Við eigum að leita allra leiða til þess að ná árangri og að Alþingi og stofnanir þess geti orðið til fyrirmyndar í áætlanagerð og fjármálastjórn.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs flytja allnokkrar brtt. sem verða kynntar síðar í umræðunni og jafnframt eru einstakir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs meðflm. að tillögum sem lúta að velferðarmálum með þingmönnum Frjálslynda flokksins.