Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 22:44:04 (2522)

2000-11-30 22:44:04# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[22:44]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þeim sem hér stendur er nokkur vandi á höndum. Í aðalatriðum hafa farið fram tvenns konar umræður í dag. Annars vegar hafa verið fluttar ræður sem fjalla um einstök verkefni í frv. og hins vegar ræður um almenn áhrif þess, um almenn efnahagsmál, horfur í þeim og áhrif fjárlagafrv. á þau.

Stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hlýtur að vera grunnstef fjárlagafrv. Því er eðlilegt að það sé skoðað í samhengi við yfirlýsingar ráðherranna um stefnuna. En ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa talað fullum hálsi um að þeir beiti ríkisfjármálunum af fullum krafti til að halda aftur af þenslu. Þess vegna er athyglisvert að skoða hver ríkisútgjöldin voru þegar þessi ríkisstjórn tók við og hver þau eru núna. Í ljós kemur að á árinu 1994 voru ríkisútgjöldin um það bil 134 milljarðar. Nú eru menn að tala um 210 milljarða útgjöld, og það á sama verðlagi, þ.e. á verðlagi ársins 1999. Umfang ríkisútgjaldanna hefur aukist þetta mikið á þessum tíma, um hátt í 70 milljarða. Það segir sína sögu um aðhaldið sem hér hefur verið talað um af hálfu stjórnarliða.

[22:45]

Auðvitað er sumt af þessari aukningu óhjákvæmilegt, svo sem í heilbrigðismálum. Hins vegar er sárt að sjá að á sama tíma og veður á súðum í ríkisfjármálum þá er framlag til menntamála ekki aukið eins og þyrfti að vera. Samfylkingin hefur lagt fram tillögur sínar um úrbætur í menntamálum og þar er full ástæða til að gera betur. Í þessum tveimur málaflokkum, þ.e. í heilbrigðismálum og menntamálum, ætti helst að halda uppi kraftinum en draga saman á öðrum sviðum. Af málinu í heild má sjá að ekki er um neitt aðhald að ræða í ríkisútgjöldum nema í menntamálum þar sem allt er í svartasta lágmarki.

Hægt er að segja um frv. í heild að allt fram streymi endalaust. Allir sem hafa til þess hugmyndaflug að biðja um peninga virðast fá úrlausn hjá ríkisstjórninni og fjárln. Hver er þá bakgrunnur þessa fjárlagafrv.? Er staða ríkissjóðs svo góð að hann standi til frambúðar undir sambærilegum útgjöldum og nú eru? Nei, afgangurinn sem stjórnarliðar hæla sér af er til kominn vegna tekna af þenslu, innflutningi vegna hennar, vegna ofurspennu á vinnumarkaði og þar af leiðandi hærri tekna einstaklinga og fyrirtækja. Ljóst er að þegar dregur úr spennu í atvinnulífinu, sem gerast verður á næstunni ef ekki á illa að fara, munu tekjur ríkissjóðs dragast mikið saman og falla niður í það sem þær voru fyrir þremur til fjórum árum síðan. Að öðru óbreyttu mundi það hafa í för með sér að annaðhvort yrði að hækka skatta verulega eða skera niður ríkisútgjöld.

Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að óbreyttir tekjustofnar verði til staðar hjá ríkissjóði fram í tímann. Það er vegna þess að ríkissjóður er með úrelta tekjustofna sem ekki er hægt að draga lengur að breyta. Þar má nefnda eignarskatta en ítrekað hefur komið fram í umræðum hér á hv. Alþingi að almennt sé talið rétt að leggja þá af til samræmis við skatta í nágrannalöndunum. Einnig má nefna stimpilgjöld, skatt sem er úreltur fyrir löngu og hefur reyndar aldrei haft eðlilegan rökstuðning nema kannski á þeim tíma sem verðbólgan geisaði mest. Þá voru forréttindi að fá að taka lán. Í dag eru stimpilgjöld ósanngjarn skattur sem styðst ekki við neinn eðlilegan rökstuðning. Það hefur líka komið ítrekað fram að stjórnarliðar vilja lækka skatta á atvinnulífið. Síðast í kvöld komu yfirlýsingar frá hv. þm. stjórnarliðsins um þetta.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hélt hér miklar ræður um það í kvöld að lækka þyrfti skatta á atvinnulífið til að gera það samkeppnishæft og tryggja efnahagslega stöðu í landinu. Verði sömu flokkar við völd áfram virðist augljóst að tekjugrunnur ríkissjóðs muni rýrna mjög á næstu árum. Hvaða líkur eru á að það verði samdráttur í efnahagslífinu? Það eru menn ekki sammála um en ég tel að samdrátturinn verði annaðhvort mikill og harkalegur núna, sem hefði það í för með sér að staða banka, fjármálastofnana, hlutabréfaeigenda og annarra yrði í verulegri hættu eða, og það er að mínu viti líklegra, að enn erfiðari samdráttartími komi síðar. Ég tel það líklegra vegna þess að ég held að sameiginlegir hagsmunir ríkisstjórnarinnar, fjármálafyrirtækjanna og þeirra sem spila efnahagspókerinn í þessu landi muni duga til að koma í veg fyrir að raunverulegt gengi krónunnar komi í ljós. Ég held að áframhaldandi viðskiptahalli og sala á eignum ríkisins til útlendinga muni halda efnahagskerfinu gangandi um sinn.

Það er ljóst að samdráttur útlána og verulegt gengisfall mundi rústa fjármálakerfinu á Íslandi í dag. Bankarnir og fjármálastofnanir í landinu hafa lánað fjármuni með þeim hætti á undanförnum missirum að þær mundu ekki þola mikið gengisfall. Það liggur fyrir að bankarnir og aðrar fjármálastofnanir hafa lánað gífurlega fjármuni til hlutabréfakaupa. Þessi hlutabréf hafa verið keypt fyrir erlent lánsfé sem flutt hefur verið inn. Ef þessir aðilar verða fyrir miklum skakkaföllum þá munu þeir ekki geta borgað þessi lán. Veð bankanna í skuldabréfunum og hlutabréfunum munu ekki ganga upp í lánin.

Svo langt hafa menn gengið í þessari lánastarfsemi að þeir hafa lánað meira til hlutabréfakaupa en tekið minni veð í hlutabréfum en þeir taka í húsbyggingum í landinu. Svo langt hefur það gengið að allt að 90% af verði hlutabréfa hefur fengist lánað í bönkum. Verðfall á hlutabréfum í kjölfar fjármálakreppu sem upp kæmi ef gengið félli hefði það í för með sér að þessar eignir væru í mikilli hættu.

Eitt er ótalið sem skipta mundi sköpum fyrir gjaldeyrisstöðuna og viðhalda áframhaldandi spennu á vinnumarkaðinum. Það er stækkun álversins í Hvalfirði og uppbygging virkjana í tengslum við þá stækkun. Væri ekki góð niðurstaða að komast yfir þennan hjalla, þessi vandamál, með því að koma í veg fyrir að erlent gengi krónunnar kæmi í ljós, með því að að auka áfram á viðskiptahallann og flytja inn peninga? Ég held að það væri ekki góð niðurstaða. Ég trúi ekki á þessa stefnu. Að treysta á skuldasöfnun í formi viðskiptahalla til að fullnægja gjaldeyrisþörfinni er ekki góð tilhugsun til lengri tíma.

En það eru önnur ráð sem menn hafa minnt á að kæmu til greina og hv. þm. Framsfl. eru að komast á það stig að samþykkja þau ráð sjálfstæðismanna í ríkisstjórn. Ráðið er að selja eignir ríkisins til að fjármagna þennan vanda, fjármagna þörfina fyrir gjaldeyri. Það heyrist æ oftar nefnt að selja eigi Símann til útlendinga. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson svaraði fyrir það mjög hressilega í dag, að hann hefði skrifað undir það fyrir löngu síðan og það hefðu allir sem skrifuðu upp á EES-samninginn gert.

Ég hef út af fyrir sig ekki þannig tilfinningar gagnvart neinu ákveðnu fyrirtæki af þessu tagi á Íslandi að útlendingar megi ekki eiga í því, hvort sem það heitir sími eða eitthvað annað. Ég hef hins vegar megnustu vantrú á því að ríkið selji eigur sínar til að geta haldið áfram stefnunni. Á því hef ég mikla vantrú. Ef Íslendingar eru komnir á þá braut að þeir þurfi á því að halda að halda uppi viðskiptahalla til að flytja inn gjaldeyri og selja eigur sínar til að bæta í pottinn, þá bið ég fyrir framtíðinni. Með þessu eru menn að grafa undan efnahagskerfi landsins.

Við höfum haldið lífi í vinnumarkaðnum á Íslandi með einnota framkvæmdum, stórframkvæmdum, álversbyggingum og virkjunum, verslunarmiðstöðvum og öðrum slíkum framkvæmdum. Það hefur verið reyndin undanfarin ár. Orsök þessarar miklu spennu hér á landi eru einnota framkvæmdir. Verði sú raunin áfram hlýtur það að vera ábyrgum stjórnmálamönnum mikið áhyggjuefni. Stöðug uppbygging í atvinnulífinu er efnahagskerfinu nauðsyn en það er ekki heppilegt að sú uppbygging sé árum saman fólgin í stórframkvæmdum sem binda mikið vinnuafl í skamman tíma. En það er komin ný grundvallarhugsun í stjórn efnahagsmála á Íslandi. Jafnvægi í efnahagsmálum á að ná með væntingum og trú á markaðinn. Þessi markaður eða fjárhættuspilasalur hefur fætt af sér ótrúlega umfangsmikla starfsemi á fáum árum þar sem íslenska krónan er aðalleiksoppurinn og allar ákvarðanir byggjast á mati á verðmæti hennar í bráð og lengd. Það fer fram eins konar fjármálapóker með íslensku krónuna þar sem spámenn ráða örlögum einstaklinga, fyrirtækja og fjármálastofnana og þar með hagkerfisins. Þar fara fremstir efnahagssérfræðingar, spekúlantar í hlutabréfum og skuldabréfum, gengismálum, sérfræðingar í því hvað menn telja líklegt að stjórnvöld geri í efnahagsmálum, hvað Seðlabankinn geri í vaxtamálum og gengismálum, hvaða vaxtaþróun verði á markaðnum, hve miklir peningar verði fluttir úr landi, hve mikill gjaldeyrir verði fluttur inn í landið. Skilaboð spekúlantanna til umbjóðenda sinna hafa á undanförnum árum verið: Kaupið hlutabréf, kaupið skuldabréf, takið lán, kaupið meira og hækkið boðið. Markaðurinn leysir vandamálin. Hlustið bara á rétta ráðgjafa. Þessi heimur er spennandi og þóknanlegur efnahagsráðgjöfunum sem ríkisstjórnin tekur mark á og þeir telja viðskiptahallann góðkynja. Þeir telja að þörf sé á viðskiptahallanum a.m.k. þangað til nýjar gjaldeyrisuppsprettur koma í hans stað. Viðskiptahallinn stafar af einkaneyslu samkvæmt yfirlýsingum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar hér í dag. Hann segir að hæstv. forsrh. hafi erft vonda ráðgjafa frá forverum sínum og þeir hafi haldið uppi vitlausri gengisstefnu.

[23:00]

Þannig skildi ég hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. Og hann heimtaði meiri gengisfellingu. Hv. þm. hefur verið í útgerð og fyrir ekki mörgum árum síðan var krafan um gengisfellingu árleg og jafnvel mánaðarleg frá útgerðinni. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson telur að gengið sé enn of hátt.

En það umhverfi í efnahagsmálum sem pókerspil síðustu ára hefur skapað þolir ekki mikla gengisfellingu í viðbót við þau 10% sem eru komin á þessu ári. Hvað verður um hina nýju stétt, bréfakaupmennina, sem hefur skuldsett sig í erlendum myntum til að kaupa hlutabréf á Íslandi, ef hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fær að ráða og fær gengisfellinguna sína? Hvað verður um banka og fjármálastofnanir ef lán þeirra til aðila vegna hlutabréfabrasks komast í uppnám? Það er ekki mjög varlega farið. Bankarnir hafa tekið veð í pappírum upp á hátt í 90% af verðmæti pappíranna og svo falla pappírarnir í verði. Þar hafa menn engu gleymt og ekkert lært. Útlánatöpin eru á næsta leyti. Allt fjármálakerfið stendur völtum fótum. Fjármálakreppa gæti haldið innreið sína í kjölfar gjaldeyriskreppu sem mundi skapast vegna verðfalls krónunnar og vantrúar á hana og íslenskt efnahagslíf.

Síðasta stóra útspilið í fjárhættuspili íslenska fjármálakerfisins kom frá Seðlabankanum. Hann fleygði fleiri dollurum á borðið. Það eru 15 millj. dollara á borðinu á þessu ári frá Seðlabankanum. En samt hefur gengið fallið um 10%. Yfirlýsingar seðlabankastjórans um þetta og að verja ætti vikmörkin, vikmörk krónunnar fram í rauðan dauðann, hljómuðu sláandi líkt í eyrum mér og fréttir af sams konar yfirlýsingum fjármálaráðherra fyrri ára hinna ýmsu landa í kringum okkur, sem aldrei meðgengu neina hættu á gengisfalli fyrr en þeir tilkynntu hana og sögðu af sér um leið.

Íslenska hagkerfið er örsmátt. Að tengja svo smátt hagkerfi við umheiminn með frjálsum fjármagnsflutningum og halda jafnframt stöðugleika þess í pókerspili íslenska fjármálakerfisins er tafl sem ekki verður unnið með djarfri spilamennsku og líklega ekki þó varlega sé farið ef á bjátar.

Íslenska krónan er ótrúverðug í því fjármálaumhverfi sem hér hefur verið skapað og með þeirri stefnu sem nú er rekin. Margir hljóta að vantreysta henni og þar með stöðugleika efnahagslífsins í landinu. Iðnaðurinn, ferðaþjónustan og sjávarútvegurinn í landinu hafa liðið fyrir ónýta krónu sem stjórnað er með hagsmuni þeirra sem sitja við spilaborðið í huga en ekki með þarfir þessara atvinnuvega í huga. Yfir þessa stöðu verða stjórnmálamenn að fara. Það gæti orðið erfitt, það gæti orðið sárt þegar menn fara að velta því fyrir sér hvaða leiðir eru opnar, sem annaðhvort er leiðin til baka eða leið sem liggur til enn þá meira samstarfs við aðrar þjóðir.

Þátttaka í samkeppnisumhverfi umheimsins krefst jafnræðis fyrir íslensk fyrirtæki á öllum sviðum þar sem svipaðir vextir og gengi gjaldmiðla verða óhjákvæmilega grundvöllur samkeppninnar. Verði íslenska pókerumhverfið framtíðaraðstæður íslensks atvinnulífs í alþjóðasamkeppni er framtíð þess ekki björt.

Ég er ekki ósammála hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni um að gengisstefnan hafi verið óhagstæð útflutningsatvinnuvegunum. En ég held að við verðum að vona að hv. þm. verði ekki að ósk sinni um meiri gengisfellingu í bili. Því nú þarf lagni til og við þurfum að endurskoða efnahagsstefnuna og sú endurskoðun þarf að horfa til langrar framtíðar. Við þurfum stefnu sem er hugsuð og tekur tillit til atvinnuveganna og almennings í landinu og er ekki upptekin fyrst og fremst af pókerspili um óræða stærð hinnar íslensku krónu.