Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 16:43:37 (2487)

2000-11-30 16:43:37# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[16:43]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. fór hér yfir það sem hann vildi leggja áherslu á í máli sínu um fjárlögin og byrjaði á því að Framsfl. hefði staðið fyrir byltingarkenndum breytingum í samfélaginu. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að uppsveifla hefur verið í samfélaginu núna undanfarin fjögur, fimm ár a.m.k. Um þátt Framsfl. skal ég ekkert segja. Hitt er hins vegar alveg ljóst að upp eru hrannast óveðursský í efnahagsmálum. Ég held að um það sé almennt ekki deilt. Í ljósi þess sem Framsfl. hefur gert vænti ég þess að Framsfl. hafi einhver svör við þeim blikum sem eru á lofti í efnahagsmálum.

Ég vil bera upp tvær spurningar við hv. þm. Í fyrsta lagi hvaða skoðun hann hafi á þeirri fullyrðingu að góðærið, sérstaklega núna undanfarið eitt og hálft ár, sé fyrst og femst fjármagnað með lánsfé. Ýmislegt styður þá fullyrðingu, m.a. það að þjóðhagsáætlun gerir ráð fyrir að útflutningstekjur dragist saman. Það segir okkur að arður af miklum útlánum er ekki að skila sér sem skyldi í aukinni verðmætaaukningu í samfélaginu. Þess vegna spyr ég hv. þm. hvort hann sé þeirrar skoðunar að góðærið hafi að einhverju leyti verið fjármagnað með lánsfé. Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þm. í ljósi þess viðskiptahalla sem hér hefur verið og gengis krónunnar, hvaða hugmyndir eða aðgerðir Framsfl. hefur til þess að takast á við þann ógnvænlega viðskiptahalla sem er. Og hann er vitaskuld miklu hættulegri í ljósi þeirrar markaðsáhættu sem samfélagið tekur með því að breyta innviðum sínum eins og gert hefur verið nú á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar.