Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 22:29:44 (2515)

2000-11-30 22:29:44# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[22:29]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Kristjánssyni, formanni fjárln., svörin. Mér finnst það í senn gott að menn skuli ekki vera búnir að afgreiða húsnæðismálin vegna þess að það væri áhyggjuefni ef sú lausn sem hér liggur á borðinu væri það sem við ættum að búa við á næsta ári. En ég segi í senn gott og slæmt og áhyggjuefni að fjárln. skuli ekki hafa tekið á þessum alvarlega vanda fram til þessa. Ég held að vandinn í húsnæðismálum sé einn alvarlegasti vandinn sem við búum við í þjóðfélagi okkar nú um stundir.

Varðandi barnabæturnar var ég ekki að gera lítið úr einu eða neinu. Ég var að setja málin í samhengi. Ég var að vísu að draga svolítið úr háttstemmdum yfirlýsingum sem hafa einkum komið frá Framsfl. og vekja athygli á því að eftir að aukningin kemur til sögunnar á næstu þremur árum eins og fyrirhugað er verðum við ekki með barnabætur eins miklar að raungildi og þær voru fyrir 10 árum. Ég vil vekja athygli á þessu. Ég vil vekja athygli á því að ótekjutengdar barnabætur, sem koma nú til barna fram að 7 ára aldri, verða um 33 þús. kr., eru lægri en þær voru 1997. Þá var ótekjutengdi hlutinn að jafnaði 40 þús. og var til allra barna til 16 ára aldurs. Ég er að vekja athygli á þessu.

Hv. þm. spurði hvort ég vildi að allar barnabætur væru ótekjutengdar. Ég vil draga úr tekjutengingunni. Ég er ekki tilbúinn að ganga alla leið í því efni. Ég vil t.d. styrkja stöðu einstæðra foreldra. Mér finnst að þeir eigi að fá meira en þeir sem eru í sambúð. En ég hef stundum talað fyrir því að það eigi að fara aðrar leiðir í tekjutengingunni en við gerum núna. Ég kem kannski inn á það í síðara andsvari mínu.