Staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 13:33:24 (2675)

2000-12-05 13:33:24# 126. lþ. 40.94 fundur 168#B staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[13:33]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Undanfarnar vikur hefur á vegum Evrópusambandsins verið fjallað um tillögur dýralæknanefndar ESB um að banna allt dýramjöl í skepnufóður. Í gær var haldinn fundur landbúnaðarráðherra ESB og var á þeim fundi ákveðið að undanskilja fiskimjöl frá allsherjarbanni við dýramjöli.

Mikill meiri hluti ráðherranna samþykkti að leyfa fiskimjöl í svína-, alifugla- og fiskafóður en allt dýramjöl er bannað í nautgripa-, kinda- og geitafóður, þ.e. jórturdýr.

Nú þarf ekki að taka fram að hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir okkur Íslendinga. Stærstu mjölframleiðendur heimsins, Perú, Chile, Danmörk, Noregur og Ísland framleiddu á síðasta ári 3,7 millj. tonn, þar af Íslendingar 235 þús. tonn. Átta af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins reka fiskimjölsverksmiðjur en þær eru um 20 talsins í landinu öllu. Velta þessara fyrirtækja í mjöli og lýsi er á bilinu 10% og upp í 20% af veltu viðkomandi fyrirtækja.

Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi mjöl- og lýsisiðnaðarins fyrir íslenskt efnahagslíf. Rekstrarforsendur sjávarútvegsfyrirtækjanna eru í stórhættu, fjöldi starfa í óvissu, nótaskipaflotinn í erfiðleikum, tekjumissir sveitarfélaga, orkunotkun og skipafélög í rekstrarvanda vegna flutninga.

Enda þótt landbúnaðarráðherrar ESB hafi á fundi sínum í gær samþykkt að banna ekki fiskimjöl í fóður fyrir svín, alifugla og fiska, þá eru enn blikur á lofti. Takmörkun á díoxíninnihaldi í mjöli og lýsi verður á dagskrá hjá Evrópusambandinu 14. desember nk.

Eins og kunnugt er var framinn glæpur í kjöt- og beinamjölsverksmiðju í Belgíu á síðasta ári þar sem mikið magn af díoxínmengaðri smur- og/eða spennubreytaolíu var blandað í dýrafóðursframleiðsluna. Afleiðingar þessa slyss urðu m.a. þær að mikill pólitískur þrýstingur var settur á fulltrúa Evrópusambandsins að setja upp hámarksviðmiðunarmörk fyrir díoxín í alla efnishluta sem fara í dýrafóður þar með talið fiskimjöl og lýsi. Af þessu tilefni er ástæða til að spyrja hæstv. utanrrh. nokkurra spurninga.

1. Er ekki ástæða til að stjórnvöld taki sér tak varðandi rannsóknir og sýnatöku á díoxín? Slíkar rannsóknir gætu í náinni framtíð orðið forsenda þess að markaðssetja fiskimjöl og lýsi frá Íslandi. Það mun vera fjármagn til í sjútvrn. og e.t.v. getur hæstv. sjútvrh. upplýst um 13 millj. kr. en hingað til hafa díoxínmælingar verið framkvæmdir af fyrirtækjunum sjálfum. Þetta eru dýrar mælingar og er bundið erfiðleikum að framleiðendurnir sjálfir framkvæmi mælingarnar.

2. Er í undirbúningi reglugerð varðandi vinnslu á laxaúrgangi frá fiskeldisstöðvum? Slíkan úrgang má ekki vinna saman við fiskimjöl til fóðurs samkvæmt nýjum reglum ESB. Það mun vera svo að á Íslandi falli til um 300--400 tonn af laxaúrgangi og þeim úrgangi er í einhverjum tilfellum blandað inn í vinnsluferlið hjá viðkomandi verksmiðju.

3. Er ekki ráðlegt að opinber stjórnvöld á Íslandi herði allt eftirlit þar sem í ljós hefur komið að fiskimjöl hefur verið blandað með kjötmjöli m.a. af fyrirtæki sem Íslendingar hafa átt aðild að?

4. Má gera ráð fyrir því að Þjóðverjar og Frakkar fylgi í öllu nýjum samþykktum ESB en þeir höfðu áður sett strangari reglur?

5. Nú hefur ESB beint tilmælum til dýrafóðursframleiðenda að nota heldur mjöl frá Chile og Perú þar sem mengun mælist minni. Hefur verið unnið að því að fá íslenskar afurðir flokkaðar sér þar sem mengun hér er lítil og svipuð og í ofangreindum löndum, þ.e. Chile og Perú, í stað þess að flokka okkur með Norðursjónum sem er miklu mengaðri?

6. Er ekki tímabært fyrir okkur Íslendinga að gera átak sem mundi duga til þess að auka fullvinnslu á uppsjávarfiskum til manneldis?

Virðulegi forseti. Ég vænti umræðna um þessi mál. Þetta eru stórmál fyrir íslenskt efnahagslíf, stórmál fyrir landsbyggðina. Mjölvinnslan er okkur ákaflega mikilvæg og við megum ekki lenda í því að afurðir okkar séu flokkaðar með afurðum ESB-svæðisins sem eins og ég gat um áðan er stórmengað og eftir þeim upplýsingum sem ég hef erum við á svipuðu róli og þau framleiðslusvæði sem EB hefur beint framleiðendum sínum til.