Lyfjalög

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 17:45:43 (2643)

2000-12-04 17:45:43# 126. lþ. 39.7 fundur 300. mál: #A lyfjalög# (persónuvernd) frv. 173/2000, Frsm. JBjart
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[17:45]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum, þskj. 342, 300. mál.

Þetta er í sjálfu sér ekki flókið frv., aðeins ein grein og síðan gildistökuákvæði. Í 1. gr. segir:

,,Í stað orðanna ,,tölvunefndar, sbr. lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.`` í 2. mgr. 24. gr. laganna kemur: persónuverndar, sbr. lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.``

Á 125. þingi voru samþykkt lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í 46. gr. laga nr. 77/2000 er ákvæði sem breytir ákvæðum í öðrum lögum þar sem vísað er til eldri laga, nr. 121/1989. Við breytingu á lyfjalögum, sbr. lög nr. 108/2000, bættist nýr málsliður við 2. mgr. 24. gr. lyfjalaga þar sem kveðið er á um að lyfsölum sé skylt að afhenda Tryggingastofnun ríkisins rafrænar upplýsingar um af greiðslu lyfja, að fengnu samþykki tölvunefndar, sbr. lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.

Hér er lagt til að tilvísun 2. mgr. 24. gr. lyfjalaga, til laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, verði breytt þannig að tilvísun til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga komi í staðinn enda munu eldri lögin falla úr gildi 1. jan. nk.

Síðan er gert ráð fyrir að breyting þessi taki gildi 1. jan. 2001 sem er í samræmi við gildistöku laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.