Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 17:28:13 (2638)

2000-12-04 17:28:13# 126. lþ. 39.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[17:28]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gerði fjárveitingar til utanrrh. að umræðuefni. Varðandi heimssýninguna í Hannover, að það hafa verið brtt. bæði í fjáraukalagafrv. og við 2. umr., þá eru skýringar á því að fjárveitingin í frv. var með fyrirvara um að það ætti eftir að selja sýningarskálann og brtt. er í ljósi þess að sýningarskálinn hefði verið seldur. Þá er það uppgjör á heimssýningunni. Ég vil að það komi fram.

Varðandi svo stefnumörkunina almennt, þá hef ég margsinnis tekið það fram í umræðunni að það er fullkomlega óeðlilegt að bera saman einskiptisfjárveitingar til fjárfestinga þó miklar séu í sendiráðum erlendis og framlög til rekstrar í velferðarkerfinu. Einnig er rangt að það hafi verið niðurskurður í velferðarkerfinu. Meiri peningum er varið til velferðarmála nú en áður þó auðvitað megi betur gera á mörgum sviðum, ég dreg ekkert úr því. Við bætum umræðuna ekkert með því að blanda saman einskiptisfjárveitingum til fjárfestinga og hvort við bætum inn í rekstrarkostnað ríkissjóðs varanlegum fjármunum. Við höfum verið að gera það og við stefnum að því að gera betur í þessum efnum.